138. löggjafarþing — 142. fundur,  16. júní 2010.

varnarmálalög.

581. mál
[02:07]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í andsvari mínu er ég á svipuðum nótum og hv. þm. Birgir Ármannsson. Ég hnaut um það bæði í ræðu og andsvari hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar þegar hann talaði um umtalsverða hagræðingu. Hann nefndi sérstaklega að lögreglustjórinn á Suðurnesjum segðist geta tekið yfir eitthvað af verkefnunum. Ég vil benda hv. þingmanni á að þó að einhver annar vinni verkefnin þýðir það ekki að það kosti ekkert að vinna þau.

Í kostnaðarmati með þessu frumvarpi segir, með leyfi forseta:

„Markmiðið með þeim breytingum á stjórnsýslunni sem þessu frumvarpi er ætlað að vera liður í er að auka skilvirkni og hagræði. Ekki er endanlega búið að ákveða til hvaða stofnana verkefnin verða flutt og því liggja ekki fyrir áætlanir um hversu mikið mun sparast til lengri tíma í útgjöldum ríkissjóðs en gert er ráð fyrir að hagræðið verði umtalsvert.“

Þetta er eins nálægt og fjármálaráðuneytið treystir sér til að spá fyrir um þessa hagræðingu. Einnig segir í meirihlutaáliti sem hv. þingmaður mælti fyrir þegar hann ræddi verkefni stofnunarinnar, með leyfi forseta: „Verkefnin munu því mörg hver verða unnin áfram með sama hætti, við sömu aðstæður og af sama starfsliði og áður þótt stjórnsýsluleg ábyrgð á framkvæmd þeirra færist frá Varnarmálastofnun til annarra stofnana.“

Mér er því fyrirmunað, virðulegur forseti, að skilja orð hv. þingmanns og skilja hvar þessi meinta hagræðing á að eiga sér stað. Bæði hæstv. ráðherra og hv. þingmaður fullyrða hér að verkefnin verði sem fyrr til staðar. Það er búið að setja inn í breytingartillögur að starfsmönnum verði áfram tryggðar stöður. Ég fagna því að þarna sé ekki verið að leggja niður störf, en hvar er ávinningurinn? Hvar er hagræðingin? Hvar er hana að finna?