138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[14:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég vil benda henni á að ef þetta fer núna í þingsályktunartillöguna neyðist þingheimur til að greiða atkvæði um það og segja afstöðu sína til þessa einfalda máls sem við erum búin að ræða og hv. þingmaður hefur flutt frumvarp um sex sinnum. Það getur líka verið ágætisinnlegg, ef það verður samþykkt. Það kæmi þá sem hugmynd Alþingis til stjórnlagaþingsins og þeirrar vinnu. Ég skora því á hv. þingmann að flytja um þetta breytingartillögu og láta þingheim greiða um hana atkvæði. Það er algerlega í samræmi við skýrslu rannsóknarnefndarinnar sem undirstrikar að mörkin milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds séu ekki nógu skýr. Þá væri alla vega búið að skýra að sami maðurinn getur ekki verið með tvo hatta, annars vegar verið framkvæmdarvald og hins vegar löggjafarvald. Ég skora á hv. þingmann að gera þetta.

Ég á eina mínútu eftir og ég ætla að hætta.