138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[13:58]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég kem upp til að fagna sérstaklega því frumvarpi til laga sem hér er til umfjöllunar. Það stafar af því stórhugur og það er tímabært að stjórnsýslan sjálf, Stjórnarráðið, horfi inn á við þegar kemur að þeirri hagræðingarþörf sem íslensk þjóð stendur frammi fyrir á næstu mánuðum og missirum. Stjórnarráðið getur ekki skorast þar undan.

Hér er vitaskuld um 1. umr. málsins að ræða og vænta má breytingartillagna milli umræðna og vonandi verða þær málefnalegar og uppbyggilegar. En, frú forseti, ég hef hlustað á margar ræður stjórnarandstöðuþingmanna og -kvenna og skil reyndar ekki alveg þær efasemdir sem hér eru settar fram af hálfu sjálfstæðismanna og framsóknarmanna sem margir hverjir telja að þetta sé liður í því að smygla Íslandi inn í Evrópusambandið. Ég tel að svo sé aldeilis ekki, hér er í rauninni verið að styrkja Stjórnarráðið, auka sveigjanleika milli ráðuneyta og koma í veg fyrir þá miklu skörun sem er á verkefnum ráðuneyta nú þegar.

Það ber líka að horfa til þess sem sjálfstæðismenn og framsóknarmenn hafa áður sagt í þessu efni. Sjálfstæðismenn hafa verið ólatir við að tala um „báknið burt“ og ungir framsóknarmenn hafa einmitt talað um þá forneskju sem tíðkast hefur í Stjórnarráði Íslands, nú síðast með samþykkt Sambands ungra framsóknarmanna frá árinu 2002 þar sem Stjórnarráðinu er lýst eins og það var þá. Með leyfi forseta, segir í samþykkt Sambands ungra framsóknarmanna frá 2002:

„Þessi skipan er barns síns tíma þegar það tíðkaðist að ríkisvaldið gripi til sértækra aðgerðir ríkisvaldsins til að vernda tilteknar atvinnugreinar. Þessi skipan á hins vegar illa við þegar leitast er við að móta almenna atvinnustefnu þar sem ekki á að hygla hagsmunum tiltekinnar atvinnugreinar framar annarri.“

Þetta eru orð og samþykktir Sambands ungra framsóknarmanna frá árinu 2002 og get ég ekki annað en tekið fyllilega undir hvert orð í þessari samþykkt ungra framsóknarmanna sem í ljósi meðalaldurs þingmanna hafa margir hverjir skilað sér hingað inn á þing og hljóta enn að vera sammála sínum eigin orðum.

Frú forseti. Hvað erum við í reynd að gera hér? Við erum að reyna að hagræða í ríkisrekstri svo sem við þurfum. Við erum líka að auka á sveigjanleika í stjórnsýslunni og Stjórnarráðinu öllu. Þar ber vitaskuld að horfa til annarra landa sem hafa farið og eru að fara þennan veg. Ég nefni Norðurlöndin sem eru með giska sveigjanlegt kerfi í stjórnsýslu sinni og stjórnarráðum þar sem menn einfaldlega stofna til nýrra ráðuneyta eftir verkefnum eins og dæmin sanna. Við getum líka horft til annarra landa í kringum okkur svo sem eins og Hollands þar sem er verið að fækka úr 14 í 8 ráðuneyti og er það þó 14 milljóna manna þjóð og gott betur sem við könnumst vel við frá síðustu mánuðum af misjöfnu.

Það eru líka giska furðuleg skilaboð út til almennings, út til fólks sem enn hefur vinnu, út til allra sem horfa til verkefna næstu mánaða ef við ætlum ekki að byrja á toppnum í aðhaldi og eðlilegum niðurskurði á þeim tímum sem við búum við núna. Það væri beinlínis verið að misbjóða fólki úti í samfélaginu ef ráðuneytin sjálf horfðu ekki inn á við og hagræddu í sínum ranni. Þar er eðlilegt að byrja og fara svo niður á við en byrja ekki niðri í viðkvæmustu stéttunum og fara þaðan upp, í hagræðingaraðgerðum stjórnvalda sem nú eru fram undan og verða klárlega mjög erfiðar og viðkvæmar.

