138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:10]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að færa þingmannanefndinni þakkir fyrir mikil og vel unnin störf og góða skýrslu. Ég tel að það sé ákaflega gagnlegt sem næsta skref í úrvinnslu hins mikla verks sem rannsóknarnefnd Alþingis skilaði af sér að við höfum fengið á einum stað samanteknar niðurstöður úr þeirri miklu vinnu og við þeim er brugðist skipulega kafla fyrir kafla. Þar eru staðfestar í öllum meginatriðum niðurstöður rannsóknarnefndarinnar, sú meginniðurstaða að höfuðábyrgðina á því sem hér gerðist beri að sjálfsögðu fjármálageirinn sjálfur, bankamenn og forustumenn í viðskiptalífi sem hafa reynst þessari þjóð dýrkeyptir. En þar er líka staðfestur sá þungi áfellisdómur sem stjórnsýslan, eftirlitskerfið og fleiri aðilar í samfélaginu fá, eins og fjölmiðlar og fræðasamfélag. Þetta eru allt saman dapurlegar niðurstöður en samt er á sinn hátt gott að við þurfum þá ekki að deila mikið lengur um greiningu á þessum atburðum, afleiðingarnar og orsakirnar sem urðu, og það er að myndast merkileg samstaða um hluti sem hefði verið óhugsandi litið átta ár aftur í tímann. Ég mun koma nánar að því, t .d. í umræðum um hagstjórn og efnahagsmál á þessum árum.

Ég ætla að reyna að fara yfir það sem mér finnst mikilvægast að ræða í þessu og byrja á Alþingi. Sagt hefur verið að þær niðurstöður sem þingmannanefndin kemst að og fjölmargar tillögur um úrbætur á því sviði séu jafnvel sjálfstæðisyfirlýsing Alþingis, með öðrum orðum að Alþingi sé veikt og að það þurfi að styrkja. Ég er sammála því. Vandinn er hins vegar sá að framkvæmdarvaldið á Íslandi er líka veikt og rannsóknarnefnd Alþingis kemst ekki síður að þeirri niðurstöðu að hluti af veikleikunum sem birtust okkur í aðdraganda bankahrunsins, hvernig þar var staðið að málum og kannski fyrst og fremst hvað var ekki gert af því sem hefði átt að reyna að gera, sé að stjórnkerfið samanstandi af fáum, veikburða og dreifðum einingum. Það á m.a. við um Stjórnarráð Íslands. Vandinn er líka til staðar úti í stjórnkerfinu og það er ekki bara Alþingi sem hér á undir.

Ég vil líka segja að ég tel að það verði að setja þessa hluti í hið rétta samhengi stjórnskipunarinnar í landinu, í samhengi við þá staðreynd sem ekki verður umflúin — og þar erum við formaður Sjálfstæðisflokksins sammála — að Alþingi er að sjálfsögðu æðsta og valdamesta stofnunin í landinu. Hér liggur löggjafar- og fjárstjórnarvaldið. Alþingi veitir framkvæmdarvaldinu umboð. Hingað sækir ríkisstjórn í þingbundnu fyrirkomulagi umboð sitt eða öllu heldur sækir ríkisstjórnin umboð sitt til kjósenda í gegnum sína kjörnu fulltrúa á Alþingi. Það þurfa menn að hafa í huga þegar þetta er greint. Það þýðir ekki að ekki sé brýnt að gera ýmsar úrbætur í starfsháttum Alþingis og efla þær eftir sem við höfum ráð á að gera.

