138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

efnahagshorfurnar.

[10:38]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra beitti gömlu Albanínuaðferðinni, fór að skamma mig fyrir boðskap Hagstofunnar. Núna fram undan munum við verða að hlýða á skammir um Seðlabankann því að Seðlabankinn hefur vakið athygli á því í Peningamálum sínum að með aðgerðum og aðgerðaleysi sínu sé ríkisstjórnin að hægja á þeim bata sem annars hefði orðið.

Það hefur alltaf blasað við að árið 2009 yrði erfiðasta árið hjá okkur. Þá yrði samdrátturinn mestur. Sem betur fer varð samdrátturinn á árinu 2009 minni en áætlanir gerðu ráð fyrir. Það ætti auðvitað að öðru jöfnu að hjálpa okkur.

Það lá líka fyrir á haustdögum 2008 að menn ætluðu að landsframleiðslan stæði nokkuð í stað á árinu 2010. Nú koma fram tölur um að landsframleiðslan dragist saman milli fyrsta og annars ársfjórðungs. (Forseti hringir.) Þetta talar hæstv. forsætisráðherra um sem einhvern árangur. Er það árangur og markmið að það dragi úr landsframleiðslu milli ársfjórðunga?