139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:08]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Það hefur allnokkur umræða átt sér stað um frumvarp til fjárlaga sem hér liggur fyrir til umræðu frá því að það var lagt fram og skyldi engan undra því að í því eru að sjálfsögðu þannig upplýsingar að fólk hefur á því áhuga, sérstaklega þegar það snertir það með beinum hætti eins og lítur út fyrir. Hingað til hefur ekki verið ýkjamikill áhugi á fjárlögum íslenska ríkisins en það er óhjákvæmilegt að svo sé nú. Það er umdeilt, það snertir fjölda fólks og síðustu daga hafa þingmenn, eflaust víðar en í Norðausturkjördæmi, fengið skilaboð, orðsendingar, símtöl og tölvupóst frá fólki sem er mjög uggandi um sinn hag. Af því tilefni vil ég leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa upp bréf frá tveggja barna móður sem búsett er á Húsavík. Þessi orðsending gæti verið skrifuð alls staðar, á Austurlandi, Vesturlandi, Suðurlandi eða Suðurnesjum eða jafnvel á höfuðborgarsvæðinu. Með leyfi forseta hljóðar bréfið svo:

„Á hverjum degi í hátt í níu ár hef ég verið þakklátari en áður fyrir að búa í landi þar sem öryggi og grunnþjónusta við íbúana óháð búsetu er í fyrirrúmi. Ég hef haft sérstaka ástæðu til að vera þakklát. Þegar alvarleg fötlun sonar míns var staðfest af læknum á Landspítalanum þurfti fjölskyldan, búsett norður á Húsavík, að skoða allar forsendur upp á nýtt. Hvar gátum við búið? Hvar var sú þjónusta sem skipti máli varðandi okkar búsetu? Við spurðum ráða þar sem við vissum von á bestu svörum, hjá læknum á Landspítalanum. Þeim bar öllum saman: Ykkur er best borgið heima á Húsavík. Þar er öflug félagsþjónusta og heilbrigðisstofnun, gott lið færra lækna og hjúkrunarfólks.

Við treystum þessum ráðleggingum og snerum heim. Þökk öflugu velferðar- og heilbrigðiskerfi sem tryggði jafnrétti allra landsmanna svo sem unnt er. Þar var röskunin á lífi okkar langt í frá jafnmikil og við óttuðumst í fyrstu. Við höfum ekkert séð eftir þessari ákvörðun. Þjónustan hefur staðist væntingar og við eigum gott líf í samfélagi þar sem öll grunnþjónusta er til staðar.

Með frumvarpi til fjárlaga 2011 hyggist þið, ríkisstjórn Íslands, búa svo um hnútana að jafnvel venjulegar fjölskyldur þar sem ekki er við fötlun eða vanheilsu að glíma þurfa að spyrja sig tvisvar hvort þeim er óhætt að búa í Þingeyjarsýslu. Hver vill setjast að og stofna fjölskyldu þar sem heilbrigðisþjónusta er í þvílíku lágmarki að öryggi íbúanna má jafnvel teljast ógnað?

Þingeyingum sem telja innan við 2% landsmanna er gert að taka á sig 10% af allri skerðingu í heilbrigðiskerfinu. Áætluð skerðing á framlögum til Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga er um 40%. Fyrirsjáanlegt er að stór hluti þjónustu stofnunarinnar mun leggjast af og þar með grundvöllur fyrir þær fétekjur sem stofnuninni er ætlað að afla. Skerðing verður því í raun mun meiri en 40%. Hverju má það sæta? Erum við svo fá að við skiptum ekki máli? Eru lífskjör þessa fámenna hóps afgangsstærð í hinni stóru mynd eða eru e.t.v. sumir jafnari en aðrir og núverandi ríkisstjórn ekki ríkisstjórn Íslands heldur ríkisstjórn borgríkisins Íslands? Þjónustusvæði Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga er stórt og dreifbýlt, um 18.200 ferkílómetrar að stærð eða tæp 18% landsins. Að gera sambærilegar kröfur til fjölda legudaga á sjúkrahúsum sem þjóna dreifðum landbúnaðarsvæðum og þéttbýli sjúkrahúsa er hjákátlegt. Að mæta færri legurýmum eða eflingu heimaþjónustu er ekki raunhæfur kostur í dreifbýli og það vitið þið ágætu ráðamenn ef þið bara einu sinni viljið.