Mig langar að fara aðeins yfir þetta í sögulegu samhengi. Það vill svo til að ég man tímana tvenna í þessu ef ég má taka svo til orða. Þegar ég kom inn á þing 1983 var ekkert nefndasvið. Þá starfaði Alþingi í þremur málstofum, í sameinuðu þingi, í neðri deild og efri deild. Þingmenn höfðu fram að því ekki haft sínar eigin skrifstofur. Í nefndastörfum nutu menn engrar aðstoðar. Þingmenn rituðu sjálfir fundargerðir, formenn þingnefnda eða þingnefndarmenn skiptu því á sig að undirbúa nefndafundi, kalla til gesti, önnuðust öll þau samskipti sjálfir. Á þessu var síðan gerð mikil bragarbót og þeir forsetar sem fóru með embætti á þingi á 9. áratugnum unnu gott starf, Þorvaldur Garðar Kristjánsson og síðan Guðrún Helgadóttir. Það var ráðist í mikla vinnu við að endurskoða skipulag Alþingis sem leiddi til grundvallarbreytinga 1991. Gerðar voru stjórnarskrárbreytingar þar sem Alþingi var sameinað í eina málstofu og þær blessaðar, neðri deild sem starfaði í þingsalnum sem við stöndum í og efri deild hinum megin, voru lagðar niður. Ég sat reyndar í þeim báðum. Það var stofnað nefndasvið og verulega betur búið að störfum þingsins en áður hafði verið. En meira var gert, það var reynt að innleiða þann anda að Alþingi ætti að vera meiri samstarfsstaður og sjálfstæðara í sjálfu sér gagnvart framkvæmdarvaldinu en það hafði áður verið. Þetta birtist m.a. í því að samstaða náðist um að stjórnarandstaðan fór með formennsku í þingnefndum í tvö kjörtímabil á grundvelli ágætrar samstöðu um það. Það fyrirkomulag gafst vel, kannski með einni frægri undantekningu.

Þegar ég lít yfir þetta í sögulegu samhengi var Alþingi veikt þegar ég kom inn fyrir 27 árum. Það styrkti stöðu sína á 9. áratugnum, sérstaklega með breytingunum 1991. Í hönd fór tími þar sem þingið var sterkara. Því miður var það síðan allt saman kæft. Það var lagt af að stjórnarandstaðan færi með forustu í nefndum og framkvæmdarvaldið sótti aftur í sig veðrið í krafti sterkra meirihlutaríkisstjórna og foringja í þeim herbúðum sem kunnu vel að meta vald sitt þannig að þingið lét aftur undan síga og fór í langa lægð, var veikara gagnvart framkvæmdarvaldinu þar til nú að ég tel að það hafi aftur styrkt stöðu sína. Frá og með ósköpunum sem yfir okkur dundu hefur Alþingi sett meira mark sitt á framvindu mála af ýmsum ástæðum. Svona gengur þetta kannski í sveiflum og vonandi lærum við af þessu að það er ekki gott að þingið sé veikt. Það þarf að búa þannig að stjórnarandstöðunni, ekki síst, að hún geti sinnt hlutverki sínu en þá verða menn líka að hlusta á stjórnarandstöðuna og taka mark á því sem hún hefur fram að færa.

Ég hef lengi verið talsmaður þess, trúi því hver sem vill, að við reyndum að innleiða á Íslandi meiri samstöðustjórnmál, það sem menn kalla „konsensuspólitík“ upp á skandinavísku. Því hefur maður kynnst annars staðar á Norðurlöndunum, m.a. og ekki síst þar sem minnihlutastjórnahefð er rík, og þar styrkja yfirleitt þjóðþingin stöðu sína. Nú er ég ekki endilega að biðja um að við byggjum á minnihlutastjórnum bara til að ná fram þeim markmiðum að þingið styrkist í framhaldinu, en það (Gripið fram í: Jú, …) vill verða þróunin eins og kunnugt er. Það er hægt að gera þetta með ýmsum hætti en þegar upp er staðið er það í höndum þingsins sjálfs að taka sér þá stöðu sem það kýs. Það getur enginn annar gert það. Það þýðir ekki að kveinka sér undan því að framkvæmdarvald sem sækir umboð sitt til þingsins gerist of frekt til fjörsins því að það er í valdi og á höndum þingsins sjálfs að sjá um að það gerist ekki.

Í öðru lagi langar mig að nefna þær tillögur nefndarinnar sem lúta að rannsókn mála í framhaldinu. Hér eru lagðar til, einkum í þingsályktunartillögunni sem fylgir skýrslunni, fjölmargar aðgerðir til úrbóta um endurskoðun laga, það sem snýr að starfi Alþingis o.fl. Í þremur tilvikum leggur nefndin sérstaklega til að ráðist verði í rannsóknir. Í fyrsta lagi á starfsemi lífeyrissjóða. Ég tek alveg undir að á því er rík þörf. Lífeyrissjóðirnir voru þátttakendur í þessu á sinn hátt. Þeir urðu fyrir tjóni í hruninu, blessunarlega þó ekki meira en svo að þeir hafa að mestu leyti endurheimt styrk sinn á nýjan leik — en þeir voru vissulega þátttakendur. Lífeyrissjóðirnir sjálfir hafa ákveðið að setja óháða rannsókn af stað og það er álitamál að mínu mati hvort Alþingi eigi að bíða niðurstöðu þeirrar rannsóknar eða setja sjálfstæða rannsókn af stað til hliðar við hina. Ég tel að báðir kostir komi til greina en í öllu falli er ég algerlega sammála því að eitt af því sem þarf að fara yfir er þáttur lífeyrissjóðanna í þessu og hvernig þeir tengdust inn í ýmsa atburði, þótt ekki væri nema vegna þess að í lífeyrissjóðunum er fólgin einhver allra dýrmætasta framtíðareign Íslands sem við verðum að passa vel upp á. Að því marki sem mönnum varð á í messunni og sem þörf er á að endurskoða lög og reglur, draga úr áhættu, bæta meðferð fjármuna, endurskoða stjórnskipulag eða fyrirkomulag er rétt og skylt að gera það.

