138. löggjafarþing — 143. fundur,  16. júní 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

670. mál
[04:04]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. Lífið er lyginni líkast, það er skrýtið að standa hér klukkan fjögur að nóttu og mæla fyrir þremur frumvörpum og einu nefndaráliti. Ég þakka fyrir að ég er ekki kvöldsvæf þannig að þetta ætti að geta gengið. Eins hafa ræður mínar styst eftir því sem liðið hefur á nóttina en þar sem málin eru mjög ítarlega unnin og með þeim greinargerð og góðar lagaskýringar getur fólk kynnt sér málið í hléinu fram undan.

Ég mæli, frú forseti, fyrir frumvarpi félags- og tryggingamálanefndar um greiðsluaðlögun einstaklinga. Markmið frumvarpsins er að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu. Að uppfylltum skilyrðum frumvarpsins verði einstaklingum heimilt að fara þess á leit við umboðsmann skuldara að hann samþykki umsókn um heimild til að leita eftir greiðsluaðlögun með samningi við kröfuhafa.

Frumvarp þetta er byggt á grundvelli frumvarps hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra til laga um greiðsluaðlögun einstaklinga á þingskjali 950, um heilsteypta löggjöf um frjálsa og þvingaða greiðsluaðlögun. Eftir að félags- og tryggingamálanefnd fékk það frumvarp til umfjöllunar hélt nefndin marga og langa fundi um málið, vel yfir 20 talsins. Þá fékk nefndin á sinn fund yfir 50 gesti og vann drög að breytingum á frumvarpinu. Allnokkrar umsagnir bárust. Í greinargerð með frumvarpinu er gerð grein fyrir gestum og umsagnaraðilum. (Gripið fram í: … vita hverjir þeir eru.) [Hlátur í þingsal.]

Í samráði við hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra og dómsmála- og mannréttindaráðuneyti fól nefndin réttarfarsnefnd að gera drög að breytingum á frumvarpinu. Þegar sú vinna lá fyrir taldi nefndin ljóst að rétt væri að leggja fram nýtt frumvarp um greiðsluaðlögun einstaklinga til að lagaákvæðin og skýringar á þeim væru öllum aðgengileg, jafnt almenningi sem fagaðilum. Allnokkuð er þó byggt á frumvarpstexta hæstv. ráðherra en með því að leggja fram nýtt frumvarp taldi nefndin að m.a. yrði einfaldara fyrir almenning að kynna sér reglur sem um greiðsluaðlögun gilda.

Helstu breytingar sem gerðar eru frá frumvarpi félags- og tryggingamálaráðherra eru að frumvarpið tekur nú eingöngu til frjálsrar greiðsluaðlögunar, þ.e. samninga um greiðsluaðlögun, en útfærð er tenging við réttarfarsleg úrræði til greiðsluaðlögunar. Þá er fellt brott ákvæði um að einstaklingur sem borið hefur ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi geti ekki leitað greiðsluaðlögunar nema skuldir sem stafi af atvinnurekstrinum séu lítill hluti heildarskulda, þ.e. við leyfum einstaklingum þótt þeir hafi borið, og beri, ótakmarkaða ábyrgð á rekstri að fara í greiðsluaðlögun en þó er miðað við að tiltölulega lítill hluti sé vegna rekstrar, eða að rekstur og heimili séu samofin.

Að auki hefur nefndin reynt að minnka vægi matskenndra atriða í textanum, t.d. með því að taka í auknum mæli upp skilyrði sem er að finna í X. kafla a laga um gjaldþrotaskipti o.fl. og komin er reynsla af og þar af leiðandi dómvenja.

Að lokum er gert að skilyrði fyrir greiðsluaðlögun einstaklinga að skuldari hafi lögheimili hér á landi. Slíkt skilyrði gildir þótt enn náist samningur um greiðsluaðlögun ekki og leitað er nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Kemur það til af því að varnarþing einstaklinga er þar sem þeir búa þannig að þetta gæti verið til þess fallið að vekja upp falsvonir hjá einstaklingum.

Ef samhliða er leitað greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna er unnt að leita hennar þótt lögheimili sé erlendis sé það einungis tímabundið og önnur skilyrði uppfyllt.

Þá leggur nefndin til í frumvarpi sínu að tímabil greiðsluaðlögunar verði að jafnaði í 1–3 ár eftir að greiðsluaðlögun er komið á og er það breyting frá frumvarpi hæstv. ráðherra og núgildandi lögum um greiðsluaðlögun þar sem kveðið er á um að tímabilið yrði að jafnaði 3–5 ár. Um þetta litum við til þróunarinnar í Svíþjóð, en þar hefur verið litið til þess að stytta tímabilið og það allt niður í 1 ár. Við viljum jafnvel ganga lengra og teljum að í tilvikum þar sem um mjög erfiða stöðu er að ræða og þar sem skuldari er með lélegt aflahæfi vegna hás aldurs eða heilsubrests megi stytta þennan tíma enn frekar, það muni líka hafa áhrif á greiðsluvilja fólks og hugrekki þess til að takast á við fjárhagsvanda sinn. Að loknu greiðsluaðlögunartímabili skulu samningskröfur afskrifaðar nema um annað sé samið í samningi til greiðsluaðlögunar, en áfram skal greitt af veðkröfum sem rúmast innan matsvirðis eignar sem þær hvíla á.

