139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

rannsókn á ákvörðunum stjórnvalda vegna innstæðna Landsbanka Íslands á Evrópska efnahagssvæðinu.

5. mál
[16:38]
Horfa

Flm. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um rannsókn á embættisfærslum og ákvörðunum íslenskra stjórnvalda og samskiptum þeirra við bresk og hollensk stjórnvöld vegna innstæðna í útibúum Landsbanka Íslands hf. á Evrópska efnahagssvæðinu. Ásamt mér eru flutningsmenn þessarar tillögu allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins.

Þingsályktunartillagan var lögð fram á 138. löggjafarþingi en fékkst ekki afgreidd og er því endurflutt. Með henni er lagt til að Alþingi skipi sérstaka rannsóknarnefnd þriggja sérfræðinga sem falið verður það hlutverk að rannsaka embættisfærslur og ákvarðanir íslenskra stjórnvalda og samskipti þeirra við bresk og hollensk stjórnvöld vegna innstæðna í útibúum Landsbanka Íslands hf. á Evrópska efnahagssvæðinu. Er þar átt við samskipti íslenskra stjórnvalda við bresk og hollensk stjórnvöld vegna innlánsreikninga Landsbanka Íslands í löndunum tveimur, svokallaða Icesave-reikninga.

Er nefndinni ætlað það hlutverk að leggja mat á hvort einstakir ráðherrar eða embættismenn á þeirra vegum hafi fylgt þeim lagareglum sem um störf þeirra gilda, brotið starfsskyldur sínar eða gerst sekir um mistök eða vanrækslu í hagsmunagæslu fyrir íslenska ríkið og íslensku þjóðina og eftir atvikum leggja mat á hverjir beri á þeim ábyrgð.

Í tillögunni er gert ráð fyrir að rannsóknarnefndin fái í hendur allar þær rannsóknarheimildir sem henni eru nauðsynlegar til þess að geta varpað skýru ljósi á rannsóknarefnið. Er lagt til að þær rannsóknarheimildir skuli verða hinar sömu og rannsóknarnefnd Alþingis, sem skipuð var á grundvelli laga nr. 142/2008, um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, voru tryggðar í lögum.

Tillagan mælir fyrir um að nefndin skili Alþingi sambærilegri skýrslu og rannsóknarnefnd Alþingis, undir formennsku Páls Hreinssonar, skilaði þinginu hinn 12. apríl 2010 og að Alþingi taki efni hennar og niðurstöður til sambærilegrar meðferðar á sínum vettvangi. Jafnframt að Alþingi kjósi níu manna þingnefnd sem fjalla skuli um hana og móta tillögur að viðbrögðum Alþingis við niðurstöðum hennar.

Óumdeilt er að Icesave-málið varðar einhverja mestu þjóðarhagsmuni sem stjórnvöld hér á landi hafa þurft að takast á við og telja flutningsmenn tillögunnar fullt tilefni til að framganga íslenskra stjórnvalda og ákvarðanir þeirra sem lúta að Icesave-málinu verði rannsökuð af hálfu þeirrar nefndar sem lagt er til að skipuð verði.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis gefur að líta vandaða og ítarlega umfjöllun um það rannsóknarefni sem þeirri nefnd sem tillaga þessi mælir fyrir um að verði komið á fót er ætlað að fjalla um. Er þar meðal annars að finna umfjöllun um löggjöf um fjármálamarkaðinn og áhrif aðildar Íslands að EES, Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta og ábyrgð á innlánum almennt og innlán fjármálastofnana í útibúum erlendis. Þótt sú umfjöllun muni án efa nýtast hinni nýju rannsóknarnefnd vel í störfum sínum þá snýr hún ekki nema að hluta að þeim atriðum sem sú rannsókn sem þessari tillögu er ætlað að hrinda í framkvæmd lýtur að, þ.e. embættisfærslum, ákvörðunum og samskiptum íslenskra stjórnvalda við bresk og hollensk stjórnvöld eftir hrun bankakerfisins.

Helstu ástæður þess að þessi tillaga er nú lögð fram eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi telja flutningsmenn tillögunnar ljóst að lánasamningar þeir sem íslensk stjórnvöld undirrituðu hinn 5. júní 2009 og viðaukasamningarnir frá 19. október 2009 hafi strítt svo freklega gegn hagsmunum íslenska ríkisins að með undirritun sinni á þá hafi stjórnvöld gerst sek um mistök eða vanrækslu í hagsmunagæslu sinni fyrir íslenska ríkið og íslenska skattgreiðendur.

Í öðru lagi telja flutningsmenn að með undirritun sinni á áðurnefnda samninga hafi ríkisstjórn Íslands farið út fyrir það samningsumboð sem Alþingi veitti henni með samþykkt þingsályktunar hinn 5. desember 2008 þar sem ríkisstjórnin hafi með því ekki gætt hagsmuna íslenska ríkisins með þeim hætti sem henni bar, né hafi hún í þeim samningum virt hin sameiginlegu viðmið sem ályktunin mælti fyrir um að skyldu vera forsenda og grundvöllur samningsniðurstöðu.

