138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:44]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talaði hér um niðurstöðu sína og ég held að ég sé ekki einn hér í salnum sem er ekki búinn að átta sig á því hver hún er.

Það er hins vegar alveg hárrétt hjá hv. þingmanni varðandi tímann. Þegar við berum þetta saman við það mál sem við getum kannski helst borið þetta saman við, Tamílamálið, þá var danska þingið með sex þúsund síðna vitnaleiðslur og skýrslu um það einstaka mál og tók fimm mánuði í að ræða það. Við klárum þetta á tíu dögum. Og ef einhver vogar sér, virðulegi forseti, rétt svona að ræða það hvort skynsamlegt sé að gera þetta á þessum hraða er stutt í að kallað sé að viðkomandi sé með málþóf og sé að tefja. Það er umhugsunarefni.

Ég held að það sem við höfum lært af hruninu sé að gagnrýnin hugsun sé eitthvað sem við misstum af. Þeir sem höfðu efasemdir á sínum tíma voru iðulega hrópaðir niður. Höfum við lært eitthvað af því? Nei, virðulegi forseti, við höfum ekkert lært af því.

Mér fannst ræða hv. þingmanns vera góður grunnur að umræðu sem væri gott að taka en við munum ekki taka hana. Ég segi ekki að ég sé sammála öllu en ég held að það sé skynsamlegt að ræða þetta. Sérstaklega finnst mér það vera umhugsunarefni ef við komumst að þeirri niðurstöðu að ef ráðherra ber ábyrgð á einhverjum ákveðnum málaflokki og hefur tök á að kalla eftir öllum upplýsingum, að hann sé einhverra hluta vegna ekki ábyrgur — ef menn ætla á annað borð að sækja ábyrgð almennt. Það er þá auðvitað stórmerkilegt og hefur lítið verið rætt. Sömuleiðis varðandi ábyrgð þingmanna.

Ég spurði hv. þm. Árna Þór Sigurðsson (Forseti hringir.) út í ábyrgð Vinstri grænna og m.a. afskipti þeirra eða forustumanna þeirra af lífeyrissjóðum, (Forseti hringir.) af hverju þeir komu ekki í veg fyrir tapið þar úr því að þeir vissu þetta. (Forseti hringir.) Svörin voru skrýtin, virðulegi forseti.