138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:49]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki verið að slíku hér. Það er ekki verið að saka menn um að hafa valdið hruninu. Þetta snýst um það að menn gerðu ekki eða reyndu ekki að gera það sem mögulega hefði verið hægt að gera til að draga úr tjóninu, a.m.k. til að reyna að draga úr því.

Ég vil segja varðandi skuldastöðuna á þessum árum. Að sjálfsögðu var það gott og það er ljós í myrkrinu að ríkið var orðið skuldlaust um það bil. Nema hvað, segi ég nú aftur. En veikleikinn var sá að á sama tíma söfnuðu aðrar máttarstoðir samfélagsins skuldum. Íslensk heimili og íslensk fyrirtæki voru þegar árið 2005 orðin þau skuldsettustu innan OECD, sveitarfélögin mjög skuldug o.s.frv. Þannig að það var takmörkuð huggun þótt það hafi vissulega verið til bóta að ríkið hafi þó verið skuldlaust.

Já, það er rétt, það var að mörgu leyti unnið þrekvirki í október 2008 við að koma nýju bönkunum á fót og færa allar innstæður yfir og tryggja að öll kerfin virkuðu, en ýmsu öðru var klúðrað mjög illilega eins og samskiptum við erlend ríki.

Af því að rætt var um Seðlabankann hér fyrr í umræðunum þá verð ég nú að láta það eftir mér að segja það og byggi það m.a. á þekkingu minni nú sem fjármálaráðherra og hafandi haft samskipti við bæði (Forseti hringir.) seðlabanka og fjármálaráðherra margra nálægra landa, að þar hefðu menn getað staðið betur að málum í samskiptum við kollega sína.