138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[13:58]
Horfa

Frsm. meiri hluta þingmn. um skýrslu RNA (Atli Gíslason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um málshöfðun gegn ráðherrum frá meiri hluta þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Nefndin hefur fjallað samhliða um þessar tvær þingsályktunartillögur á þskj. 1502, mál 706, og þskj. 1503, mál 707. Með fyrri þingsályktunartillögunni leggur meiri hluti þingmannanefndarinnar, hv. þm. Atli Gíslason, Eygló Harðardóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson og Birgitta Jónsdóttir, til að Alþingi höfði sakamál fyrir landsdómi gegn fjórum tilgreindum ráðherrum í öðru ráðuneyti Geirs H. Haarde.

Í síðari þingsályktunartillögunni leggja tveir nefndarmenn, hv. þm. Oddný G. Harðardóttir og Magnús Orri Schram, til að sakamál verði höfðað fyrir landsdómi gegn þremur tilgreindum ráðherrum í öðru ráðuneyti Geirs H. Haarde.

Ég vil nú víkja stuttlega að álitinu, fara yfir það að nokkru leyti. Ég tek fram að þingsályktunartillögurnar tvær eru samhljóða að öðru leyti en því að í síðari tillögunni eru ekki talin efni til að ákæra fyrrverandi viðskiptaráðherra Björgvin G. Sigurðsson.

Í nefndarálitinu er ítarlega fjallað um réttarfars- og refsiskilyrði en í umræðum á Alþingi um tillögurnar komu fram þau sjónarmið að lög um landsdóm og lög um ráðherraábyrgð stæðust ekki gagnvart 69. og 70. gr. stjórnarskrárinnar hvað réttarfars- og refsiskilyrði varðaði. Hefur þar m.a. verið vísað til réttarstöðu viðkomandi ráðherra við málsmeðferðina, skýrleika c-liðar 8. gr. og b-liðar 10. gr. laga um ráðherraábyrgð sem refsiheimilda og að málið hljóti samkvæmt lögum um landsdóm aðeins meðferð fyrir einu dómstigi.

Í greinargerð með umræddum tillögum til þingsályktana er tekið með ítarlegum og faglegum hætti á téðum álitaefnum og telja flutningsmenn tillögunnar að jafnt réttarfars- sem refsiskilyrði séu uppfyllt. Um þessa niðurstöðu var enn fremur leitað ráðgjafar sérfræðinga. Inn í nefndarálit hafa verið tekin ákveðin áhersluatriði úr greinargerðinni. Um þessi réttarfarsatriði sérstaklega vil ég leyfa mér að vísa til bls. 10–11 í greinargerðinni en mun ekki taka þau frekar til umfjöllunar. Þessir þættir hafa verið teknir upp í nefndarálitið.

Það er líka fjallað ítarlega um flokkun embættisbrota í lögum um ráðherraábyrgð og nauðsynlegt að vísa til umfjöllunar í greinargerð með þingsályktunartillögunum um þau athafnaleysisbrot sem greint er frá í þingsályktunartillögunum. Um þau er ítarlega fjallað á bls. 7 í greinargerðinni og vísa ég til þess en það er tekið orðrétt upp í nefndarálitinu og óþarfi fyrir mig að lesa það upp hér.

Jafnframt er gerð ítarleg grein fyrir saknæmisskilyrðum laga um ráðherraábyrgð og í kafla 3.5 í greinargerðinni er um þau ritað og með faglegum hætti og er það að finna á bls. 9 í greinargerðinni. Þeir þættir hafa líka verið teknir hér orðrétt upp og ég leyfi mér að vísa til þess.