Jafnræði íbúanna felst ekki í því að þjónustan sé alls staðar eins heldur í því að þjónusta sé löguð að aðstæðum svo aðgengi og öryggi íbúanna megi verða sem jafnast. Það er hörmulegt til þess að vita að sú ríkisstjórn sem kennir sig við norrænt velferðarkerfi gerist sek um þá mismunun sem boðuð er í frumvarpi til fjárlaga, ekki aðeins mismunun heldur svo stórfelldan niðurskurð að við íbúar í Þingeyjarsýslum eigum erfitt með að túlka fjárlagafrumvarpið sem annað en atlögu að samfélagi okkar. Verði fyrirhuguð skerðing á fjárframlögum til Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga að veruleika hefur það víðtækar afleiðingar, ekki aðeins á þjónustu Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga heldur aðra þjónustu í samfélaginu.

Samfélag sem hefur í góðri trú lagt ómælt af mörkum til að standa vörð um þjónustu er illa svikið. Eignir okkar verðfalla í einu vetfangi og allt tal um atvinnuuppbyggingu á svæðinu verður falskt og hjáróma þegar forsendum uppbyggingar og búsetu er hnekkt. Það er fáheyrt að ríkisstjórn standi fyrir atgervisbrottrekstri úr heilu byggðarlagi, ekki síst á þeim tímum þegar barátta gegn atgervisflótta frá dreifðari byggðum er eitt helsta viðfangsefni stjórnenda í nágrannalöndum okkar.

Ég skora á ríkisstjórn Íslands að endurskoða tillögur um niðurskurð á Þingeyingum. Það verður enginn minni maður af því að endurskoða afstöðu sína, eða eins og góður granni minn í sveitinni sagði: Hafi ég skipt um skoðun er það vegna þess að mér hefur vaxið vit.“

Þetta eru vissulega hörð viðbrögð. Þetta eru mikil orð og í raun ekkert undarlegt þó að svo fari um Þingeyinga þegar þetta blasir við. Hvernig skyldi standa á því þegar svona er komið? Það gæti vel hugsast að það lægi einfaldlega í þeirri staðreynd að eins og hæstv. fjármálaráðherra hefur kallað er hér um að ræða hin svokölluðu hrunfjárlög. Það orð má í rauninni skilja á marga vegu. Það má tengja beint við það efnahagsáfall sem við höfum orðið fyrir en það má líka tengja við þau orð og þau loforð sem stjórnmálamenn hafa gefið kjósendum sínum fyrir hvað þeir ætla að standa fyrir og hverju þeir ætla að koma til leiðar.

Það er ekki nema rétt rúmt ár síðan við fórum til kosninga, gengum til samtals við kjósendur, ræddum við þá um áherslumál okkar og sýn. Ef við lítum til þess út á hvaða loforð og væntingar kjósendur greiddu Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og Samfylkingunni atkvæði í síðustu kosningum er kannski skiljanlegt að fólki sé brugðið þegar haft er í huga að í kosningabaráttunni fyrir rúmu ári lýsti Vinstri hreyfingin – grænt framboð því yfir að það mætti aldrei gleyma því að eitt stærsta atvinnumálið fælist í því að varðveita störf sem þegar eru til í velferðar- og menntakerfinu. Ætlunin var að skapa 4.000 störf, m.a. með endurskipulagningu í heilbrigðiskerfinu 2.000 ný heilsársstörf hjá hinu opinbera. Jafnvel var gengið svo langt að setja það fram að hlutdeild landsbyggðar í nýjum störfum í þjónustu á vegum hins opinbera yrði tryggð með lögum, en grundvallaratriðið er að allir áttu að eiga jöfn tækifæri á að njóta heilbrigðisþjónustu, sækja skóla og hvers kyns almannaþjónustu óháð búsetu. Með þetta gengu menn fram. Með svipuðum hætti voru kosningaloforð Samfylkingarinnar. Út á stefnuskrár sínar voru þessi stjórnmálaöfl kosin. Það er ekkert óeðlilegt við að kjósendur geri kröfu um að við þetta verði staðið.

