138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[11:17]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráðið. Í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð til fækkun ráðuneyta úr tólf í níu með sameiningu dómsmála- og mannréttindaráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis í nýtt innanríkisráðuneyti, félags- og tryggingamálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis í nýtt velferðarráðuneyti og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og iðnaðarráðuneytis í nýtt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Þá er lagt til að heiti umhverfisráðuneytisins verði umhverfis- og auðlindaráðuneyti og hlutverk þess innan Stjórnarráðsins eflt.

Í ljósi umtalsverðra breytinga á íslensku samfélagi á undanförnum árum, m.a. í kjölfar bankahruns og efnahagssamdráttar, er tímabært og nauðsynlegt að endurskoða skipulag ríkisrekstrar í heild sinni. Markmiðið með frumvarpi þessu er að endurskipuleggja ráðuneyti í því skyni að gera þjónustu hins opinbera við almenning og atvinnulíf eins góða og kostur er með þeim fjármunum sem til ráðstöfunar eru hverju sinni. Hér er lagt til að ráðuneytum verði fækkað úr tólf í níu og að færð verði saman verkefni til að ná sem mestum samlegðaráhrifum. Markmiðið með stækkun ráðuneyta er jafnframt að gera þeim betur kleift að takast á við aukin og flókin stjórnsýsluviðfangsefni og að tryggja formfestu. Þá bjóða sameinuð ráðuneyti upp á meiri möguleika til sérhæfingar og meira bolmagn til nýsköpunar og þróunarstarfs, eins og m.a. kemur fram í skýrslu starfshóps um viðbrögð stjórnsýslunnar við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Með frumvarpi þessu er því einnig verið að bregðast við mikilvægum ábendingum rannsóknarnefndar Alþingis vegna bankahrunsins eins og heitið hefur verið.

Þær breytingar á Stjórnarráði Íslands sem öðluðust gildi um mánaðamótin september/október 2009 með lögum nr. 98/2009 voru fyrsti þátturinn í þeim umfangsmiklu stjórnkerfisumbótum sem áformaðar eru en í þeim fólst m.a. flutningur verkefna milli ráðuneyta og til varð nýtt efnahags- og viðskiptaráðuneyti. Lögð hefur verið aukin áhersla á forustu- og verkstjórnarhlutverk forsætisráðuneytisins innan Stjórnarráðsins, skipulag ráðuneytisins endurskoðað og settar á fót ráðherranefndir til að samræma stefnu ríkisstjórnarinnar á ákveðnum málefnasviðum. Í þeim lögum var einnig mælt fyrir um breytingar á verkaskiptingu nokkurra annarra ráðuneyta og nöfnum þeirra breytt til að endurspegla betur hlutverk þeirra. Þær breytingar sem áformaðar eru í þessu frumvarpi eru rökrétt framhald þess sem þegar hefur verið unnið og næsta skref mun síðan snúa að því að halda áfram endurskoðun stofnanakerfisins og bæta gæði opinberrar þjónustu. Núverandi efnahagsaðstæður gera það síðan enn brýnna en ella að ráðuneyti og stofnanir endurmeti með opnum hug öll verkefni sem þau sinna, samþætti þjónustu, eyði óskýrri verkaskiptingu og komi í veg fyrir tvíverknað. Í þeim efnum er afar mikilvægt að ráðuneyti gangi á undan með góðu fordæmi og taki rækilega til í sínum ranni og er frumvarp þetta liður í því.

Með sameiningu iðnaðarráðuneytis og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis verður til öflugt ráðuneyti atvinnuvega og nýsköpunar þar sem aðkoma ríkisins að stærstu atvinnuvegum þjóðarinnar og nýsköpun verður samræmd á einum stað til hagsbóta fyrir samfélagið. Það er auðvitað rangt sem haldið hefur verið fram að með þessu sé verið að veikja stjórnsýslu sjávarútvegs og landbúnaðar. Þvert á móti er verið að styrkja umgjörð þessara mikilvægu atvinnugreina með sameiningu. Sameining leiðir til þess að á einum stað í stjórnkerfinu verður til heildarsýn yfir atvinnulífið. Hún mun því stuðla að því að til verði heildstæð atvinnuvegastefna sem gerir ekki upp á milli atvinnugreina og auðveldar stjórnvöldum að bregðast við breytingum og þróun í atvinnuháttum þjóðarinnar.

