138. löggjafarþing — 154. fundur,  9. sept. 2010.

auglýsingaskilti utan þéttbýlis.

[10:47]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Ég er með spurningu til hæstv. umhverfisráðherra vegna nýgengins úrskurðar umboðsmanns Alþingis um heimildir Umhverfisstofnunar til aðgerða vegna auglýsingaskilta utan þéttbýlis. Eins og flestir vita sem ferðast akandi um landið er eitt af því sem fyrir augun ber í síauknum mæli flennistór auglýsingaskilti sem reyna að fanga athygli þeirra sem eiga leið hjá. Vissulega er mikilvægt fyrir ferðaþjónustu og þjónustufyrirtæki almennt að geta kynnt þjónustu sína en vegna þess lýtis sem svona auglýsingaskilti sem staðsett eru á víðavangi eru talin vera, var sett inn ákvæði í lög nr. 44/1999, um náttúruvernd. Samkvæmt 43. gr. þeirra laga er óheimilt að setja upp auglýsingar meðfram vegum eða annars staðar utan þéttbýlis. Samkvæmt 76.gr. sömu laga skal hver sá sem brýtur gegn ákvæðum laganna sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.

Umhverfisstofnun virðist hafa átt í erfiðleikum með að framfylgja þessum lögum því að þrátt fyrir ábendingar þar um hafa þessi skilti ekki verið tekin niður. Frægt er dæmið um mæjónesdósina risastóru sem sett var upp á Suðurlandi og trónaði þar allt of lengi en fór þó fyrir rest. Einnig er um að ræða auglýsingar, oft og tíðum margir fermetrar að stærð, frá byggingarvöruverslunum, sjoppum, hótelum og kirkju, svo fátt eitt sé talið. Í úrskurði umboðsmanns kemur fram að þó að hann geri athugasemd við að Umhverfisstofnun hafi ekki tilkynnt viðkomandi skiltaeiganda að málið væri til meðferðar hjá stofnuninni hafi Umhverfisstofnun ótvírætt heimildir til að senda slík meint brot beint til lögreglu til rannsóknar.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort úrskurður umboðsmanns Alþingis sé að hennar mati ekki alveg skýr í þessu máli og svo hvort hæstv. ráðherra muni í kjölfarið ítreka það við Umhverfisstofnun að ganga ákveðnar fram hvað þessi mál varðar.