Ég vil taka fram að í ljósi skýrslu um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009–2013 er ekkert í spilunum sem bendir til þess að hægt verði að standa við þessi orð — nema breyta áherslum, nema skera einhvers staðar annars staðar niður en þar sem borið er niður í því frumvarpi sem við ræðum nú. Áætlunin um ríkisfjármálin til 2013 gerir ráð fyrir áframhaldandi niðurskurði. Svo undrast menn það oft og tíðum að hér sé fólk svekkt og telji sig svikið en ég segi að það er ekki nema von að reiðin sé mikil í samfélaginu.

Ég tek undir með hæstv. fjármálaráðherra varðandi það að við eigum í rauninni ekki val um annað en að stöðva skuldasöfnun, við eigum ekki val um annað en að ná hallanum niður. Það er spurning um forgangsröðun. Þegar fjárlaganefnd var kynnt frumvarpið að morgni 1. október birtust þessar staðreyndir fjárlaganefndarmönnum, stjórnarandstöðunni þá fyrst, en allt frá því í sumar hefur stjórnarmeirihlutinn unnið að þeim tillögum sem hér liggja fyrir.

Maður spyr sig, og það er eðlileg spurning til mín: Hvernig viltu standa öðruvísi að málum? Ertu bara að gera kröfu um að þetta verði allt saman dregið til baka? Nei, ég er ekki endilega að gera kröfu um það. Ég vil bara nefna hér að í fjárlagafrumvarpinu eins og það er úr garði gert eru ný útgjöld á ferðinni. Og það eru ekkert litlar tölur, það er verið að stofna til nýrra útgjalda upp á tæpa 6 milljarða kr., 5.787 millj. kr. samkvæmt lauslegri yfirferð minni. Þar af eru ný fjárlagaviðfangsefni sennilega á bilinu 1,4–1,6 milljarðar kr.

Ég spyr: Eru menn ekki tilbúnir til að ræða hvort þeir ætla að gera það allt að veruleika í stað þess að ganga þannig að — eins og hér er lagt til — ýmsum grunnstofnunum vítt um land og með þeim hætti sem fyrir liggur? Mér er sagt svo frá að lítið sem ekkert samráð hafi verið haft við forsvarsmenn heilbrigðisstofnana um þær niðurskurðartillögur sem hér liggja fyrir. Sumir fullyrða í mín eyru að það sé ekki framkvæmanlegt sem hér er lagt til. Það kann vel að vera að svo sé, í það minnsta bera orð núverandi hæstv. ráðherra heilbrigðismála þess vitni að það eigi að vinna betur í þessum þáttum en gert hefur verið. Undir þetta hefur hæstv. fjármálaráðherra tekið og hann fullyrðir að það sé verið að skoða hvort hægt sé að fara svona bratt í þetta.

Það skyldi engan undra þó að mönnum vítt um land þyki að sér vegið í þessu fjárlagafrumvarpi. Ef við skoðum það þokkalega rólega, horfum til þess sem verið er að gera hér og stoppum bara við heilbrigðisþjónustuna, sem ég ætla þó ekki að fara að gera að aðalatriði en er gríðarlega þungt, einfaldlega vegna þess að þetta eru mannaflsfrekar þjónustustofnanir hver í sínu héraði, eru þetta burðarásar í atvinnulífi hvort sem okkur líkar betur eða verr að heyra það, fyrir utan þá góðu þjónustu sem þær veita.

Fleiri þættir vega að landsbyggðinni, veikustu svæðum landsins. Ég ætla að nefna eitt lítið dæmi, það er skorið niður í niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar. Við erum að tala um 30.000–32.000 manns sem þurfa á því að halda að kynda húsnæði sitt með rafmagni fyrir tugi þúsunda á mánuði. Ætlunin er að höggva enn meira í þennan hóp, fjölda upp á 30.000–32.000 manns. Þar mun þessi gríðarlegi niðurskurður á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga koma harðast niður, í dreifbýlustu sveitarfélögunum, fámennustu svæðunum.

Hvar mun atvinnuráðgjöfin, sem gerð er tillaga um að skera niður, koma harðast niður? Úti á landi. Á sama tíma og við erum að gera þetta er hér lagt til að verja 40 millj. kr. í eina stofnun, 100 millj. kr. í aðra o.s.frv. Eigum við ekki að ræða það hvort við eigum að fara þennan veg? Ég kýs að líta svo á að til þess sé ákveðinn vilji, ég bara treysti því að svo sé.

