138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

stefna í uppbyggingu í orkumálum.

[13:46]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. málshefjanda Jóni Gunnarssyni fyrir að taka upp þetta mikilvæga málefni, þ.e. uppbyggingu í orkumálum, og hvaða stefnu hæstv. ríkisstjórn hafi í því. Ræða hv. þingmanns benti hins vegar til þess að í hans huga væri stóriðjustefna það eina sem ætti eitthvað skylt við uppbyggingu í orkumálum. Hann var í rauninni ekki að tala um orkunýtingu á neinn hátt heldur fyrst og fremst það hvernig hægt væri að koma upp fleiri stóriðjuverum. Uppbygging í orkumálum er samtengd allri annarri auðlindanýtingu þjóðarinnar. Þessa auðlind þarf að umgangast eins og aðrar, með sjálfbærni í huga og muna að við viljum skila henni aftur til barnanna okkar í jafngóðu og helst betra ástandi en við tókum við. Hugsanir um skammtímagróða eða stundarhagsmuni verða að víkja fyrir langtímasjónarmiðum í þessu efni.

Við eigum að spyrja okkur hvernig við getum notað þessa auðlind til þess t.d. að spara innkaup á erlendum orkugjöfum, hvernig við getum notað hana til að framleiða sjálf megnið af þeim matvælum sem við neytum innan lands og hvernig við getum notað hana til að leggja okkar af mörkum til að minnka notkun á kolefnaeldsneyti á heimsvísu. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Stefna í orkumálum getur vissulega verið eins og hv. þingmaður vill og kallar eftir, stóriðjustefna og ekkert annað, en slíka stefnu get ég ekki skrifað upp á.