138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

255. mál
[22:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef miklar áhyggjur af þeirri leið sem hæstv. ríkisstjórn hefur farið í þessu og hvernig nefndin tekur á því. Í fyrsta lagi að hafa þetta í tveimur sjóðum á sömu kennitölu, það býður heim þeirri hættu að menn reyni að ná í það sem eftir situr, að þegar Icesave-deildin hefur verið gerð upp reyni þeir að ganga á hitt. Þó að einhverjar krónur sparist í rekstrarkostnaði skil ég ekki að menn skuli ekki hafa þetta á tveimur kennitölum til að vera algjörlega búnir að skipta þessu í sundur.

Það sem mér þykir verst í þessu er að tilskipunin 2009/14/EB hefur alls ekki verið tekin upp á Evrópska efnahagssvæðinu. Hún hefur tekið gildi í Evrópusambandinu en ekki á Evrópska efnahagssvæðinu og þess vegna er óþarfi að taka hana upp. Það er óþarfi að taka hana upp því að í henni felst nefnilega ríkisábyrgð. Það er munurinn á þessum tveimur tilskipunum. Í tilskipun 1994/19/EB stendur mjög greinilega að kerfið skuli vera fjármagnað af innlánsstofnunum sjálfum eða fjármálastofnunum sjálfum. Þessi tilskipun segir að ríkin skuli tryggja að innstæður verði tryggðar upp að þessu marki. Það er sem sagt ríkisábyrgð á þessu. Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Af hverju í ósköpunum höfðu menn þetta ekki á tveimur kennitölum? Og í öðru lagi: Er ríkisábyrgð á þessum innstæðum upp að þessum mörkum?