138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[13:21]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Málið sem við ræðum núna hefur tekið á sig æ sérkennilegri og skrautlegri myndir, ekki bara á síðustu dögum og vikum heldur líka í þessari umræðu. Ég get ekki sagt að þetta mál hafi beinlínis verið að skýrast. Það er alveg ljóst að málið er afrakstur pólitískra hrossakaupa milli stjórnarflokkanna sem eru ósammála um það hvernig eigi að standa að uppstokkun ráðuneyta landsins.

Við vitum að Vinstri grænir hafa verið andsnúnir þeirri breytingu sem hefur kallað fram mesta umræðu, þ.e. hugmyndum um að steypa saman þessum meintu atvinnuvegaráðuneytum. Þær fela jafnframt í sér að taka út úr þeim veigamikla þætti og færa inn í önnur ráðuneyti. Auðvitað reyna menn að orða hugsun sína varlega á flokksfundum stjórnmálaflokka þegar formaður flokksins á í hlut og í vetur kaus flokksráðsfundur Vinstri grænna að tala um að taka þessi mál til endurskoðunar. En það fer ekkert á milli mála eins og þau mál hafa verið túlkuð, m.a. af þingmönnum og ráðherrum flokksins, að flokksráðsfundurinn sýndi forustu flokksins rauða spjaldið hvað þetta mál áhrærir. Málið hefur verið átakamál innan ríkisstjórnar og milli stjórnarflokkanna. Alveg eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði voru áform um að leggja frumvarpið fram fyrir síðustu áramót. Það tókst ekki vegna þess að ekki var til þess pólitískur stuðningur. Núna kemur málið skröltandi inn í þingsalinn með sprungið á a.m.k. einu ef ekki tveimur dekkjum og óvíst hvort varadekkin eru í lagi. Þannig er staða þessa máls í raun og veru núna. Þetta mál er bara afgreitt þannig vegna þess að stjórnarflokkarnir geta ekki komið sér saman um það. Því er hent galopnu inn í þingið og sagt: Veskú. Nú skuluð þið koma og taka við.

Það má segja sem svo að það sé ákveðin aðferðafræði að ríkisstjórnarflokkarnir komi sér ekki saman um meginlínur í þessum efnum og Alþingi taki þá málið að sér. En þá er málið jafngalopið og -óútfært og það hlýtur að vera eðli málsins samkvæmt. Það er hreint uppnefni að reyna að láta sér detta í hug að kalla þetta frumvarp stjórnarfrumvarp. Þetta er ekki stjórnarfrumvarp. Þetta er, alveg eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði, lagt fram til kynningar. Þetta er kynningareintak af þeim sjónarmiðum sem við getum sagt að sé lægsti samnefnarinn í samstarfi þessara tveggja stjórnmálaflokka.

Mér finnst sérkennilegt hvernig þetta er hugsað. Málið er lagt þannig fram að það eina sem er handfast í því er breytingar á heitum ráðuneytanna. Það má kannski segja að í heitum ráðuneytanna felist á vissan hátt einhvers konar stefnumótun en hún er hins vegar ekki mjög vel útfærð. Þegar maður les rökstuðninginn, það sem kallað er helstu rök fyrir sameiningu ráðuneytanna, sést að þetta eru óskaplegir orðaleppar. Þetta eru orðaleppar sem maður hefur séð áður, samræmd stefnumörkun, samþætting stofnana, einhver orð sem hafa tiltölulega litla meiningu þegar þau eru krufin til mergjar. Eitt er alla vega ljóst, við lestur þessarar greinargerðar finnast ekki neinar röksemdir fyrir því að fara þá leið sem frumvarpið leggur til. Sparnaðurinn er allur í skötulíki. Það er talað um að ekki eigi að segja upp fólki. Það er samt sem áður talað um að þetta leiði til sparnaðar. Það skapast mikil óvissa hjá því ágæta starfsfólki sem starfar í ráðuneytunum. Jafnframt á að stokka stofnanir ráðuneytanna mikið upp. Þar skapast sömuleiðis óvissa og ekki bætir þetta frumvarp úr skák. Það lagar ekki þetta mál sem er sett inn galopið og í fullkomnu ósætti, ekki bara innbyrðis milli stjórnarflokkanna heldur einnig við alla þá sem við eiga að búa.