Nýtt umhverfis- og auðlindaráðuneyti mun þannig fá aukið vægi í rannsóknum, stefnumörkun og áætlunum sem tengjast nýtingu náttúruauðlinda og mun hafa heildstætt yfirlit yfir stöðu náttúruauðlinda þjóðarinnar. Ráðuneytið mun eiga náið samstarf við nýtt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti en stofnanakerfi ráðuneytanna beggja verður endurskoðað sem og verkaskipting milli þeirra, m.a. til þess að tryggja skilvirkni og náið samstarf ráðuneytanna við að framfylgja stefnu um sjálfbæra þróun.

Ekki hefur enn verið tekin afstaða til þess hvort og þá hvernig stofnanakerfi þessara tveggja nýju ráðuneyta verður breytt. Á þetta m.a. við um starfsemi Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar en mikilvægt er að samráðsferlið verði nýtt til þess að skýra þau mál.

Mörg dæmi eru um óskýra verkaskiptingu á milli félags- og tryggingamálaráðuneytisins annars vegar og heilbrigðisráðuneytisins hins vegar sem bitnað hefur á þeim sem eiga rétt á velferðarþjónustu og aðstandendum þeirra. Í því sambandi má benda á að heildarsýn hefur vantað vegna skipulags öldrunarþjónustu, eftirlits og forvarnaúrræða í tengslum við félags- og heilbrigðisþjónustu. Velferðarráðuneytið mun á grundvelli laga frá Alþingi sjá um að móta heildstæða stefnu á sviði velferðarþjónustu á öllum stigum frá félagslegum stuðningi til heilbrigðisþjónustu.

Nýtt innanríkisráðuneyti mun skapa ramma um innanríkismál, varnarmál og innviði samfélagsins, öryggismál á lofti, sjó og landi og þar með allar stofnanir sem sinna stjórnsýslu og þjónustu á þeim sviðum. Þá felast í sameiningunni möguleikar á að þróa stjórnsýsluviðmið ríkisins og áform um eflingu sveitarstjórnarstigs á sama stað innan stjórnsýslunnar. Nýtt innanríkisráðuneyti mun einnig gegna lykilhlutverki við endurskipulagningu þjónustu hins opinbera úti um allt land.

Fyrirhuguð sameining ráðuneyta er umfangsmikið verkefni og vanda þarf til verka við framkvæmdina. Mikilvægur þáttur vinnunnar sem fram undan er er samráð við samtök og aðila sem eiga hagsmuna að gæta. Þegar greiningarvinnu og samráðsferli lýkur og mótuð hefur verið stefna fyrir nýtt ráðuneyti er áformað að leggja fram frumvarp til breytinga á þeim sérlögum sem endurskipulagning Stjórnarráðsins leiðir af sér. Fyrir liggur að skoðanir eru helst skiptar um atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið en meiri sátt virðist ríkja um aðrar sameiningar. Ýmis samtök sem málið varðar hafa ályktað gegn þessum áformum varðandi atvinnuvegaráðuneytið en sérstök áhersla verður lögð á víðtækt samráð á þeim vettvangi, m.a. við hagsmunaaðila á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs og framvindan metin í ljósi árangurs af því samstarfi.