Stærsta hagræðing í ríkisrekstri er stofnun velferðarráðuneytis þar sem samþætting er gríðarleg og getur verið og skörun á milli stofnana hefur verið hvað mest. Þar hafa menn verið að horfa til verkefna sem sveitarfélögin hafa tekið að sér, svo sem eins og á Akureyri þar sem samþætting þessara verkefna hefur skilað sér í gríðarlegum árangri, sparnaði, hagræðingu og betri fagmennsku að því er menn telja. Við horfum hér líka til ráðuneytis innviða og öryggismála, svokallaðs innanríkisráðuneytis sem felur líka í sér mikla hagræðingu, að ég tali ekki um nýtt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti sem verður eftir sameiningu sterkt ráðuneyti, sterkara ráðuneyti svo sem fram kemur í athugasemdum við lagafrumvarp þetta og er tíundað hér á nokkrum blaðsíðum. Það er ekki verið að veikja þetta ráðuneyti að mínu viti með sameiningu, það er ekki verið að leggja niður landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið. Það sem er verið að gera er að flytja 18 manns úr iðnaðarráðuneytinu, einu því minnsta, yfir í eitt sterkara atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og er tími til kominn að atvinnuvegirnir allir séu saman komnir í einu faglegu sterku ráðuneyti sem getur sótt fram til heilla fyrir íslenskt atvinnulíf.

Þá er til þess að taka að við þurfum líka að þróa þessi ráðuneyti áfram til þeirra verka sem blasa við á nýjum tímum og það er beinlínis, að mínu viti, krafa skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að farið sé í þessar aðgerðir. Á bls. 3 í athugasemdum við lagafrumvarpið er einmitt vitnað í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, með leyfi forseta:

„Veikleika stofnanakerfisins gagnvart öflugum hagsmunum í atvinnulífinu má að nokkru leyti skýra með smæð þess og takmörkuðum mannafla.”

Hér er beinlínis verið að lýsa því yfir að ráðuneytin hafi ekki getað tekið með nægilegum þrótti á þeim verkefnum sem þeim hafi verið ætluð. Við erum að koma til móts við þessar kröfur sem eru eðlilegar miðað við þá erfiðleika sem hafa blasað við Íslendingum á síðustu mánuðum og missirum.

Að síðustu vil ég geta þess að við þurfum líka að hagræða faglega innan ráðuneytanna. Að mínu viti, og það má svo sem lesa úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, hafa ráðuneytin verið samfélag vina og félaga í póstnúmerinu 101 Reykjavík og það hefur ekki loftað nægilega um þessi ráðuneyti þar sem menn hafa verið fastir á sínum stólum, fastir í sínum ranni.

Ég legg það til úr þessum ræðustóli að horft verði til þess að a.m.k. einu af þessum nýju ráðuneytum verði fundinn staður úti a landi. Ég nefni Akureyri sem dæmi. Og það er kannski til marks um umræðuhefðina um byggðamál á Íslandi að þegar ég hef nefnt þessa hugmynd um nýtt, stórt og sterkt atvinnuvegaráðuneyti úti á landi er fremur brosað að þeirri hugmynd en að hún sé tekin alvarlega og það er kannski til marks um þá stöðu sem byggðamál okkar Íslendinga eru í í dag að það þykir síður koma til greina að koma a.m.k. einu ráðuneyti upp úti á landi en að hafa þau öll á einum bletti í Reykjavík. Ég held að (Forseti hringir.) skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis hafi kennt okkur að (Forseti hringir.) það þurfi að dreifa þessari stjórnsýslu betur um landið.

(Forseti (SII): Forseti vill biðja þingmenn að virða tímamörk.)