139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:59]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég deili áhyggjum hv. þingmanns varðandi efnahagsforsendurnar en ég tel þær vera trúverðugar. Þær eru byggðar á spá Hagstofunnar frá því í júní í sumar. Á fundi með Hagstofunni í fjárlaganefnd seinni partinn í sumar var farið yfir þær forsendur sem Hagstofan hafði gefið sér varðandi þjóðhagsspána. Þar kom m.a. fram í máli Hagstofunnar að nú þegar þyrfti að taka tillit til nokkurra óvissuþátta í spánni sem birt var í júní. Flestir óvissuþættirnir sem þau töldu upp fyrir okkur voru þó með jákvæðum formerkjum: meiri umsvif, minna atvinnuleysi, sterkara gengi, lægri vextir o.s.frv.

Á sama fundi voru fulltrúar Hagstofunnar sem komu á fund fjárlaganefndar spurðir út í Helguvíkurframkvæmdir og hvort til greina kæmi að taka fyrsta áfanga Helguvíkur, sem er gert ráð fyrir í þjóðhagsspánni að verði á næsta ári, hreinlega út úr spánni. Þeir jánkuðu því og sögðu að það kæmi vel til greina vegna óvissunnar um framkvæmdina. Og í hverju felst sú óvissa að mati Hagstofunnar? Tveimur meginþáttum. Annars vegar að vafi leikur á því að nægjanleg orka sé á svæðinu til að knýja verksmiðjuna áfram. Það er stór þáttur og skiptir talsvert miklu. Í öðru lagi er mikill vafi á því að það takist að fjármagna framkvæmdina. Ég vek athygli hv. þingmanns og þingmanna allra á því hversu mörg lán hafa fengist til Íslands frá hruni til framkvæmda af þessu tagi. Hafa menn velt því (Forseti hringir.) fyrir sér og hvers vegna ekki hefur tekist að fjármagna fleiri verkefni?