138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

662. mál
[15:10]
Horfa

Frsm. sjútv.- og landbn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta mál kom fram í febrúar, ef ég man rétt, á þessu ári og það lá inni í þingflokki Samfylkingarinnar þar til það kom fram fyrir hálfum mánuði eða eitthvað slíkt. Ég verð að segja varðandi lögfræðiálitið að fram kom ósk um að það yrði lagt fram. Ég gekk strax í það mál og lagði það fram um leið og ég hafði fengið það í hendur og tilkynnti að ég mundi dreifa því í hólf þingmanna.

Ég vil líka að gefnu tilefni taka það fram, vegna efasemda sem ég rakti hér í framsöguræðu minni, að ég boðaði það að ég mundi kalla eftir umsögn um málið og það yrði rætt ítarlega. Meðal annars komu fram óskir um sérstakt lögfræðiálit o.fl. sem ég mun sem formaður nefndarinnar virða.

Ég hef síðan skoðað það betur og í ljós kemur að nefndinni er heimilt að fjalla um málið, kalla eftir umsögnum þó svo að málið sé ekki afgreitt héðan frá þinginu með atkvæðagreiðslu eftir 2 umr. fyrst 1. umr. er búin. Ég mun því nýta þinghléið til að leita eftir þessum umsögnum og ég hef beðið ritara nefndarinnar um að kalla nefndarmenn á fund að loknum þessum þingfundi til að fara yfir umsagnalista sem liggur fyrir og gera athugasemdir við hann og bæta við umsagnaraðilum ef þörf krefur.