138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[16:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann sömu spurningar — en ég vil byrja á því að þakka henni og nefndinni allri, eins og ég hef reyndar þegar gert, fyrir frábært starf sem menn hafa sinnt af mikilli ábyrgð og vinnusemi. Ég dáist að því hvað nefndin hefur komist yfir mikið. — Mig langar að spyrja hv. þingmann sömu spurningar og ég spurði hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur. Hér stendur að mikilvægt sé að Alþingi verji og styrki sjálfstæði sitt og grundvallarhlutverk. Þessi setning segir mér ekki neitt, frú forseti. Ég spyr hv. þingmann sem er nýr á þingi: Er eðlilegt að öll frumvörp á Alþingi sem verða að lögum, alla vega öll meginfrumvörpin, þau stærstu — einstaka þingmannafrumvarp flýtur með — séu samin og þeim ritstýrt í ráðuneytunum hjá framkvæmdarvaldinu? Hefði ekki verið eðlilegt að koma inn á þetta í þingsályktuninni að Alþingi eða nefndir Alþingis semji sem og ritstýri öllum frumvörpum sem verða að lögum?

Síðan er það önnur spurning. Í fjárlögum er það iðulega þannig að Alþingi felur ríkisstjórninni að reisa hundakofa eða eitthvað úti um allt, að byggja brýr o.s.frv. Hver skyldi bera ábyrgð á þeim framkvæmdum? Getur Alþingi gagnrýnt sjálft sig fyrir þá framkvæmd?

Að lokum er spurningin um hæstv. ráðherra sem ég talaði um, sem jafnframt eru þingmenn — hér situr reyndar einn: Er eðlilegt að framkvæmdarvaldið sitji og greiði atkvæði með frumvörpum og hafi meira að segja þingstyrk upp á þriðjung þeirra sem þarf til að samþykkja frumvarp á Alþingi? Það er ekki minnst á þetta í skýrslunni sem er annars góð. Ég vildi spyrja hv. þingmann að þessu.