138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

fundarstjórn.

[12:03]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég var ekki að ræða þetta frumvarp efnislega enda er þessi dagskrárliður ekki ætlaður til þess. Ég var eingöngu að vekja athygli á því að ég hefði á sínum tíma óskað eftir því að málið kæmi til umsagnar fagnefnda. Það var eðlileg og sanngjörn ósk. Því miður var ekki orðið við henni og þess vegna vildi ég strax, áður en þessi umræða hæfist, láta það koma fram að ég geri það að ósk minni að nýju að þetta mál komi fyrir fagnefndirnar eins og eðlilegt er.

Það vita allir að það er mjög algengt að mál af þessu tagi, sem snerta mörg málasvið, fari til umsagnar í fagnefndum og það hefur ekkert með það að gera hvort sú nefnd sem er með málið í sínum höndum núna hafi ekki reynt að vinna málið vel. Ég dreg það ekkert í efa, ég hef engar forsendur til að draga það í efa nema að því leyti að ég tel að það rýri málið að senda það ekki til umsagnar í fagnefndunum. Ég óska eftir því aftur að það verði gert og það hlýtur að vera í anda þess að reyna að vinna þetta mál vandlega að það fari fyrir fagnefndirnar.