Í þriðja lagi telja flutningsmenn mikilvægt að rannsakað verði hvort íslensk stjórnvöld hafi í samningaviðræðum við Breta og Hollendinga fallið frá lagalegum rétti íslenska ríkisins gagnvart viðsemjendum sínum og þeim kröfum sem fram komnar eru á hendur því og þar með skaðað hagsmuni íslenska ríkisins.

Í fjórða lagi vísa flutningsmenn tillögu sinni til stuðnings til 17. kafla skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þar fjallar nefndin um Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta og ábyrgð á innlánum almennt. Nefndin fjallar um efnislegt inntak og þýðingu tilskipunar Evrópusambandsins nr. 94/14/EB, um innstæðutryggingarkerfi, og túlkun fræðimanna á lagalegri þýðingu hennar. Sú umfjöllun sem þar birtist er að mati flutningsmanna samfelldur og kerfisbundinn lögfræðilegur rökstuðningur rannsóknarnefndarinnar fyrir því að samkvæmt tilskipuninni beri íslenska ríkinu engin lagaleg skylda til þess að ábyrgjast skuldir einkarekinna banka eða kröfur breskra og hollenskra stjórnvalda á hendur Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta í Icesave-málinu.

Í fimmta lagi telja flutningsmenn tillögunnar umfjöllun rannsóknarnefndar Alþingis sérstaklega athyglisverða í ljósi þess að þrátt fyrir þau skýru sjónarmið sem nefndin teflir fram hafi íslensk stjórnvöld, ekki síst núverandi ríkisstjórn, engu að síður fallist á kröfur breskra og hollenskra stjórnvalda í Icesave-málinu. Það hafi núverandi ríkisstjórn gert í tvígang með undirritun sinni á lánasamninga og viðbótarsamninga. Það hafi hún jafnframt gert með því að leggja fram tvö frumvörp til laga á Alþingi sem mæltu fyrir um að ríkisábyrgð vegna lánasamninganna yrði veitt, án þess að hún hvíldi á lagalegri skuldbindingu íslenska ríkisins. Að mati flutningsmanna leiða ákvarðanir stjórnvalda, um að undirrita lána- og viðbótarsamninga við Breta og Hollendinga, og tilraunir þeirra til að fá ríkisábyrgð vegna þeirra lögfesta á Alþingi til þess að rannsókn á þeim sé óumflýjanleg.

Í sjötta lagi benda flutningsmenn tillögunnar á að fram hafa komið opinberar yfirlýsingar sem benda til þess að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands eða embættismenn á þeirra vegum hafi tekið ákvörðun um að undirrita Icesave-samningana við bresk og hollensk stjórnvöld, um skuldbindingar sem allt bendir til að hafi verið íslenska ríkinu fjárhagslega ofviða, þrátt fyrir að hafa haft vitneskju um það á þeim tíma að slíkar ákvarðanir hafi ekki notið stuðnings meiri hluta alþingismanna. Þær yfirlýsingar veiti sterkar vísbendingar um að ríkisstjórnina hafi skort umboð til að undirrita samningana, en gert það engu að síður. Slíkt brjóti gegn þeim grundvallarreglum sem gilda um stjórnskipan landsins og ákvæðum íslenskra laga um fjárskuldbindingar á hendur ríkinu.

Í sjöunda lagi má nefna það að gefnar hafa verið sérstakar yfirlýsingar hér á Alþingi sem krefjast rannsóknar. Þar vil ég nefna að hinn 3. júní 2009 spurði hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hæstv. fjármálaráðherra að því hvort til stæði að undirrita samninga um Icesave-málið við Breta og Hollendinga. Hæstv. fjármálaráðherra svaraði þeirri spurningu neitandi og sagði að ekkert slíkt stæði til. Tveimur dögum síðar höfðu þessir samningar verið undirritaðir.

Í áttunda lagi bendi ég á að nú hefur landsdómur verið kvaddur saman. Meiri hluti Alþingis hefur ákveðið að ákæra Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, vegna aðkomu sinnar að Icesave-málinu. Sú ákæra byggir á sjónarmiðum, aðgerðum og embættisfærslum sem áttu sér stað fyrir bankahrun. Ég tel, og flutningsmenn tillögunnar telja, að fyrst ákveðið var að ganga þann veg verði að ganga hann til enda og rannsaka allt það sem gerst hefur eftir bankahrun, allar þær ákvarðanir og embættisfærslur sem fyrir liggja eftir hrun bankanna og eftir ríkisstjórnarskipti. Eitt skuli yfir alla ganga, og því skuli þessi rannsókn fara fram.

