138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[14:28]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það má alltaf deila um hvað er faglegt og hvað ekki. En ég mundi telja að það væri býsna faglegt að menn skoðuðu hug sinn vandlega, a.m.k. hvað varðar málsmeðferðarreglurnar, þegar formaður Lögmannafélags Íslands, formaður Lögfræðingafélagsins, sérfræðingar í refsirétti við Háskólann í Reykjavík og sérfræðingar sem nefndin sjálf leitaði til en bannað er að upplýsa um hér í þingsalnum hverjir eru — svo ég svari frammíkalli hv. þm. Marðar Árnasonar — sem sögðu beinlínis að réttarfar landsdómslaganna uppfyllti ekki lágmarkskröfur laga og mannréttindareglna um réttarstöðu sakborninga á rannsóknarstigi.

Síðan leggur hæstv. forsætisráðherra til leiðir til þess að reyna að bæta úr þeim annmörkum sem hún telur að séu á málsmeðferð, fjöldann allan af tillögum. Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann: Hvers vegna var þeirri leiðsögn svo illa tekið (Forseti hringir.) og hvers vegna var ekki farið eftir þeim tillögum sem hæstv. forsætisráðherra lagði til, að því er mér virðist (Forseti hringir.) til þess að reyna að lægja öldurnar sem eru á milli stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna í þessu viðkvæma máli?