138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[16:01]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er einmitt þetta sem ég hef áhyggjur af varðandi hv. sjálfstæðismenn þegar fullyrt er að stjórnarandstaðan hafi lært af mistökunum en ríkisstjórnarflokkarnir ekki. Ég hef áhyggjur af Alþingi í heild sinni hvað þetta snertir og þetta virðist vera týpískt sett upp þess efnis að stjórnarandstaðan tali svona en ekki stjórnarmeirihlutinn. Ég hef áhyggjur af alþingismönnum öllum og Alþingi í heild sinni hvað þetta snertir. Ég held að við eigum öll að reyna að taka okkur á í þessum efnum.

Aðeins að þessum IPA-verkefnum. Á fundi sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar sem haldinn var nýlega til að fara yfir þessi IPA-verkefni nefndi ráðuneytisstjórinn, aðspurður, hvort embættismennirnir innan ráðuneytisins hefðu í samráði við utanríkisráðuneytið skoðað einhver möguleg IPA-verkefni til sögunnar. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafði hins vegar slegið þau af áður en sótt var um. Það er algjörlega rangt að sótt hafi verið um einhver aðlögunarverkefni.

Varðandi meirihlutaálitið og það sem fram kemur í því um sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið treysti ég því bara núna að — Róbert Marshall upplýsti í umræðunum í gær að hann hefði ekki kynnt sér bókun tveggja þingmanna og eins ráðherra um þessi mál sérstaklega — við umfjöllun nefndarinnar muni hv. formaður hennar og nefndin öll kynna sér bókun þessara þriggja þingmanna og leita til samtaka og félaga í sjávarútvegi og landbúnaði áður en nefndarálit kemur hér inn til 3. umr.