138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:51]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir hlý orð í garð okkar nefndarmanna, en hæstv. ráðherra fjallaði talsvert um nauðsyn þess að fara í frekari rannsókn á einkavæðingarferlinu. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað á að gera við niðurstöður þeirrar rannsóknar? Og hverju á hún að skila?

Við í þingmannanefndinni, níu þingmenn allra flokka sem eru á þingi, erum hér með harðorðar ályktanir um það að skýrsla rannsóknarnefndarinnar sé áfellisdómur yfir verkferlinu við sölu ríkisbankanna og vinnubrögðum þeirra ráðherra sem voru í forsvari við einkavæðinguna. Hvað meira þarf að gera? Og af hverju eða hvernig gátum við í þingmannanefndinni komist að niðurstöðu um þetta, að orða svona harðorðar ályktanir ef við vorum ekki með fullnægjandi gögn í höndunum? Ég skil þessa umræðu ekki og væri gott að fá að heyra hvort hæstv. fjármálaráðherra hafi einhver svör. Er hér verið að tala um sakamálarannsókn? Er það það sem átt er við? (Forseti hringir.) Ef svo er, af hverju er það þá ekki einfaldlega gert hjá þar til bærum yfirvöldum?