Virðulegi forseti. Ég kalla eftir því hjá stjórnarliðum hvort einhver hagsmunasamtök í sjávarútvegi og landbúnaði hafi lýst yfir stuðningi við þetta mál. Ég hef lúslesið það. Ég kem ekki auga á það í fljótu bragði að nokkur einustu hagsmunasamtök kalli eftir þessu. Þess vegna liggur mér við að segja að það sé hreinlega móðgun þegar talað er um að hafa eftir á samráð á þessum vettvangi, m.a. við hagsmunaaðila á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs. Ef menn ætla að taka mark á þessu samráði þá hlýtur ríkisstjórnin að hverfa frá þessum áformum sínum. Annars er þetta tal um áform hjómið eitt og ekkert að marka. Það er ekkert samráð, eins og lýst var í bréfi frá hagsmunasamtökum í sjávarútvegi og landbúnaði, þegar menn eru kallaðir til skrafs og ráðagerða í hagsmunaráðuneytinu. Þegar þeim fundi er lokið eru höfð uppi fögur fyrirheit um að eiga síðan gott samstarf. Það næsta sem fréttist er að frumvarpið er komið fram með hugmyndum sem ganga þvert á vilja sjávarútvegsins og landbúnaðarins. Ég veit að þetta er ekki vilji hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hann var ofurliði borinn í ríkisstjórninni. Honum var stillt upp við vegg og þess vegna er þetta frumvarp eins og það er.

Menn spyrja: Hefur það ekki legið fyrir hjá stjórnmálaflokkunum að áhugi hefur verið á því að gera breytingar á Stjórnarráðinu? Það er alveg rétt. Auðvitað þurfum við að endurskoða ýmislegt í Stjórnarráðinu. Við höfum svo sem verið að gera það. Það var gert t.d. með sameiningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyta sem ég hygg að hafi tekist býsna vel. Hæstv. fjármálaráðherra sem hafði reyndar allt á hornum sér þegar það mál var fyrst borið fram á árunum 2007 og 2008 vitnaði til þess með mikilli velþóknun að það hefði leitt til 40 millj. kr. sparnaðar. Það er ánægjulegt að verða vitni að því. Engu að síður er þetta allt saman í mikilli óvissu. Þetta meinta samráð sem á að fara fram verður í skötulíki nema menn ætli í raun og veru að taka tillit til þeirra ábendinga sem fram hafa komið.

Ef lesinn er stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar fer ekkert á milli mála að þar voru uppi áform um samráð. Þar var nánast í gadda slegið að ætlunin væri að taka stofnanir eins og Orkustofnun, Hafrannsóknastofnun, Matís og Veiðimálastofnun undan sjávarútvegs-, landbúnaðar- og iðnaðarráðuneytunum og færa þau inn í umhverfisráðuneytið. Það hefði verið algerlega hlálegt og fáránlegt í raun og veru að sitja uppi með ráðuneyti sem ætti að fjalla um sjávarútvegsmál sem mig minnir að menn kalli atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Þetta verða svo löng orð að maður verður nánast sakaður um málþóf þegar maður tekur sér þau í munn. Hugsunin var sú að taka út burðarstoðirnar varðandi auðlindanýtingu á sviði iðnaðar, sjávarútvegs og landbúnaðar og grýta þessu inn í umhverfisráðuneytið. Hér er að vísu stigið eitt skref til baka sem er skref í rétta átt vegna þess að hér er slegið úr og í. Það er gefið til kynna að það kunni að vera skynsamlegt og eðlilegt að færa þetta inn í umhverfisráðuneytið nýja, ofurráðuneyti umhverfismála. Í textanum á bls. 6 þar sem fjallað er sérstaklega um hið nýja umhverfis- og auðlindaráðuneyti er einnig rætt um skynsemina á bak við það að færa þessi mál meira og minna inn í umhverfis- og auðlindaráðuneytið. En svo er eins og að menn fái bakþanka og láti sér detta í hug viðurhlutamikill samráðsvettvangur þar sem sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn fá að vera í hlutverki Gluggagægis. Þeir fá að kíkja á gluggann og vita hvað er að gerast á þessum vettvangi þar sem vélað er um meginhagsmuni þessara atvinnugreina, eins og hvernig eigi að standa að nýtingu sjávarauðlindarinnar, mál sem snúa að Veiðimálastofnun sem snerta beint landbúnaðinn, sömuleiðis iðnaðinn og orkuna. Hugmyndin er sú að þessar grónu atvinnugreinar verði í hlutverki Gluggagægisins og fái að fylgjast allra náðarsamlegast með þó að síðan sé gert ráð fyrir því að hin endanlega ákvörðun verði tekin einhvers staðar annars staðar. Þetta er algerlega fráleitt, enda kemur það á daginn þegar eftir því er leitað að menn eru ekki lengur vissir í sinni sök. Menn hafa áttað sig á því að þetta fyrirkomulag getur ekki gengið upp. Það er ekki síst þetta sem bent er á í athugasemdum sjávarútvegsins og landbúnaðarins að menn verði að endurskoða.