Ég kem þá að 70. gr. stjórnarskrárinnar en þar segir að öllum beri réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur eða um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma. Ákvæðið mælir fyrir um réttláta málsmeðferð fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Meðferð máls fyrir landsdómi skiptir hér meginmáli í ljósi þessa mannréttindaákvæðis. 70. gr. stjórnarskrárinnar tekur eftir orðanna hljóðan ekki til meðferðar málsins fyrir rannsóknarnefnd Alþingis eða þingmannanefndinni. Þessi réttindi eru hins vegar fullkomlega tryggð fyrir landsdómi. Þegar ákvörðun Alþingis um málshöfðun gegn ráðherrum liggur fyrir með þingsályktun þar sem kæruatriði eru nákvæmlega tiltekin tekur saksóknari, kosinn af Alþingi, við málinu, sbr. 13. gr. laga um landsdóm. Samkvæmt 15. gr. sömu laga skipar forseti landsdóms ákærðum svo fljótt sem verða má verjanda úr hópi hæstaréttarlögmanna. Þá er það skylda saksóknara Alþingis skv. 16. gr. landsdómslaga að leita allra fáanlegra sannana fyrir kæruatriðum, undirbúa gagnasöfnun og rannsókn í málinu og gera tillögur til landsdóms um viðeigandi ráðstafanir til að leiða hið sanna í ljós. Í 24. gr. landsdómslaga er beinlínis gert ráð fyrir að dómprófanir geti farið fram áður en málið er þingfest fyrir landsdómi. Við slíkar prófanir, skýrslutökur o.fl. eru réttindi ákærðu tryggð. Um hlutverk verjanda sem skal gæta hagsmuna ákærða í hvívetna leyfi ég mér að vísa til 2. mgr. 16. gr. og 17. gr. laganna.

Aðeins svo um málsmeðferðina fyrir landsdómi þegar að því kemur. Þegar saksóknari hefur lokið öflun sönnunargagna og öðrum rannsóknum og dómprófunum þingfestir hann málið, leggur fram stefnu með árituðu birtingarvottorði, málshöfðunarályktun Alþingis, ákæruskjal, eftirrit af dómprófum þeim sem þegar kunna að hafa farið fram og önnur þau sakargögn sem fyrir hendi eru og unnt er að leggja fram á dómþingi, sbr. 24. gr. landsdómslaga. Enn fremur leggur hann fram nafnaskrá þeirra manna sem óskað er eftir að skýrsla sé tekin af fyrir landsdómi. Meginatriðið í þessu samhengi og alltaf við meðferð mála fyrir dómi er að sönnunarfærslan fer fram fyrir dómi, þar er hinn rétti vettvangur og þar á að gæta réttinda í hvívetna. Af framansögðu tel ég ljóst að ákærðu er að öllu leyti tryggð réttlát málsmeðferð við öflun saksóknara Alþingis á sönnunargögnum við rannsóknir og dómprófanir áður en mál er þingfest og jafnframt við málsmeðferðina fyrir landsdómi. Um frekari rökstuðning fyrir þessum þætti leyfi ég mér að vísa til álits meiri hluta allsherjarnefndar.

Þá aðeins um skýrleika refsiheimilda. Í tillögum til þingsályktunar um málshöfðun gegn ráðherrum eru meint brot viðkomandi ráðherra talin varða við b-lið 10. gr., sbr. 11. gr. laga nr. 4/1963, en til vara við 141. gr. almennra hegningarlaga, og við c-lið 8. gr. laganna, sbr. 11. gr. laga nr. 4/1963, en til vara við 141. gr. almennra hegningarlaga. Málið er enn fremur höfðað á hendur tveimur fyrrverandi ráðherrum til þrautavara fyrir brot gegn 141. gr., sbr. 22. gr. almennra hegningarlaga sem fjallar um hlutdeildarbrot. Þingmannanefndin fjallaði ítarlega um skýrleika þessara refsiheimilda á fjölmörgum fundum áður en skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis var birt 12. apríl 2010 og reyndar einnig eftir það. Leitaði þingmannanefndin ráðgjafar ýmissa lögspekinga og fór yfir fræðaskrif um álitaefnið. Ljóst er af þeirri umfjöllun að tilgreindar refsiheimildir standast fyllilega kröfur um skýrleika. Hins vegar hafa fræðimenn talið að a-liður 10. gr. ráðherraábyrgðarlaganna standist ekki þær kröfur, en það er ekki ákært á grundvelli þess málsliðar. Ég vil sérstaklega vekja athygli á grein Róberts R. Spanós prófessors sem heitir „Stjórnarskráin og refsiábyrgð (síðari hluti) – meginreglan um skýrleika refsiheimilda“ sem birtist í Tímariti lögfræðinga, 1. hefti, 55. árgangi, bls. 5–69, en þessi grein kom út í júní 2005. Hann reifar þar nákvæmlega hin sömu sjónarmið og ég hef fært fram og í nefndaráliti sem ég mæli hér fyrir er tekin upp úr þessari grein umfjöllun hans og ég leyfi mér að vísa til nefndarálitsins þar að lútandi.

