139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[20:04]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka undir það sem hæstv. ráðherra sagði áðan í fyrra andsvari sínu. Ég deili líka áhyggjum hans varðandi auknar gjaldskrárhækkanir sem tengjast verkefnum sveitarfélaganna eins og hjá Orkuveitunni o.fl. Það hefur bein áhrif inn í verðlagið.

Varðandi raungengið, að það sé stöðugt, þá er að mínu mati um gervigengi að ræða. Við erum með gjaldeyrishöft og hæstv. ráðherra segir réttilega að verðbólguþrýstingurinn sé í rauninni enginn. Það sé enginn undirliggjandi verðbólguþrýstingur. Það er út af því að það er engin eftirspurn í samfélaginu. Ríkisstjórnin hefur ekki gert mikið, í rauninni frekar lítið að efla atvinnustigið, til að fara af stað í framkvæmdir sem stuðla að því að hlutirnir fara á hreyfingu. Það hefur ríkisstjórnin ekki gert. Vissulega erum við að ná ákveðnum árangri varðandi verðbólguna og það er fínt. En það er ekkert að gerast. Fólkið verður að fá atvinnu. Fólkið verður að fá tekjur til að eftirspurnin í samfélaginu aukist.

Gjaldeyrishöftin eru náttúrlega efni í aðra umræðu. Ég velti því fyrir mér hvenær rétti tíminn er til að afnema gjaldeyrishöftin. Hæstv. fjármálaráðherra sagði réttilega fyrr í dag að það væri oft og tíðum erfitt að fá sömu skoðanir frá lögfræðingum hvað þá hagfræðingum til að segja hvenær sé rétti tíminn til að afnema gjaldeyrishöftin eða eitthvað annað.

Ég held hins vegar að það sé spurning sem ríkisstjórnin geti ekki komið sér hjá að svara: Hvenær verða gjaldeyrishöftin í samvinnu auðvitað, því það er Seðlabankinn sem ræður, afnumin? Það mun skipta miklu máli að fá erlendar fjárfestingar inn í landið til að koma hlutum af stað, að fá fjárfestingar inn í atvinnusköpunina sem verður að fara að byrja hér á landi. Við verðum að fara að halda af stað (Forseti hringir.) til þess m.a. að koma til móts við trumbusláttinn sem er hérna úti.