Í öðru lagi leggur nefndin til að farið verði í stjórnsýsluúttekt á Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum. Ég styð hvort tveggja og þótt fyrr hefði verið. Það er alveg ljóst þegar maður les rannsóknarskýrsluna stóru, og aftur staðfest í þingmannanefndarskýrslunni, að þessar tvær megineftirlitsstofnanir fá algera falleinkunn, því miður, fyrir frammistöðu sína á missirunum í aðdraganda hrunsins, kannski ekki síst á síðasta hálfa til eina árinu áður en bankarnir hrundu. Nú hefur þar vissulega verið skipt um yfirstjórn og að einhverju leyti breytt lögum en engu að síður eru þetta sömu stofnanirnar með að miklu leyti sömu starfshættina. Það væri stórfurðulegt ef menn færu ekki rækilega ofan í saumana á því hvernig þurfi að betrumbæta vinnubrögð og fyrirkomulag á þessu sviði í ljósi þess hversu afdrifaríkt hlutverk þessara stofnana var, eða öllu heldur hversu dýrkeypt mistök þeirra voru. Eru þar þungbær, ekki síst í peningum talið, þau áföll sem ríkið situr nú uppi með vegna Seðlabankans, vegna þess gríðarlega tjóns sem þar varð og að endurfjármagna þurfti Seðlabankann upp á nýtt. Engu að síður fær Fjármálaeftirlitið af þessum tveimur stofnunum að mínu mati miklu harkalegri falleinkunn í niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar. Það verður að segja það eins og er að það stendur ekki steinn yfir steini í framgöngu Fjármálaeftirlitsins hvað varðar árin fyrir hrunið. Það er mitt mat og mín niðurstaða. Ég tel að sú stofnun, veikburða kannski og hafi sér það að einhverju leyti til málsbóta, hafi allt fram í september 2008 meira og minna flutt boðskap fjármálafyrirtækjanna, sem hún átti að hafa eftirlit með, í samskiptum við erlenda aðila. Þetta er þannig, og skoði menn bréfaskriftir Fjármálaeftirlitsins til hollenska seðlabankans í byrjun september 2008. Þeir trúa mér illa og hrista mikið höfuðið.