Verði landsdómur kallaður saman geta ákærðu m.a. látið reyna á álitaefni um formhlið málsins fyrir landsdómi. Meiri hlutinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að það sem fram sé komið í málinu sé nægilegt og líklegt til sakfellis og að honum beri í því ljósi skylda til að flytja þingsályktunartillögur um málshöfðun gegn ráðherrum. Álitamál um formsatriði, þ.e. réttarfarsskilyrði, sem að mati meiri hlutans eru studd óhaldbærum gögnum, leysa nefndarmenn í þingmannanefndinni ekki undan þeirri skyldu sem lögin leggja á þá að höfða mál ef það sem fram er komið telst nægilegt eða líklegt til sakfellis.

Aðeins um tillöguna til málshöfðunar, því hefur verið hreyft hér í ræðum að þingsályktunartillögurnar fullnægi ekki skilyrðum um meðferð sakamála varðandi form og efni og hefur þar einkum verið vísað til 152. gr. laga um meðferð sakamála. Ég vil taka sérstaklega fram af þessu tilefni að í tillögunum er tilgreindur dómstóll sem málið er höfðað fyrir, nákvæmar upplýsingar um þá einstaklinga sem ákæran beinist að, hver sú háttsemi er sem ákært er út af, hvenær brotin eru talin hafa átt sér stað, hvaða lagaákvæði eigi við um meint brot ákærðu og gerð krafa um refsingu og greiðslu sakarkostnaðar. Sakarefnið er afmarkað og tilgreint með skýrum hætti og að mati flutningsmanna er engin hætta á því að vörn verði áfátt vegna ákærulýsingarinnar.

Áður en niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis lágu fyrir fór fram mikil umræða í þingmannanefndinni um lög um landsdóm, ráðherraábyrgðarlögin og lög um verkefni og valdheimildir þingmannanefndarinnar.

Eftir að niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis lá fyrir og nefndarmenn höfðu kynnt sér efni skýrslu rannsóknarnefndarinnar ítarlega var samþykkt, um mánaðamótin júní/júlí, að biðja sérfræðinga þingmannanefndarinnar að semja fyrstu drög að þingsályktunartillögu um málshöfðun gegn ráðherrum. Nefndarmenn lögðu mikla áherslu á að skýrleiki refsiheimilda, lýsing kæruatriða, málsmeðferðin og þingsályktunartillagan, þ.e. þessi drög um málshöfðun á hendur ráðherrum, mundi uppfylla öll réttarfars- og refsiskilyrði.

Drög að þingsályktunartillögunni voru síðan lögð fyrir þingmannanefndina á fyrsta fundi hennar eftir sumarhlé, þ.e. 17. ágúst 2010, ásamt ítarlegri greinargerð. Eftir að hafa leitað álits utanaðkomandi sérfræðings var ákveðið að gera breytingar á þessum drögum, afmarka kæruatriðin betur og skilgreina skýrt atvik eða tilvik um mikilvæg stjórnarmálefni samkvæmt 17. gr. stjórnarskrárinnar og skilgreina betur athafnaleysið í kæruatriðum er varða b-lið 10. gr. ráðherraábyrgðarlaganna, m.a. til samræmis við verkaskiptingu og embættisverk einstakra ráðherra.

