138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[16:12]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Í mínum huga byrja menn á öfugum enda. Það er mikilvægt að aðlaga stjórnsýslu á Íslandi breyttum aðstæðum en menn byrja ekki á því að véla um það í pólitískum hrossakaupum við ríkisstjórnarborðið og reyna síðan að láta þetta ganga einhvern veginn upp. Það er ekki nálgunin. Lögin um Stjórnarráð frá árinu 1969 tóku mið af þeim tíma. Við hefðum betur látið t.d. umfang viðskiptamálanna taka meira mið af breyttri stöðu í atvinnumálum. Það má færa rök fyrir því að atvinnuvegaráðuneytin tækju mið af því þjóðfélagi sem var. Þetta gengur út á það, virðulegi forseti, að við veitum þjónustu og höfum eftirlit og því eiga menn að nálgast þetta út frá þeim forsendum, en ekki einhverjum pólitískum hrossakaupum. Þetta ber öll merki þess, eins og hv. þingmaður nefndi réttilega, að ríkisstjórnin sé að reyna að bjarga sér og því reyna menn að gera það sem þeir telja vel til þess fallið að ná skammtímavinsældum. Það mun koma niður á þeim sem þurfa á þjónustunni að halda.

Ég hef gagnrýnt hæstv. fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Álfheiði Ingadóttur, enda ósammála henni í pólitík eins og öðrum í stjórnarliðinu, en hvaða skynsemi er í því að skipta þeim hæstv. ráðherra út þegar hann er búinn að vinna allan þennan tíma í fjárlögunum, veit hver verkefnin eru og búinn að setja sig inn í þau og setja inn nýjan sem fær að auki trygginga- og félagsmálin? (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Þetta er auðvitað ekkert vit og það vita allir sem vilja.