Að síðustu leggur nefndin til að sparisjóðirnir verði rannsakaðir og að sjálfsögðu ber að gera það. Það má segja að sparisjóðirnir hafi því miður lent í tilteknu einkavæðingarferli, ekkert síður en bankarnir, a.m.k. markaðsvæðingarferli. Það gerðu þeir í kjölfar þeirrar ólánsákvörðunar að leyfa sölu á stofnfjárbréfum á markaði og með yfirverði sem aldrei skyldi verið hafa og var að mínu mati lögbrot. Þess vegna tel ég að í ljósi þess sem hér hefur verið rætt, og vitna ég þá sérstaklega til þess sem formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sögðu í umræðunni í gær, kunni samstaða að geta skapast um að fara betur yfir og rannsaka a.m.k. skilgreinda þætti einkavæðingar bankanna á sínum tíma. Má þá ekki hugsa sér að gera það í tvíþættri rannsókn sem annars vegar taki til rannsóknar á sparisjóðunum og hins vegar á þessum þáttum í einkavæðingu bankanna. Ég tel að þar þurfi enn að gera betur, jafnvel þótt rannsóknarnefnd Alþingis og núna þingmannanefndin staðfesti í meginatriðum mjög ámælisverð vinnubrögð hvað varðar einkavæðingu bankanna á sínum tíma. Væri hægt að fara yfir það ef tíminn leyfði. Það sem mest stingur í augu er hvernig horfið var frá þó þeim markmiðum sem menn þóttust ætla að hafa að leiðarljósi í vinnunni. Ég gagnrýndi ítrekað á sínum tíma hvernig áformin voru lögð upp, t.d. í greinargerð með frumvarpi þegar ríkisviðskiptabönkunum var breytt í hlutafélög og menn lofuðu í greinargerð með stjórnarfrumvarpi að stíga síðan mjög varlega til jarðar. Menn sögðu: Þetta er formbreyting, það stendur ekki til að rjúka í einkavæðingu á bönkunum. Og það var sagt að næstu fjögur árin yrði það ekki gert nema hugsanlega í einhverjum mæli hvað varðaði það að bjóða upp nýtt hlutafé sem einhverjir meðeigendur gætu þá eignast á móti ríkinu. Það var ekki staðið við eitt eða neitt af þessu. Menn sögðu: Við ætlum að tryggja dreift eignarhald. Það var ekki staðið við það, heldur þvert á móti, og þegar það hentaði af pólitískum ástæðum var skipt yfir í hugtakið kjölfestufjárfesti. Menn sögðu: Við munum gera ríkar faglegar kröfur til þess hverjir geta verið eigendur banka. Þeir þurfa að hafa þekkingu og reynslu á því sviði og menn töluðu í því samhengi gjarnan um kosti þess að fá, eftir atvikum, reynda erlenda banka með sem samstarfsaðila. Hver varð niðurstaðan? Menn gerðu hið gagnstæða. Menn seldu reynslulausum bröskurum tvo af þremur stærstu bönkum þjóðarinnar. Það er því miður niðurstaðan með skelfilegum og dýrkeyptum afleiðingum. Þetta þarf að rannsaka betur en hingað til hefur verið gert.

Sumt af því er fyrnt og þeir ráðherrar sem fóru með þau mál og bera á þeim ábyrgð verða ekki sóttir til saka með hefðbundnum hætti á grundvelli laga um ráðherraábyrgð, en það þarf samt að botna þennan þátt og leiða sannleikann í ljós. Rannsóknarnefndin segir sjálf að hún hafi ekki nema að takmörkuðu leyti getað farið ofan í saumana á þessum málum. Ég styð það eindregið að unnið verði úr tillögum nefndarinnar með þeim hætti sem þingmannanefndin leggur til, m.a. hvað rannsóknirnar varðar, og fagna því að við getum náð samstöðu um t.d. það að taka þar inn afmarkaða þætti, a.m.k. sem eftir standa og þarf að botna betur sem snúa að einkavæðingarferli bankanna.

Þá kem ég að þeim þætti sem snýr að ábyrgð ráðherra og vísa þá líka til þeirra tillagna sem fyrir liggja í þeim efnum og ég mun kannski ræða síðar þegar þær koma á dagskrá. Þar er án nokkurs vafa um erfiðasta þátt þessa máls að ræða fyrir okkur þingmenn sjálfa. Það má segja að eitt það erfiðasta sem maður hefur nokkurn tíma staðið frammi fyrir á ferli sínum hér sé að þurfa að taka afstöðu til slíkra hluta. Menn hafa gagnrýnt að hér sé um gamalt og óvenjulegt fyrirkomulag að ræða þar sem er landsdómur. Það er út af fyrir sig rétt. En það er eins og það er, stjórnarskrá og lög landsins eru að þessu leyti eins og þau eru og þau eru sambærileg við ákvæði sem enn er notast við í mörgum nálægum löndum. Undan því getum við þar af leiðandi ekki kveinkað okkur. Það er búið að vera í höndum okkar sjálfra að gera þar á breytingar ef við hefðum viljað, m.a. þeirra sem nú færa sérstaklega fram sem rök að þessu hefði þurft að breyta. Var það ekki þáverandi forsætisráðherra Davíð Oddsson sem fékk árið 1999 ábendingar um að kannski ætti að setja þetta fyrirkomulag í endurskoðun? Hann gerði það ekki, beitti sér ekki fyrir því (Gripið fram í: Þing.) frekar en aðrir sem hefðu getað tekið sér frumkvæðisskyldu í þeim efnum. (Gripið fram í: Þingið.)