Takist ekki að ná samningi til greiðsluaðlögunar getur skuldari óskað eftir því við umsjónarmann að hann semji frumvarp og leiti eftir nauðasamningi um greiðsluaðlögun í samræmi við gjaldþrotaskiptalög en slíkur nauðasamningur tekur til annarra krafna en þeirra sem tryggðar eru með veði eða annars konar tryggingarréttindum í eignum skuldara. Því getur skuldari einnig eftir atvikum óskað greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna íbúðarhúsnæðis í samræmi við lög nr. 50/2009.

Þau úrræði sem hér er ætlunin að leiða í lög hafa verið lögfest annars staðar á Norðurlöndum. Verði frumvarp þetta að lögum verður ekki hægt að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar fyrr en fullreynt hefur verið að ná samningi um greiðsluaðlögun í frjálsum samningum samkvæmt frumvarpi þessu. Mikilvægt er að allir kröfuhafar átti sig á því að í frjálsum samningum um skuldaskil þýðir ekki að bjóða skuldurum lakari rétt en þeir geta fengið með greiðsluaðlögun. Því fyrr sem sú staðreynd verður ljós þeim mun betur mun ganga við meðferð skuldamála í frjálsum samningum.

Það er von hæstv. ráðherra og nefndarinnar að með því að koma á embætti umboðsmanns skuldara og búa til lögbundið úrræði utan um samt frjálsa samninga sé bæði verið að gera vinnsluna skilvirkari og vandaðri, og eins að auðvelda einstaklingum að fara í gegnum þessi úrræði og mynda hvata við aðila sem eru ekki innan sinna lánastofnana að fara í slíka samninga án þess að til afskipta umboðsmanns þurfi að koma.

Málsmeðferð greiðsluaðlögunar eru gerð ítarleg skil í frumvarpinu og greinargerð og því verður ekki farið nánar í þær reglur hér. Einnig er þar að finna ítarlega umfjöllun um breytingar frá frumvarpi ráðherra.

Frumvarp þetta setur samningsferlinu um greiðsluaðlögun ákveðinn ramma. Kveðið er á um aðkomu umboðsmanns skuldara af hálfu stjórnvalda, aðstoð umsjónarmanns, afborgunarfjárhæð, greiðsluaðlögunartímabil, réttaráhrif, gildistíma o.fl.

Þegar ákvarða skal hversu mikið af tekjum skuldara fer til greiðslu skulda skal fyrst taka mið af nauðsynlegum kostnaði skuldara við að sjá sér og sínum farborða. Að jafnaði skal fólki gefinn kostur á að búa áfram í húsnæði sínu. Ef sala á húsnæði er óhjákvæmileg verður að tryggja að skuldari geti útvegað sér annað húsnæði, með kaupum eða leigu eftir atvikum.

Þetta frumvarp er flutt hér samhliða frumvörpum um greiðsluaðlögun veðkrafna og úrræði fyrir fólk í tímabundnum vanda vegna tveggja fasteigna og nefndaráliti um umboðsmann skuldara. Þessi frumvörp voru öll lögð fram af félags- og tryggingamálaráðherra í ljósi þess að knýjandi þörf er á skilvirkum og raunhæfum úrræðum til að takast á við þann vanda sem til kom vegna efnahagshrunsins. Mikilvægt er að lagasetning taki á vandanum, nái fram því sem til er ætlast, sé skilvirk og tryggi úrræði sem hægt sé að beita á samræmdan hátt. Mikilvægt er að samfélagsleg sátt ríki um lagasetningu af þessu tagi því að henni er m.a. ætlað að vera grundvöllur endurreisnar og þess að hægt verði að styrkja efnahagsbata landsins.

Lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga er þar að auki ætlað að standa áfram og lögfesta úrræði til handa einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum óháð þeim erfiðu aðstæðum sem sköpuðust í kjölfar banka- og gjaldmiðilshrunsins. Nefndin hefur því við vinnu sína lagt áherslu á að tryggt verði að hér sé um að ræða vandað, skilvirkt og varanlegt úrræði til að greiða úr skuldavanda þeirra heimila sem eru hvað verst stödd.

Nefndin tók að sér mikla og góða vinnu. Eftir upphaflega skoðun málanna hefði komið til álita að senda þau aftur til ríkisstjórnarinnar, en nefndin ákvað í ljósi þess hversu brýn þessi málefni eru að leggjast í þessa vinnu sjálf. Hafa nefndarmenn, jafnt í meiri hluta sem minni hluta, ekki síður og jafnvel frekar í minni hluta, lagt sig öll fram um að gera þetta sem best úr garði. Ég þakka kærlega fyrir þá góðu samvinnu sem var í nefndinni og ég þakka líka nefndarritaranum okkar fyrir að leggja nótt við dag til að geta klárað þessi mál. Nú verða þau send til réttarfarsnefndar til yfirlestrar, það hlýtur alltaf að vera til bóta að skoða mál vel og skoða þau betur.

Af því að hér hefur mikið verið rætt um vönduð vinnubrögð og að þetta sé eins og að við séum að fjalla um eiginlega óafturkræfa gjörninga skulum við samt ekkert óttast. Við skulum vanda okkur í lagasetningu og tryggja að lögin sem við setjum séu góð, en hér er ekki um neina slíka gjörninga að ræða að þeim fylgi óafturkræfur vandi fyrir íslenskt samfélag.