138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

597. mál
[14:25]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Andsvar hv. þm. Péturs Blöndals segir meira en allt annað um hvar þingmenn standa í þessu máli. Hann hefur ekki hugmynd um hvað verið er að tala um. Vantar lausnir? Við höfum lagt fram lausnir í þessu máli alveg frá fyrstu tíð og honum er velkomið að kynna sér þær hvenær sem hann vill. Þær eru mjög málefnalegar og vandaðar. Það er ekki rétt hjá honum að hér vanti lausnir. Ég talaði m.a. um það í ræðu minni fyrir hádegi hvernig þær lausnir væru. Ég skal láta hv. þingmann fá þær á eftir.

Hann tekur dæmi af einstaklingum sem fara í prófkjör. Prófkjörin eru innra málefni stjórnmálaflokkanna. Ef stjórnmálaflokkarnir kjósa að haga prófkjörum sínum með þeim hætti að það þurfi milljónir til að komast á lista er það mál flokkanna. Ég tel að það sé slæmt mál. Ef stjórnmálaflokkarnir vilja haga þessu þannig, eins og þeir hafa sumir gert, er það þeirra mál. Ég tel það óásættanlegt.

Hann talar um maka manns sem er í pólitík. Ég leyfi mér að minna hv. þingmann á að maki fyrrverandi varaformanns Sjálfstæðisflokksins hefur legið undir miklu ámæli og þar með gert það að verkum að varaformaður Sjálfstæðisflokksins hrökklaðist út af þingi — vegna einhvers sem menn töldu vera mjög óeðlilega peningalega fyrirgreiðslu frá banka til hans. Það er það sem hefur gerst, hv. þm. Pétur Blöndal.

Prófkjörin eru svo annar pakki. Ég sé fyrir mér að stjórnmálaflokkarnir taki sér tak og hagi prófkjörunum með öðrum hætti en gert hefur verið hingað til. Það er þeirra mál.