138. löggjafarþing — 165. fundur,  22. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[10:47]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við lestur þingskapa er ljóst að þetta mál á að fara inn til fastanefndar Alþingis, til allsherjarnefndar, og þess vegna er það mín skoðun.

Ég tel að þingmenn megi ekki, þeir hv. þingmenn sem sitja í þingmannanefndinni, taka þetta mál það persónulega að þeir líti á tillögu um að málið gangi til allsherjarnefndar sem vantraust á nefndina. Ég er allsendis ósammála þeim yfirlýsingum. Ég tel að það hafi komið fram í máli manna að þeir séu að hrósa þingmannanefnd fyrir störf hennar þótt menn séu ekki sammála niðurstöðu nefndarinnar. Við eigum ekki, hvorki við sem sitjum í þingmannanefnd né aðrir þingmenn, að láta sína eigin persónu verða það fyrirferðarmikla í málflutningi hér að það fari að trufla umræðuna. Við erum einfaldlega að fara að þingsköpum og þess vegna ætti málið að fara til allsherjarnefndar.