Ég gæti leyft mér að nefna enn og aftur ýmis atriði sem horfa til þess að við erum ekki með réttar áherslur, ekki í sjálfu sér stóra útgjaldaliði í stóra samhenginu en í smáu myndinni telur þetta strax. Ég spyr t.d. um öll þau tilraunaverkefni í kynjaðri hagstjórn og fjárlagagerð sem hér eru talin upp undir hverju ráðuneyti á bilinu 1–3 millj. kr.: Er þetta endilega bráðnauðsynlegt? Þó að hvert verkefni kosti ekki nema 2,5 millj. kr. safnast þetta saman þegar allt er talið. Auðvitað hafa menn áherslur um að vilja fara í þetta en ég spyr: Verða þingmenn tilbúnir til að stilla upp þeim valkostum sem í boði eru? Það munar kannski til muna meira á einhverju harðbýlu svæði um 2,5 millj. kr. til atvinnuráðgjafar en um tilraunaverkefni undir samgönguráðuneytinu, samanber þetta, með leyfi forseta:

„Í þessu verkefni samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis í kynjaðri hagstjórn og fjárlagagerð verða áhrif Héðinsfjarðarganga á efnahagslega, félagslega, menningarlega og pólitíska stöðu mismunandi hópa metin með fjölbreyttum aðferðum.“

Besta mál, en ef ég gæti valið mundi ég frekar verja þeim fjármunum sem færu í þetta til annarra hluta á þessum tíma þar sem horft er í hverja einustu krónu.

Hver er svo stóra myndin? Miðað við þau viðbrögð sem ég hef fengið við þessu fjárlagafrumvarpi er ég fullviss um það og vonast til þess að menn beri gæfu til að gera á því allmiklar breytingar. Við horfum til þess, eins og kom fram í andsvörum, að forsendur hagspárinnar eru veikar, hvert prósentustig í minni hagvexti en spáð er varðar gífurlegar fjárhæðir. Ég held því líka fram að það sé ákveðinn veikleiki í útgjaldahliðinni ef við horfum til þess hvernig umræðan um þessi erfiðu mál er. Við vitum að andstaðan við þetta herðist ekki heldur kemur eftirgjöf og þá skulum við sameinast um að leita leiða til að mæta þessu. Ég fullyrði að það eitt að lækka barnabætur og vaxtabætur í aðdraganda kjarasamninga mun reynast ríkisvaldinu gríðarlega erfitt og ég fullyrði líka að það sé galli við núverandi aðstæður í atvinnumálum og atvinnuleysi að dregið sé úr framkvæmdum. Það mun koma í bakið á okkur aftur.

Ég minni á það nýjasta nýja í þessu, skerðingu á uppsjávarheimildum sem við fengum í loftið fyrir 1–2 dögum. Hvernig svo sem maður lítur á þetta eru veikleikar í þessu frumvarpi og við getum ekki á þessari stundu notað okkur það eins og það liggur hér fyrir til þess að berja okkur á brjóst og segja að þetta sé til þess að berja í brestina í ríkisstjórnarsamstarfinu. Það gengur ekki og við getum ekki leyft okkur það.

Ég vil, forseti, undir lok máls míns nefna eitt atriði sérstaklega. Það er mikið rætt um virðingu Alþingis, traust þess og getu til að vinna. Mesta skerðingin í æðstu stjórninni í þessu fjárlagafrumvarpi er til Alþingis á sama tíma og þingheimur samþykkti þó með öllum greiddum atkvæðum, 63, að efla eftirlitshlutverk þingsins og styrkja það. Og ekki veitir af. Í ljósi viðbragðanna sem komið hafa við fjárlagafrumvarpinu frá hæstv. ríkisstjórn mætti ætla að hún teldi sig enn vera að vinna með frumvarpið. Svo er ekki, ríkisstjórn Íslands mun að lokinni þessari umræðu hér leggja frumvarpið inn til vinnu hjá Alþingi sjálfu. Staða mála er hins vegar einfaldlega þannig, því miður, að Alþingi er mjög vanbúið til að takast á við það verkefni að endurgera þetta frumvarp. Það hefur ekki burðina til þess, einfaldlega vegna þess að það er búið að þjarma svo að því í fjárveitingum að það hefur ekki tækifæri til að vinna þá vinnu sem nauðsynleg er til að búa þetta frumvarp í þann búning að viðunandi sé.