138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

597. mál
[15:14]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður talar mikið um að frambjóðendur þurfi að kynna sig. Það er einfaldlega undir reglum hvers stjórnmálaflokks komið hvernig frambjóðendur í prófkjöri kynna sig. Það þarf ekki að eyða í það miklum peningum og því í rauninni óæskilegt að opna fyrir þá leið. Flokkurinn sjálfur getur staðið fyrir kynningu á jafnræðisgrundvelli fyrir alla þá sem óska eftir því að fara í framboð og dreift upplýsingum um þá til félagsmanna eða almennings.

Þetta er gert annars staðar. Þetta gerði m.a. dómsmálaráðuneytið í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem var í mars. Þannig er hægt að kynna pólitísk stefnumál og markmið án þess að auðmenn eða peningar brengli lýðræðið. Þetta er einmitt sú leið sem við leggjum til að Alþingi fari, að tekið verði fyrir óþarfapeningaaustur. Það hefur víða komið fram að það er aldrei hægt að koma algerlega í veg fyrir svindl, en það er hægt að gera á lýðræðislegri máta. Mig langar að benda hv. þingmanni á að það eru til annars konar aðferðir en prófkjör Sjálfstæðisflokksins til að velja fólk á þing.