Menn segja að það sé óvíst, og færa það jafnvel fram sem rök, að miklu hefði verið forðað þótt menn hefðu staðið öðruvísi að málum á síðari hluta árs 2007 eða öndverðu ári 2008. Rannsóknarnefndin gefur í skyn að veikleikarnir í bankakerfinu hafi verið orðnir slíkir 2006 að kannski hefði verið erfitt að sjá að síðar hefði verið hægt að gera ráðstafanir til að afstýra falli þeirra. Það er nokkuð til í því að mínu mati — en það leysir menn ekki undan skyldunni að reyna og það leysir menn ekki undan skyldunni sem snýr að því að reyna að lágmarka skaðann. Það er ekki þannig og enginn getur svarað slíkum spurningum í þáskildagatíð. Það er auðvelt að færa fyrir því rök að hefðu menn horfst af meiri meðvitund í augu við aðstæður allt frá árinu 2005, en líka á árunum 2007 og 2008, hefði örugglega verið hægt að draga verulega úr tjóni íslenska þjóðarbúsins. Það er hægt að sýna fram á mjög nærtæk dæmi.

Við stöndum frammi fyrir því að sjö af níu þingmönnum í þingmannanefndinni komast að þeirri rökstuddu niðurstöðu að það beri að ákæra a.m.k. þrjá ráðherra. Þetta er alls ekki spurning um hvað menn vilja því að við eigum ekkert frjálst val í þessum efnum. Þetta er spurning um að menn komist að niðurstöðu um hvað er rétt að þeirra dómi og hvað er skylt. Á herðum okkar hvílir það að axla þær skyldur sem starfi okkar fylgja. Síðast buðu sig allir fram til þings vitandi hvernig stjórnarskrá og landslög væru, líka að þessu leyti. Það er ekki neitt skjól fyrir ábyrgð okkar í svona tilvikum þó að við séum út af fyrir sig óánægð með eitthvert fyrirkomulag eða teljum að það þyrfti að sæta endurskoðun. Það er ekki þannig. Þetta eru vissulega óvenjulegir atburðir sem sagan geymir ekki fordæmi um og þetta er m.a.s. fátítt í öðrum löndum. Þar eru málin að vísu miklu oftar leyst með því að stjórnmálamenn axli samtímaábyrgð og segi af sér embætti ef þeim verður á. Þar af leiðandi reynir síður á það fyrirkomulag sem má segja að sé til þrautavara ef menn hafa ekki á réttum tíma axlað hina pólitísku ábyrgð með því einfaldlega að víkja sjálfir. Hér má segja að það sé þrautavaraúrræði. Menn standa frammi fyrir því að svona atburðir hafa átt sér stað.

Ég tek það skýrt fram fyrir mína hönd að ég efast ekki um að allt það fólk sem hér á í hlut, þessir fjórir ráðherrar, vilji vel og hafi viljað vel. Þetta snýst ekki um það. Við erum ekki að segja að þetta fólk hafi ekki viljað vel. Það þýðir hins vegar ekki að mönnum hafi ekki getað orðið á, að menn hafi ekki gert mistök, að menn hefðu ekki átt að reyna að gera betur. Það er um það sem þetta snýst. (Gripið fram í.) Við verðum einfaldlega að horfast í augu við þá hluti. (TÞH: Það vantar Icesave.) Ég heyri að þingmenn taka því vel að reynt sé að ræða þetta hreinskilnislega. Ég bið þá þingmenn sem ekki þola þennan málflutning að yfirgefa salinn, þeir eiga þá leið í staðinn fyrir að grípa fram í. Mér er mikið niðri fyrir og mér er það mikið tilfinningamál að þurfa að flytja þessa ræðu. Það er erfitt. Það er mjög erfitt en við verðum líka að muna og hafa aðeins í huga í samhengi við það hversu óvenjulegir þessir atburðir eru að þeir tengjast algerlega einstæðum áföllum í Íslandssögunni. Hættan sem hér var á ferðum er meiri en nokkru sinni. Það hefur sem betur fer aldrei verið þannig fyrr en nú að Ísland stæði frammi fyrir alvarlegri hættu á því að komast í þrot, að hér gæti jafnvel orðið þjóðargjaldþrot. Það hugtak er sem betur fer farið út úr umræðunni en það sveif yfir vötnum í salnum fyrsta árið eftir hrunið og ég bað menn iðulega að hafa ekki uppi slík orð því að þau hjálpuðu okkur lítið.

