138. löggjafarþing — 143. fundur,  16. júní 2010.

framhald þingfundar.

[05:30]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég held að sú atburðarás sem við höfum orðið vitni að í nótt sýni að það ríkir algert stjórnleysi hjá forustu þingsins. (Utanrrh.: Við erum að fara að ræða vatnalögin.) Það er alveg sama hversu mikið hæstv. utanríkisráðherra reynir að spauga með þetta, það er enginn bragur á því að núna klukkan hálfsex séum við enn að ræða mikilvæg mál og hæstv. ráðherrar í ríkisstjórninni eigi eftir að mæla fyrir frumvörpum sem ríkisstjórnin flytur. Það er ekki hægt að liggja stjórnarandstöðunni á hálsi fyrir að hafa ekki viljað sýna sveigjanleika til að ljúka mikilvægum málum. Það höfum við gert. En nú er mál að linni og menn hljóta að boða til funda með formönnum þingflokka til að fara yfir það hvernig þingstörfum verður háttað í framhaldinu og á morgun.