139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

skattstefna ríkisstjórnarinnar.

[16:20]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Málflutningur ríkisstjórnarflokkanna er slíkur að það mætti halda að þeir telji sér trú um að svo lengi sé hægt að segja ósatt að allir fari að trúa þeim. Það liggur við að þeir telji okkur trú um að hér sé ekki einu sinni kreppa. Það á ekki að hækka skatta í kreppu, það vita allir. En hér er þessi ríkisstjórn eins og oft hefur verið talað um í helför sinni, með leyfi forseta, að ég noti þetta orð, að hækka skatta og keyra efnahagslífið niður.

Það er búið að hækka skatta og stendur til að hækka skatta. Fjármagnstekjuskattur hækkar úr 18 í 20%, skattur á hagnað lögaðila hækkar í 18–20%, það eru þeir sem við ætlumst til að haldi uppi hagkerfi okkar. Það á að hækka erfðafjárskatt úr 5 í 10%. Ég vona að látið fólk fái að hvíla í friði eftir aðgerðir núverandi ríkisstjórnar. Kolefnisgjald verður hækkað. Við búum á eyju og þurfum að notast við samgöngur á landi, lofti og sjó. Til skoðunar hefur verið að taka upp bankaskatt en það er ekki búið að taka ákvörðun um það. Hver er nýjungin í þessu frumvarpi? Hvers vegna er ekki verið að tala um að taka upp ríkisábyrgðargjald? Af hverju er ríkið endalaust að gangast í ábyrgðir fyrir einhverja aðila úti í bæ ókeypis? Það vantar nýja hugsun í þessari ríkisstjórn nú sem oft áður og ég er orðin hálfvonlaus um að það verði nokkurn tímann hægt að koma hér inn nýjum hugmyndum.

Óstöðugleiki skattkerfa eins og við upplifum í þessu fjárlagafrumvarpi og fjárlagafrumvarpinu frá í fyrra virka fráhrindandi fyrir erlenda fjárfesta eins og fram hefur komið auk óstöðugleika stjórnvalda sem hér ríkir fyrir sig.

Virðulegi forseti. Ég tel að þessi ríkisstjórn taki sjálfa sig niður um leið og efnahagslífið verður tekið niður af skattpíningu.