En auðvitað stóðum við frammi fyrir hættu á þungbærum og miklum áföllum. Við gerðum það þegar í aðdraganda hrunsins og það gerir þessar aðstæður algerlega einstakar. Við neyðumst til að meta ábyrgð þeirra sem með völdin fóru í samhengi við stærð hættunnar sem við okkur blasti og skylduna sem á mönnum hvíldi við að reyna að gera þó það sem hægt var til að lágmarka a.m.k. skaðann eða draga úr líkum á algerum ófarnaði.

Þegar menn reyna að halda því fram að vegna þess að látið er að því liggja í rannsóknarskýrslunni að á því leiki hvort hægt hefði verið að koma í veg fyrir hrun bankanna með aðgerðum eftir árið 2006 skulum við horfa á hina hlið mála. Er hægt að benda á algerlega skýr tilvik um að svo seint sem á árinu 2008 hefði verið hægt að forða miklu tjóni? Svarið er já.

Það blasir t.d. við eitt dæmi sem tengist ákæruskjalinu, sú staðreynd að markvissar aðgerðir og einbeitt eftirfylgni hefði a.m.k. átt að koma í veg fyrir að Landsbankinn opnaði Icesave-reikninga í Hollandi í útibúum í maí 2008. Bara það hefði firrt íslenskt þjóðarbú miklu tjóni, (Gripið fram í: Nú?) 1/3 af heildarreikningnum og þó því sem eftir kann að standa þegar upp verður staðið. (Gripið fram í: Nú?) Þess vegna er það ekki tilviljun að m.a. í þeim efnum komast bæði rannsóknarnefnd Alþingis og þingmannanefndin að meiri hluta til að tiltekinni niðurstöðu. Þetta er mín nálgun á málinu. Ég tel að sá málflutningur sem uppi hefur verið hvað varðar fyrirkomulagið, sérstakt sem það vissulega er, standist ekki nánari skoðun. Þetta eru þau ákvæði sem stjórnarskrá okkar og lög geyma og eftir þeim verðum við að fara. Ég tel líka að því sé rækilega svarað í greinargerð þingsályktunartillögu fimmmenninganna að réttarfarslega standist þessi málsmeðferð. Hún tekur ekki af mönnum mannréttindi þó að vissulega sé um óvenjulega aðferð að ræða. Fyrir því eru líka fordæmi, m.a. dómar hjá Mannréttindadómstóli Evrópu sem staðfestu málsmeðferðina í svonefndu Tamílamáli.

Þess vegna er okkur ekki skjól í slíku, að lokum verðum við að axla hér ábyrgð á því að taka afstöðu til þessa. Þar geta menn að sjálfsögðu haft mismunandi sjónarmið og mismunandi sannfæringu, sumir komist að þeirri niðurstöðu að forsendur ákærunnar séu til staðar og að líkurnar séu það miklar á sakfellingu að þá beri að ákæra, ekki bara beri, heldur sé mönnum skylt að gera það. Aðrir meta hlutina öðruvísi, að þær forsendur séu ekki uppfylltar. Það verður þá vandi okkar þingmanna þegar kemur að því að ýta á hnappinn að taka afstöðu til þeirra þátta.

Ég hefði gjarnan viljað ræða, ef tíminn hefði leyft, lítillega um kaflann um siðferði og samfélag því að mér finnst hann mjög merkilegur, sem og 8. bindi rannsóknarskýrslunnar sem á margan hátt er ekki sá minnst verði hluti þess starfs sem þarna hefur verið unnið. Þar er t.d. fjallað um andann sem var í fjármálageiranum. Þar er rækilega farið yfir einkavæðinguna á bönkunum og sett í samhengi við það viðfangsefni sem þar er greint. Ég hefði gjarnan viljað fara yfir fylgiskjalið um kyngreiningu á þeim anda sem þarna sveif yfir vötnum. Sé ég nú að einhverjir brosa sem enn eiga eftir að þroskast í þessum efnum. Mér finnst það stórmerkilegt innlegg í þetta mál, mjög gagnlegt fyrir okkur að lesa hvernig kynjaheimurinn var og er þarna til staðar, hvernig feðraveldið heldur enn klónum í samfélaginu, stjórnar umræðunni, hugtakanotkuninni og öðru slíku. Ég sé að þetta er mönnum endalaus uppspretta gleði sem hér hlæja úti í salnum (Gripið fram í.) og þá er það bara þannig að við nálgumst þetta frá mismunandi sjónarhorni.

