139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:42]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi þessa óvissuþætti alla er hægt að reyna að sjá fyrir suma þeirra eða reyna að mæta þeim að einhverju leyti í frumvarpinu, en að lokum verður það veruleikinn sjálfur og reyndin eða reynslan sem ein getur svarað því nákvæmlega hvernig þetta tekst til. Ég held að það sé sammerkt öllum þeim sem glíma núna við áætlanagerð og spágerð að það er óvenjuerfitt, og það gildir ekki bara um Ísland, að meta ýmsa þætti af þessu tagi.

Þegar maður sér líka hvernig mat jafnvel ár aftur í tímann og mörg ár aftur í tímann er að breytast á því hver nákvæmlega á endanum útkoman varð hvað varðar t.d. þróun landsframleiðslu. Það er enn verið að breyta tvö, þrjú og fjögur ár aftur í tímann hvort hún var svona eða hinsegin á þessum eða hinum ársfjórðungnum eða árunum í heild. Og það er bara baksýnisspegillinn sem að endingu með sæmilegri vissu getur sýnt nákvæmlega hvernig þetta varð.

Marga þessara þátta ráðum við alls ekki við sem hafa hins vegar vissulega áhrif eins og t.d. efnahagsframvinduna á okkar mikilvægustu markaðssvæðum og þróun okkar viðskiptakjara. Þar verða menn bara að spá og þær spár eru hvorki betri né verri en þeir sem þær gera.

Ég vil aðeins nefna einn þátt sem hv. þingmaður nefndi og vissulega er rétt að fjárlagafrumvarpið byggir á þeirri skipan Stjórnarráðsins sem var við lýði þegar verið var að semja það og er enn. Lög um sameiningu ráðuneyta voru samþykkt í september og við vildum ekki leggja upp með vinnuna með einhvers konar fyrirframsamþykki á því að þetta yrði, en hins vegar er búið að undirbúa það að vera fjárlaganefnd til aðstoðar við að færa þetta á ný saman og á ný fjárlaganúmer í tilvikum þeirra ráðuneyta sem sameinast. Væntanlega verður það gert með algerlega sjálfstæðum pakka, sjálfstæðu skjali sem eingöngu færir niðurstöðurnar yfir á ný númer og vonandi tekst vel að leiða það til lykta með breytingartillögum annaðhvort við 2. eða 3. umr. fjárlaga.