138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[14:22]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef hlustað eftir röksemdum þeirra sem flytja málið og mér finnst þær vægast sagt þunnur þrettándi. Ég ætla að spyrja hv. þm. Birgi Ármannsson, sem situr í allsherjarnefnd sem fjallaði um málið, hvort það sé feimni hv. þingmanna stjórnarliðsins við að tala hér sem geri það að verkum að röksemdirnar fyrir því hafa ekki komið fram.

Ég hef lesið gögnin með frumvarpinu og þetta er meira og minna fagurgali. Þetta kemur m.a. fram hjá einkanefnd hæstv. forsætisráðherra en hún réði sérstaklega sína aðila til að fara yfir málið í tengslum við bankahrunið. Hún tók þar fram fyrir hendurnar á þingmannanefndinni og setti sitt fólk í að koma með tillögur.

Mikið var talað um að stofnanir væru of litlar, ráðuneytin of lítil. Þá er kannski fyrst að spyrja: Úr því að svo er, af hverju eru þá ekki litlu ráðuneytin sameinuð? Af hverju eru stóru ráðuneytin sameinuð? Hafa komið einhver rök fyrir því? Ef vandinn er sá að ráðuneytin séu of lítil hvers vegna eru þá litlu ráðuneytin ekki sameinuð? Hvers vegna eru tvö stærstu ráðuneytin sameinuð? Eitthvað hlýtur að hafa komið fram í nefndinni um þetta sem gengur þá þvert á það sem kemur fram í greinargerð og í texta í tengslum við frumvarpið.

Hér er enginn stjórnarliði til að tala þannig að ég get ekki spurt annan en hv. þm. Birgi Ármannsson út í málið.