138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[12:46]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefði nú verið ágætt ef hæstv. utanríkisráðherra hefði komið hér í þingsalinn strax í upphafi ræðu minnar en ekki bara rétt í lokin til þess að snapa sér fæting, (Utanrrh.: Nei, ég …) — afsakið orðbragðið og sletturnar. Ég fór sérstaklega yfir það í ræðu minni hér í upphafi, einmitt til þess að þurfa ekki að fara að munnhöggvast við t.d. hæstv. utanríkisráðherra, að ég væri hlynnt breytingum á Stjórnarráði Íslands. Ég hef lýst því yfir í umræðum um Varnarmálastofnun og er algjörlega þeirrar skoðunar að innanríkisráðuneyti sem slíkt er mér ekki á móti skapi. Það sem ég er að gagnrýna, hæstv. forseti, eru vinnubrögðin.

Mér þykir afskaplega leitt ef hæstv. ráðherra svíður undan vinnubrögðum mínum sem þingflokksformanns – mér þykir það mjög leiðinlegt. Ég get alveg bent honum á að það er margt í hans vinnubrögðum sem mér líkar ekki. En það er nú þannig að hann hefur ekki áhrif á hvernig ég stjórna þingflokki Sjálfstæðisflokksins frekar en að ég hafi áhrif á það hvernig hann kýs að reka sitt utanríkisráðuneyti. Get ég þó sagt að ég hef mjög margt við það að athuga.

Málið var tekið vanbúið út úr allsherjarnefnd í ágreiningi. Það er kannski þess vegna sem allar óskir sem fullbúið mál fengi komu ekki fram. Við skulum þá bara ítreka allar þær óskir í nefndinni milli 2. og 3. umr. Og ég neita því aftur og ég neita því enn að hér sé um einhverja tafapólitík að ræða. Við erum í stjórnarandstöðu. Það er okkar að gagnrýna. Það er okkar að koma með uppbyggilega gagnrýni og gaman væri að einhvern tímann yrði hlustað á hana. En sá dagur hefur ekki enn þá komið. Þess vegna er gott að fá ábendingar um það frá (Forseti hringir.) hæstv. ríkisstjórn (Gripið fram í.) að tekið verði tillit til þess og að allir gestir sem við (Forseti hringir.) óskum eftir í meðförum nefndarinnar verði kallaðir til.