138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[17:22]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Hann tekur að hluta til undir vangaveltur mínar um hvort þessi ráðherrakapall hafi verið lagður vegna þess að hæstv. forsætisráðherra vildi ekki mæta hingað með fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra í ljósi þess að leggja átti fram vantrauststillögu á þáverandi hæstv. ráðherra.

Hv. þingmaður rakti líka að í nefndaráliti meiri hlutans kæmi fram að við stofnun svokallaðs atvinnuvegaráðuneytis ætti að hafa meiri og nánari samstöðu við vinnslu og stofnun þess ráðuneytis. Mín skoðun er sú að hefði verið farið út í þá vinnu við þessa fækkun um tvo ráðherra hefði hugsanlega náðst meiri samstaða.

Það kom fram í máli hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar áðan að forsvarsmenn heilbrigðisstéttanna í landinu — þar er verið að búa til risaráðuneyti sem er með rúmlega helming af útgjöldum ríkisins í heild sinni — voru ekki spurðir álits á því, þ.e. fagfólkið í heilbrigðisstéttunum var ekki spurt um álit á því hvaða áhrif þetta mundi hafa. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni, það væri eðlilegra og skynsamlegra að vinna málin dýpra og betur áður en farið er af stað.

Fyrir mér eru þetta í raun og veru pólitísk hrossakaup. Það hefur reyndar komið fram og var vakin athygli á því áðan í ræðu að hæstv. fyrrverandi heilbrigðisráðherra sagði í fjölmiðlum að þetta væri víst gert til að koma fjárlagafrumvarpinu í gegn í haust, það yrði að koma böndum á villikettina. Þessi flýtir núna blasir svona við mér.

Þegar við afgreiddum málið við þinglok í vor voru einmitt fyrirheit um það af hálfu stjórnarflokkanna að hafa meira samráð í sumar í allsherjarnefnd en það virðist hafa verið svikið. (Forseti hringir.) Hver er skoðun hv. þingmanns á því?