138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

niðurfellingar skulda.

[10:29]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi skens um húðlit minn vil ég segja að ég get ekki hugsað þá hugsun til enda hvaða „trakteringar“ þeir menn fengju sem eru af erlendum uppruna og þyrftu að taka við ráðherraembætti. Við erum misjafnlega bleik af aldalangri veru í þessu landi og það er ekki við mig að sakast þó að genum mínum sé þannig fyrir komið að húðlitur minn er með nokkuð öðrum hætti en hábleikra Íslendinga.

Virðulegi forseti. Það stendur ekki upp á mig að ræða þetta mál. Sú leið sem lögð er til í grein hv. þm. Helga Hjörvars í dag felur í sér kostnað fyrir almenning, það er ekki hægt að líta fram hjá því. Hún felur auðvitað í sér kostnað fyrir lífeyrissjóði í landinu og rýrnun lífeyrisréttinda. Mér finnst að menn þurfi að koma með trúverðuga áætlun og útskýra það í smáatriðum hvernig réttlæta á þá tilfærslu fjármuna (Forseti hringir.) sem flöt niðurfelling felur í sér. Það er ekki að fullu gert í grein hv. þingmanns í morgun og það gerir hv. þingmaður ekki heldur hér.