Mál eins og þetta þarf heilmikinn undirbúning. Það er alveg rétt, menn hafa rætt þetta á pólitískum vettvangi og almennt að það þurfi að fara í endurskoðun og uppstokkun á Stjórnarráðinu. Það neitar því enginn að það er skynsamlegt að fara í það með einhverjum hætti. En það er alveg rétt sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagði, það gengur ekki að það sé gert ofan frá og í fullkomnu ósætti við alla þá sem við eiga að búa.

Auðvitað er það hið pólitíska vald sem tekur ákvörðun að lokum, en aðeins eftir að hafa farið mjög vel yfir málið. Nú segja menn að samráðsferlið eigi að eiga sér stað á sviði þingsins. Það þarf enginn að kenna okkur sem höfum setið á þingi lengur en eitt eða tvö ár að auðvitað fer fram samráð þingnefnda þegar málum er vísað til viðkomandi nefnda. Hins vegar verður framkvæmdarvaldið að rækja ákveðið samráðshlutverk í máli eins og þessu. Við undirbúning málsins er það auðvitað á forræði framkvæmdarvaldsins, þetta er stjórnarfrumvarp og þar hefði átt að fara fram eðlilegt samráð.

Auðvitað veit ríkisstjórnin að hún leggur þetta mál fram þvert á vilja þeirra sem við eiga að búa. Menn standa einfaldlega frammi fyrir tvennu, annaðhvort keyra menn leiðina gegn vilja þeirra sem við eiga að búa eða leita einhvers konar niðurstöðu sem gæti fengist með því að tala saman. Það er algerlega ljóst að ekki hefur verið gerð tilraun til neins slíks. Þess í stað er fylgt eftir einhverri pólitískri kreddu varðandi þessa sameiningu. Engin eðlileg greining er gerð eða spurninga spurt, eins og hvort þetta styrki pólitíska ábyrgð. Það er alveg ljóst eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði áðan, frumvarp af þessu taginu mun auðvitað veikja stöðu ráðherranna og efla stöðu embættismanna. Ég hefði haldið að í ljósi þeirrar umræðu sem oft hefur farið fram um mikilvægi pólitískrar ábyrgðar sé þar með stigið skref í ranga átt.

Það væri hægt að hafa mörg orð um þetta mál. Það má segja sem svo að ríkisstjórnin hafi á vissan hátt gefist upp við verk sitt. Hæstv. forsætisráðherra sagði áðan að hún hefði trú á því að við gætum náð samstöðu um þetta mál. Þá spyr ég: Af hverju gerði ríkisstjórnin ekkert í þessu? Hún hefur haft nægan tíma. Var hún ekki mynduð fyrir rúmu ári? Af hverju var þá ekki reynt að leita eftir slíkri samstöðu um þetta mál? Ég segi bara eins og stendur í helgri bók: Kona, mikil er trú þín. Ef málið kemur núna fram algerlega óútfært, það er eitthvað fimbulfambað um þetta í greinargerðinni, er ekki hægt að búast við því að grundvöllur verði til að ná eðlilegri samstöðu.

Ég ítreka það sem ég tel að skipti miklu máli. Ef menn ætla sér að hafa alvöruiðnaðarráðuneyti, ef menn ætla sér að hafa alvörulandbúnaðarráðuneyti, ef menn ætla sér að hafa alvörusjávarútvegsráðuneyti byrja menn ekki á því að draga burstir úr nefi þessara atvinnugreina. Það er einmitt gert. Það er boðað í þessu frumvarpi að færa mikilvægustu burðarþættina úr þessum ráðuneytum. Það á að færa auðlindanotkunina og skylda hluti út úr þessum ráðuneytum sem þó eru kölluð atvinnuvegaráðuneyti og inn í önnur ráðuneyti. Það mun auðvitað veikja þessar atvinnugreinar. Það er alveg rétt sem Bændasamtökin hafa bent á, þetta mun leiða til þess að staða landbúnaðarins veikist. Það er ekki á það bætandi, allra síst við þær aðstæður sem við búum við núna og allra síst í þeirri óvissuför sem lagt er af stað með með þessari dæmalausu inngöngubeiðni til Evrópusambandsins. Þess vegna verður að gera þá kröfu til hæstv. ríkisstjórnar að hún láti af þessum hugmyndum sínum. Ég tel engar líkur á því að hægt verði að afgreiða þetta mál í september. Það er gjörsamlega vanbúið og þarf meiri tíma. Nálgunin er röng. Málið er lagt fram í fullkomnu ósætti, það verður ósætti um það í þinginu og að mínu mati kemur ekki til greina að málið verði afgreitt í september.