138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[12:46]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fór yfir það og það eru skiptar skoðanir um tiltekna efnisþætti þessa máls í okkar flokki. Það er ekki nýtt, þetta var rætt á fundum í okkar flokki fyrir einu eða einu og hálfu ári. Þá komu fram áhyggjur og efasemdir um að stofna atvinnuvegaráðuneyti og við vorum hvött til þess að beita okkur fyrir því að þessi áform yrðu endurskoðuð og það höfum við gert.

Hugmyndin var, eins og þetta var skrifað inn í tímalínu stjórnarsáttmálans eða samstarfsyfirlýsingarinnar, að næstu skref á eftir efnahags- og viðskiptaráðuneyti yrðu atvinnuvegaráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti, jafnvel lögtekið strax fyrir síðustu áramót, en það varð ekki. Þvert á móti eru þau áform nú komin aftast í tímaröðina til að gefa því meiri tíma að ræða þau mál og við höfum þar af leiðandi staðið við það sem þessi flokkssamþykkt kvað á um, að beita okkur fyrir því að þessi áform yrðu tekin til endurskoðunar og þau tækju breytingum.

Ég hygg reyndar að það sé mikilsvert viðfangsefni að ræða sérstaklega við landbúnaðinn og sjávarútveginn um þær áhyggjur sem þeir hafa í þessu sambandi. Ég skil þær vel og ég þekki þær, ég nauðaþekki þær. Ég þarf enga sérstaka hjálp, hvorki frá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni né öðrum, í þeim efnum. Ég veit að það eru viðkvæmir þættir sem tengjast verkaskiptingunni, landamærunum (Forseti hringir.) og tilteknum stofnunum, hvar þær verða vistaðar og jafnvel hjá hvaða flokki svona ráðuneyti gæti lent.