138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[10:55]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var margt í ræðu hv. þingmanns sem ástæða er til að gera athugasemdir við en ein mínúta er takmarkaður tími til þess. Við verðum kannski að taka þá umræðu dýpra þegar kemur að umræðu um þingsályktunartillögu hennar og hv. þm. Magnúsar Orra Schrams, líklega síðar í vikunni.

Það er eitt sem ég vildi spyrja hv. þingmann um í tilefni af ummælum sem hún lét falla í útvarpsþætti í gærmorgun og er raunar í samræmi við það sem áður hefur komið fram hjá formanni nefndarinnar, hv. þm. Atla Gíslasyni, en ég get ekki skilið það öðruvísi en svo að ákæran sem Alþingi samþykkir hér sé með einhverjum hætti ekki endanleg heldur sé hægt að krukka í hana með einhverjum tilteknum hætti síðar. Ég vildi spyrja hv. þingmann aðeins um skilning hennar á því, vegna þess að í landsdómslögunum segir skýrt að sókn málsins sé bundin við þau ákæruatriði sem fram koma í þingsályktun (Forseti hringir.) Alþingis.