Að mati meiri hlutans hefur verið gengið úr skugga um að fyrirliggjandi þingsályktunartillögur um málshöfðun gegn ráðherrum fullnægi öllum skilyrðum laga um meðferð sakamála bæði um form og efni.

Þá vík ég örstutt að þætti allsherjarnefndar í þessu máli. Við umræður í þingsal um tillögur til þingsályktunar um málshöfðun gegn ráðherrum komu fram óskir um að málið færi til allsherjarnefndar til umsagnar. Á fundi þingmannanefndarinnar 22. september sl. samþykkti nefndin að verða við þessum tilmælum og ritaði sama dag bréf til allsherjarnefndar sem er tekið orðrétt upp í nefndarálitið og ég leyfi mér að vísa til þess þar.

Allsherjarnefnd kom þegar saman síðdegis sama dag til að fjalla um málið. Var henni veittur frestur til kl. 16.30 föstudaginn 24. september til að skila umsögn sinni. Allsherjarnefnd hefur fjallað um málið, kallað til sín sérfræðinga og skilað tveimur umsögnum, umsögn meiri hluta nefndarinnar, þ.e. hv. þm. Róberts Marshalls, sem er formaður hennar, Árna Þórs Sigurðssonar, Marðar Árnasonar, Álfheiðar Ingadóttur, Valgerðar Bjarnadóttur, Vigdísar Hauksdóttur og Þráins Bertelssonar, auk umsagnar minni hlutans sem skipuðu hv. þm. Birgir Ármannsson og Ólöf Nordal. Í áliti meiri hluta allsherjarnefndar kemur m.a. fram að sú tilhögun að fjallað sé um mál vegna ráðherraábyrgðar á einu dómstigi standist ákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu. Þá tekur meiri hlutinn fram að endanlegt mat á því hvort málsmeðferð standist ákvæði stjórnarskrárinnar sé hjá dómstólum. Loks telur meiri hlutinn að c-liður 8. gr. og b-liður 10. gr. laga um ráðherraábyrgð standist gagnvart 70. gr. stjórnarskrárinnar. Gerir meiri hlutinn niðurstöður meiri hluta allsherjarnefndar að sínum. Álit meiri hluta allsherjarnefndar og minni hluta fylgja nefndaráliti þessu sem fylgiskjöl þannig að allir geta kynnt sér efni þeirra.

Sem fyrr segir fylgir þingsályktunartillögunum afar ítarleg greinargerð flutningsmanna og vill meiri hlutinn að lokum vísa til þessarar greinargerðar í heild sinni. Ég vil geta þess að fyrir mistök er í tillögunum til þingsályktunar um málshöfðun gegn ráðherrum vísað til 20. gr. almennra hegningarlaga um hlutdeildina en þar átti að standa 22. gr. en þessi varakrafa um hlutdeildina nær til tveggja af fjórum ráðherrum, eins og ég hef getið um áður.

Nefndarmennirnir hv. þm. Atli Gíslason, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Eygló Harðardóttir og Birgitta Jónsdóttir leggja til að tillaga til þingsályktunar á þskj. 1502, 706. mál, verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Það eru tvær breytingartillögur, annars vegar frá þessum fimm hv. þingmönnum sem ég nefndi og hins vegar frá hv. þm. Magnúsi Orra Schram og Oddnýju G. Harðardóttur. Þær eru samhljóða þannig að ég les bara aðra og hún er orðrétt með þessum hætti, með leyfi frú forseta:

„Í stað tilvísunarinnar „20. gr.“ hvarvetna í B- og C-lið kæruatriða komi: 22. gr.“

Nefndarmennirnir hv. þm. Magnús Orri Schram og Oddný G. Harðardóttir leggja til að tillaga til þingsályktunar á þskj. 1503, 707. mál, verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali og ég hef áður gert að umtalsefni. Undir þetta nefndarálit rita auk mín hv. þm. Magnús Orri Schram, Oddný G. Harðardóttir, Eygló Harðardóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson og Birgitta Jónsdóttir.