138. löggjafarþing — 149. fundur,  2. sept. 2010.

störf og stefna ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:30]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Ég held áfram máli mínu og tæpi að hluta til á því sem hv. þm. Guðmundur Steingrímsson ræddi, en það er að stjórnsýsla ríkisins þurfi algerrar uppstokkunar við. Það blasir við. Algert aðgerðaleysi var í stjórnsýslunni vegna gengistryggðu lánanna þrátt fyrir að vitað væri að fjöldi fólks væri að missa heimili sín og landflótti vegna fjárhagsvandræða væri staðreynd. Þrátt fyrir að óvissan um gengistryggðu lánin mundi draga verulega á langinn lausn á skuldavanda fólks gerði efnahags- og viðskiptaráðuneytið og stjórnsýslan ekkert. Þrátt fyrir að framhald á óbreyttu ástandi gengistryggðra lána gæti leitt til nánast óleysanlegrar flækju og kostað ríkissjóð stórfé gerði efnahags- og viðskiptaráðuneytið og stjórnsýslan ekkert. Þetta má ekki halda svona áfram. Það bíður nýrra ráðherra, nýs ráðherra efnahags- og viðskiptamála, að lagfæra þetta.

Virðulegur forseti. Það mál sem enn stendur eftir sem eitt brýnasta úrlausnarefnið í efnahagsmálum er verðtryggingin. Verðtryggingin sem gefur fjármagnseigendum bæði belti og axlabönd hefur farið verr með íslensk heimili en nokkuð annað. Nú í annað skiptið á rúmum 20 árum eru þúsundir fjölskyldna komnar í alvarleg fjárhagsvandræði vegna þess að efnahagsstjórnin fór úr böndunum, flokkspólitískur seðlabanki og flokkspólitísk stjórnsýsla spilaði með og samfélagið allt er í sárum. Það að skuldir fólks á Íslandi skuli hækka vegna þess að verð á tómatsósu hækkar er fáránlegt. Það að skuldir fólks á Íslandi skuli hækka vegna þess að veðurstofa Bandaríkjanna spáir mörgum fellibyljum í haust er fáránlegt. Það að skuldir fólks á Íslandi skuli hækka vegna skógarelda í Rússlandi er fáránlegt líka.

Tenging skulda við neysluverðsvísitölu með þeim hætti sem gert er hér á landi er einsdæmi í heiminum. Vísitala neysluverðs mælir hækkun á matvöru og neysluvarningi og annan kostnað af því að vera einfaldlega til og ætti því, ef einhver rökleg hugsun væri að baki, að hafa áhrif til hækkunar launa ef eitthvað er. En hér, eins og í svo mörgu öðru, hefur Alþingi tekist að snúa hlutunum algjörlega á haus og vegna sérhagsmunagæslu þingmanna er ómögulegt að bregða af leið og breyta þessu. Verðtryggingin er enn einn dapurlegur vitnisburður um hvernig sérhagsmunir, og hér á ég við peningalega hagsmuni, hafa náð undirtökum í efnahagsaðgerð sem upphaflega var hugsuð til hagsbóta fyrir almenning en var snúin upp í andhverfu sína af bröskurum með ítök í stjórnmálaflokkum. Kvótakerfið og framsal aflaheimilda er annað dæmi um slíkt. Lengi væri hægt að telja upp, en þessu fyrirkomulagi sér því miður ekki fyrir endann á.

Virðulegur forseti. Ríkisstjórnin sem nú situr mun ekki hafa þann kjark og þá yfirsýn sem þarf til endurreisnar Íslands undir þeirri forustu sem hún býr við. Þeir þingflokkar og alþingismenn sem styðja ríkisstjórnina eru hins vegar eina von almennings um að á Íslandi verði í framtíðinni búsældarlegt, réttlátt og sanngjarnt samfélag — lýðræði þar sem frelsi, jafnrétti og bræðralag verði í heiðri haft. Til að slíkt gerist þarf hins vegar blöndu af skynsemi og róttækni. Þau orð — róttæk skynsemi — eru einmitt kjörorð Hreyfingarinnar. Því miður býr forusta núverandi ríkisstjórnar ekki svo vel.

Ég hlýt því að ljúka orðum mínum á því að hvetja þingmenn og ráðherra til að glepjast ekki af hégómanum sem fylgir völdum og sljóvgar heldur standa fast á því að stokka enn frekar upp í ríkisstjórninni, taka inn fleiri flokka, þó ekki Sjálfstæðisflokkinn því að samkvæmt málflutningi þeirra hér í dag er ekki ástæða til að hleypa þeim að landsstjórninni strax, og gefa æðsta forustufólkinu, parinu sem verið hefur á þingi í samfellt 60 ár, frí frá störfum. Það og það eitt er mikilvægast af öllu. Að öðrum kosti munu nauðsynlegar breytingar á Íslandi, breytingar sem nauðsynlegt er að eigi sér stað í bráð, ekki eiga sér stað. — Góðar stundir.