Ég vil svo að lokum nefna það sem bar aðeins á góma í ræðu hv. þm. Bjarna Benediktssonar um hagstjórn í aðdraganda þess að þessi ófarnaður varð. Ég verð að leiðrétta það sem hann hafði hér uppi um afstöðu okkar þingmanna Vinstri grænna á þessum árum, t.d. 2005, að við hefðum verið þeirrar skoðunar að það ætti að auka ríkisútgjöld sem næmi auknum tekjum ríkisins með því að lækka ekki skatta. Það er rangt.

Í þingsályktunartillögu á þskj. 1014 sem við fluttum í mars 2005 stendur í 5. tölulið að tryggja þurfi aðhald í ríkisfjármálum og slá á þenslu með því að falla frá hinum glórulausu skattalækkunaráformum. Maður gerir það ekki með því að útdeila öllum peningunum í önnur verkefni. Svo grunnhygginn var ég ekki í hagfræði þegar ég samdi þessa tillögu. Þvert á móti er sá andi sem þar svífur yfir að það verði að koma í veg fyrir að ríkið helli með framgöngu sinni olíu á eld þenslubálsins. Við lögðum þarna til að fallið yrði frá frekari stóriðjuáformum, að Fjármálaeftirlitinu yrði falið að gera vandað áhættumat í bankakerfinu. Meta hvað? Meta t.d. áhrifin af snöggri gengislækkun krónunnar eða lækkun fasteignaverðs vegna þess að þá þegar var orðið ljóst að íslenska þjóðfélagið gæti fengið högg ef hækkandi fasteignaverð og styrking gengis krónunnar endaði í ósköpum með snöggu falli. Var það ekki nákvæmlega það sem gerðist, eða hvað? Erum við ekki núna að glíma við gengishrun og stórlækkun fasteignaverðs með tilteknum efnahagslegum afleiðingum?

Við lögðum til að Seðlabankanum yrði falið að beita aukinni bindiskyldu. Til hvers? Til þess að draga úr þenslu á peningamarkaði og huga að öðrum aðgerðum sem gætu stutt þá viðleitni stjórnvalda að endurheimta efnahagslegan stöðugleika. Við lögðum þetta til um aðhald í ríkisfjármálum til að slá á þenslu og lögðum til samstarf við aðila vinnumarkaðarins og heildarsamtök í landinu um þetta mál.

Þegar greinargerð þessarar tillögu er lesin og rifjuð upp gögn frá þessum tíma rifjast upp fyrir manni hversu óendanlega dapurlegt það var að þessi hættumerki voru öll skrifuð á vegginn. Þau voru það. Hverjar eru kaflafyrirsagnir hér í greinargerðinni? Verðbólga yfir þolmörkum. Geigvænlegur viðskiptahalli. Hann stefndi á því ári í 11–12% og við héldum að hann mundi fara í 14% árið 2006, og það fannst manni skelfileg tala. Hvar endaði hann? Í 25% af vergri landsframleiðslu. Menn sögðu: Góðkynja viðskiptahalli.

Metár í bílainnflutningi í vændum, önnur millifyrirsögn. Erlendar skuldir vaxa hratt. Það rifjast upp fyrir mér að árið 2001 skrifaði ég blaðagrein vegna þess að þá urðu söguleg tímamót á Íslandi, dapurleg tímamót, hreinar erlendar skuldir þjóðarbúsins fóru yfir 100% af landsframleiðslu. Það var á árinu 2001. Það hringdi í mig einn maður og þakkaði mér fyrir greinina, það voru öll viðbrögðin. Menn höfðu ekki stórar áhyggjur á þessum tíma. Þarna voru skuldirnar orðnar 110–120% af vergri landsframleiðslu.

Hátt gengi að sliga útflutninginn, segir í annarri millifyrirsögn. Methækkanir á eignaverði. Mikill vöxtur í byggingariðnaði. Verðbólguskot handan við hornið. Brýnt að grípa til aðgerða án tafar.

Þetta var allt þarna.

Seðlabankinn og greiningardeildir vöruðu sterklega við en það var ekkert gert. Það var komin á sjálfstýring og við flutum sofandi að feigðarósi. Vissulega bera þeir menn sem þarna réðu ferðinni mikla ábyrgð en það gera hinir líka sem voru í aðstöðu til að grípa í taumana, reyna eitthvað þótt seint væri og lágmarka skaðann. Frá þeirri ábyrgð sem því fylgir verður ekki komist.