Ríkisstjórnin telur mikilvægt að öflugt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti verði byggt upp í samstarfi við atvinnulífið og samtök starfsmanna á þeim vettvangi. Eitt mikilvægasta verkefnið fram undan er að tryggja atvinnu og útrýma atvinnuleysi. Samþætt og heildstæð atvinnustefna fyrir Ísland skiptir þar meginmáli og er það trú mín að nýtt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti þar sem horft er til allra atvinnugreina marki nýtt upphaf í þeirri sókn. Rætt hefur verið um stofnun atvinnuvegaráðuneytis í mörg ár og hafa flestir stjórnmálaflokkar sem nú eiga fulltrúa á þingi ályktað á undanförnum árum um nauðsyn þess að horfa á atvinnumál þjóðarinnar heildstætt í einu ráðuneyti. Ég hef því mikla trú á að hægt verði að ná breiðri samstöðu um þessa breytingu á næstu vikum og mánuðum.

Virðulegi forseti. Sameining ráðuneyta og stofnana tekur tíma. Um er að ræða flókið ferli og því er afar mikilvægt að vanda vinnu við undirbúning og framkvæmd sem best. Tækifærin sem felast í sameiningu eru einnig mikil og hafa verður í huga að það getur tekið tíma uns árangur kemur fyllilega í ljós. Í umsögn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um frumvarp til lögreglulaga, sem nú er til umfjöllunar í þinginu, kemur fram að stór hluti af hagræðingu og sparnaði sem náðst hefur á þessu ári og því síðasta hjá embættinu liggur í því að embættin voru sameinuð í upphafi árs 2007. Þetta dæmi sýnir að stærri og öflugri einingar eru sveigjanlegri þegar kemur að því að takast á við erfiðleika eins og þá sem nú er glímt við í ríkisrekstri. Í umræðum um sameiningu ráðuneyta þarf því að horfa til langs tíma og átta sig á þeim tækifærum sem felast í færri og öflugri ráðuneytum og síðan verkaskiptingu og samvinnu þeirra stofnana sem munu heyra undir þau.

Sú stefnumörkun sem felst í því að fækka ráðuneytum úr tólf í níu er mikið heilla- og framfaraspor að mínu viti. Með því eru send skýr skilaboð um að Stjórnarráðið þróist í takt við breytingar í samfélaginu og hafi vilja og burði til að takast á við þau krefjandi verkefni sem við stöndum frammi fyrir. Góð samstaða um fækkun ráðuneyta er skýr skilaboð til annarra opinberra aðila um að endurskoðunar sé þörf á öllum sviðum en eins og ég hef áður nefnt felast miklir möguleikar í endurskipulagningu stofnana og verkefna í kjölfarið. Það er því mikilvægt þegar verið er að skoða sameiningu og hagræðingu í stjórnkerfinu almennt og þá möguleika og tækifæri sem felast víða í sameiningu og samlegðaráhrifum hjá stofnunum að ráðuneytin sjálf hafi gengið á undan með góðu fordæmi og hagrætt og endurskipulagt sem leiðir til sparnaðar í samfélaginu og öflugri og styrkari eininga í stjórnkerfinu.

Slík endurskipulagning mun leiða af sér fjárhagslega hagræðingu til framtíðar en einnig faglega styrkingu þjónustu ríkisins á mörgum sviðum. Ég er sannfærð um að þessi breyting á Stjórnarráðinu mun ekki aðeins auðvelda okkur sameiningu og hagræðingu í stjórnkerfinu heldur leiða til mikils sparnaðar þannig að hægt verði að hlífa betur velferðarkerfinu í þeim efnahagsþrengingum sem við erum í og fram undan verða e.t.v. á næstu 1–2 árum. Ég bind miklar vonir við að í sumar fari fram málefnaleg umræða um skipulag Stjórnarráðsins og í framhaldinu geti þingheimur sameinast um að Stjórnarráðið verði eflt til framtíðar sem samstæð heild sem hrindi stefnumálum löggjafans og ríkisstjórna á hverjum tíma í framkvæmd. Mikilvægt er að málið fari nú til umsagnar áður en hlé verður gert á þingstörfum þannig að umsagnaraðilum gefist góður tími til að fjalla um málið áður en þing kemur saman á ný í haust.

Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til allsherjarnefndar og 2. umr. að lokinni þessari umræðu.