138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[12:21]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því miður hefur hv. þm. Árni Þór Sigurðsson einbeitt sér að því að vera í útúrsnúningum eins og við heyrðum í þessu andsvari. Hann talaði um að sá sem hér stendur hafi verið að gagnrýna þingmannanefndina. Ég sagði skýrt að ég set stórt spurningarmerki við vinnubrögð Alþingis í þessu máli og ber það sérstaklega saman við Tamílamálið. Ég hvet hv. þingmann til að skoða það og ef hann kemst að þeirri niðurstöðu að það sé í lagi og að það sé sómi þingsins að ganga frá þessu á tíu dögum þegar aðrir taka mörg ár í þetta, (Gripið fram í.) marga mánuði — ég hvet hv. þm. Álfheiði Ingadóttur til að kynna sér málið áður en hún fer að kalla fram í.

Af því að hér er verið að tala um pólitíska misbeitingu, þá hafa hv. þingmenn Vinstri grænna sagt að ef minnsti grunur er um sekt eigi að sækja. Þeir hafa sagt að þetta sé uppgjör við pólitíska hugmyndafræði, þetta séu pólitísk réttarhöld og forsætisráðherra sagði í upphafi þessa máls að þetta væri til þess gert að friða almenning. Virðulegi forseti. Við erum að taka ákvörðun um það að ef við samþykkjum þessa tillögu þá telur Alþingi (Forseti hringir.) að ráðherrarnir fyrrverandi séu sekir og hv. þingmaður getur ekki snúið sig út úr því.