138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

663. mál
[16:17]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Þingsályktunartillagan sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson flutti hér áðan er um margt merk. Ég er þeirrar skoðunar að ein mesta ógæfa okkar Íslendinga í kjölfar bankahrunsins svokallaða hafi verið sú að geta ekki staðið saman að málunum. Málin leituðu alltaf í gömlu, flokkspólitísku hjólförin og við gátum ekki tekið þær stóru og miklu ákvarðanir sem þurfti að taka. Þess vegna er allt hugarfar, eins og það sem birtist í þessari þingsályktunartillögu, sem bendir til samvinnu og samráðs á lýðræðislegum grundvelli af hinu góða.

Nú berast þær fréttir að Alþýðusamband Íslands hafi sagt upp stöðugleikasáttmálanum. Ég er um margt sammála hv. þm. Ögmundi Jónassyni um að framhjátengingin á hinu lýðræðislega kerfi sem er í þessum samningum stjórnvalda og einstakra hagsmunasamtaka sé ekki heppileg. Aftur á móti tel ég afar óheppilegt að stjórnvöld sem hafa gert samninga við einhverja hagsmunahópa, t.d. á vinnumarkaði eins og í þessu tilfelli, standi ekki við gerða samninga, vegna þess að það skapar óvissu í þjóðfélaginu og verður ekki til neins annars en að koma okkur öllum illa til langs tíma litið. En þingsályktunartillagan hljómar vel og ég er sammála þeirri hugsun sem þar kemur fram.