138. löggjafarþing — 142. fundur,  16. júní 2010.

stjórn fiskveiða.

468. mál
[00:54]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni mikið réttlætismál sem byggist á því að allir sem eru með aflaheimildir, í hvaða tegund sem þær eru, setji að jöfnu inn í svokallaða potta sem eru notaðir til að koma til móts við þá sem verða fyrir skakkaföllum, hvort sem það eru rækju- eða skelbætur eða það sem er tekið til línuívilnunar eða strandveiða. Það er löngu tímabært að þetta verði gert vegna þess að það kemur glögglega í ljós í töflum sem fylgja þessu frumvarpi, sem ég er meðflutningsmaður að ásamt hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni og Einari K. Guðfinnssyni, sem er 1. flutningsmaður frumvarpsins, hvernig ójafnvægið og óréttlætið hefur í raun og veru verið. Það eru einungis fjórar fisktegundir notaðar til að rétta af þau skakkaföll sem verða í rækju- og skelbótum eða þegar notuð er línuívilnun eða strandveiðar og það er mjög ósanngjarnt. Sumir láta ekki neitt, aðrir láta upp í 4,5–5% af sínum heimildum inn í þessar aðgerðir og síðan þegar strandveiðarnar verða dregnar frá í næstu úthlutun, þ.e. í haust, munu þeir sem eru með þorskveiðiheimildir þurfa að láta um 8,3% af sínum heimildum í þorski inn í þessar jöfnunaraðgerðir. 8,3% er rosalega há tala, ekki síst í ljósi þess að á undanförnum árum hafa aflaheimildir í þorski verið skornar niður, sem kemur þá tvöfalt niður á þeim aðilum sem eru með aflaheimildir þar.

Á síðasta fiskveiðiári var um 1/3 af ýsukvótanum skorinn niður, um 34%, en samt sem áður þurfa þeir aðilar sem hafa veiðiheimildir í ýsu að setja af þeim heimildum, eftir að hafa verið skornir niður, inn í jöfnunarpottinn til þeirra sem urðu fyrir áföllum í skel- og rækjubótum, línuívilnun eða strandveiðum. Það sjá allir sem vilja hversu óréttlátt þetta er og ég vísa sérstaklega í töflur sem fylgja þessu frumvarpi sem sýna svart á hvítu hvernig þetta kemur niður á ákveðnum útgerðarfélögum. Mig langar að nefna tvö þeirra. HB Grandi, sem er afskaplega stórt fyrirtæki, lætur um 1,4% af sínum heimildum inn í jöfnunaraðgerðirnar á meðan útgerðarfélag eins og Vísir lætur um 4% af sínum heimildum til að rétta þetta af. Í þessu er fólgið mikið óréttlæti og ég tel mjög mikilvægt að þetta verði leiðrétt. Það hefði þurft að vera löngu búið að því.

Ég vil að lokum segja, virðulegi forseti, að ég er mjög sáttur við að þetta mál fari inn í endurskoðunarnefnd eins og lagt er til í nefndaráliti, sem enginn ágreiningur var um í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, og verði tekið þar til umfjöllunar. Vonandi koma tillögur í þá átt sem frumvarpið gerir ráð fyrir.

Þar sem þetta er sennilega síðasta umræðan um sjávarútvegsmál á þessu þingi vil ég nota tækifærið og þakka hv. þm. Atla Gíslasyni, sem er formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, fyrir góð störf. Hann hefur náð góðu samstarfi við stjórnarandstöðuna og gert allt sem í hans valdi stendur til að reyna að leysa málin sem best. Á sama tíma verð ég að lýsa yfir vonbrigðum með hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem hefur farið í þveröfuga átt, t.d. í svokölluðum strandveiðum þar sem hann neitaði að upplýsa okkur þingmenn um það hvernig hann hygðist hafa svæðaskiptinguna. Þegar við afgreiddum málið hélt hann því frá og vildi ekki gefa það upp en klúðraði henni svo algerlega, eins og við bentum á í umræðum. Það var mjög óeðlilegt að þegar lögin áttu að taka gildi daginn eftir og hann átti að gefa út reglugerðina þá neitaði hann að gefa það upp og allir þekkja hverjar afleiðingarnar eru. Þær eru svo hörmulegar að það þarf ekki að eyða mörgum orðum í þær, það var eiginlega ekki hægt að klúðra því meira. Síðan eru það einstrengingsleg áform hæstv. ráðherra um að banna dragnótaveiðar á sjö fjörðum án þess að hafa fyrir því nokkur efnisleg rök. Á sama tíma og ég þakka hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir hans vönduðu vinnubrögð og störf í nefndinni verð ég að lýsa yfir jafnmiklum vonbrigðum með störf hæstv. ráðherra. Enn á ný er verið að samþykkja frumvarp þar sem hann hefur alræðisvald sem ég treysti honum engan veginn fyrir.