Sú afstaða flutningsmanna að sýnt hafi verið fram á með lögfræðilegum rökum að samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins um innstæðutryggingar beri íslenska ríkinu engin lagaleg skylda til að ábyrgjast kröfur breskra og hollenskra stjórnvalda á hendur Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta í Icesave-málinu felur ekki í sér að stjórnvöldum sé óheimilt að semja um lyktir Icesave-málsins. Hins vegar telja flutningsmenn, eins og áður segir, að með þeim samningum sem gerðir voru hafi íslensk stjórnvöld hvorki gætt hagsmuna íslenska ríkisins með þeim hætti sem þeim bar né hafi þau virt hin sameiginlegu viðmið sem þingsályktunin sem samþykkt var á Alþingi hinn 5. desember 2008 mælti fyrir um að skyldu vera forsenda og grundvöllur samningsniðurstöðu og þar með farið út fyrir það samningsumboð sem Alþingi veitti þeim með samþykkt þingsályktunartillögunnar.

Þegar af þessum ástæðum sem ég hef nú gert grein fyrir telja flutningsmenn mikilvægt að fram fari rannsókn á því hvort einstakir ráðherrar eða embættismenn á þeirra vegum hafi fylgt þeim lagareglum sem um störf þeirra gilda, brotið starfsskyldur sínar en ekki síst hvort þeir hafi gerst sekir um mistök eða vanrækslu í hagsmunagæslu sinni fyrir íslenska ríkið.

Þingsályktunartillögunni fylgir gríðarlega ítarleg greinargerð þar sem flestir þættir Icesave-málsins eru raktir. Þar er vikið að ályktun Alþingis hinn 5. desember 2008, farið yfir hin sameiginlegu viðmið sem samið var um. Gerð er grein fyrir áliti meiri hluta utanríkismálanefndar Alþingis þann 5. desember 2008. Farið er yfir samningana við bresk og hollensk stjórnvöld og komist að þeirri niðurstöðu að niðurstaða þeirra samninga hafi verið í andstöðu við hagsmuni íslensku þjóðarinnar.

Fram kemur það álit flutningsmanna tillögunnar að Íslendingar eigi ekki að bera hallann af löggjöf Evrópusambandsins. Þó að íslenska ríkið vilji ávallt standa við sínar skuldbindingar felst kjarni Icesave-málsins í því að uppi er ágreiningur um það í hverju þær skuldbindingar felast. Það er rakið í greinargerðinni hvaða sjónarmið fræðimenn hafa sett fram í því sambandi. Þar er meðal annars vísað til skrifa Lárusar Blöndals hæstaréttarlögmanns og Stefáns Más Stefánssonar, prófessors við lagadeild Háskóla Íslands, álits breskra lögfræðinga, skýrslu seðlabanka Frakklands sem unnin var af hálfu Jean Claude Trichet. Þar er vísað til álits framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá 2008, afstöðu fjármálaráðherra Hollands og vikið að ýmsum öðrum álitamálum eins og t.d. því hvort það samræmist 40. gr. stjórnarskrárinnar og sé yfirleitt heimilt að samþykkja að óbreyttu lög um ríkisábyrgð á skuldum einkafyrirtækis, í þessu tilviki Landsbanka Íslands hf.

Í tillögunni er það rakið hvernig Icesave-lögin voru samþykkt hér á Alþingi hinn 2. september 2009 ásamt viðaukasamningunum og farið yfir synjun forseta Íslands og örlög þessara laga í þjóðaratkvæðagreiðslu sem boðað var til í framhaldinu.

Ég vil líka nefna það að í greinargerð með frumvarpinu er ítarlega farið yfir það hvernig rannsóknarnefnd Páls Hreinssonar fjallar um Icesave-málið. Sú umfjöllun er eins og áður segir meginástæða þess að þessi tillaga er lögð fram. Hún kallar á það að fram fari sérstök rannsókn á málinu.

Ég vek líka athygli á 17. kafla greinargerðarinnar þar sem fram kemur, og er leitt fram, að ríkisstjórnina skorti umboð á sínum tíma til þess að undirrita Icesave-samningana og þess bera meðal annars merki ummæli sem hv. þingmaður Lilja Mósesdóttir lét falla í ræðu hér á Alþingi og sömuleiðis í fjölmiðlum.

Að lokum vil ég segja það, frú forseti, að hinn 28. september sl. samþykkti meiri hluti alþingismanna þingsályktun með 33 atkvæðum gegn 30 að höfða skyldi sakamál á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir landsdómi. Landsdómur verður kallaður saman núna í fyrsta skipti í sögunni. Þar verður réttað yfir fyrrverandi forsætisráðherra lýðveldisins. Sú ákvörðun meiri hluta alþingismanna að draga fyrrverandi forsætisráðherra fyrir landsdóm og krefjast refsingar yfir honum þar vegna embættisfærslna hans í tengslum við Icesave-málið fyrir hrun bankakerfisins leiðir til þess, að mati flutningsmanna, að nauðsynlegt sé að ganga þá leið sem nú hefur verið mörkuð á enda þannig að tryggt verði að eitt verði látið yfir alla ganga. Það verður að okkar mati einungis gert með því að efnt verði til rannsóknar á embættisfærslum og ákvörðunum og samskiptum íslenskra stjórnvalda við bresk og hollensk stjórnvöld eftir hrun bankakerfisins þannig að hægt verði að leggja mat á það hvort einstakir ráðherrar eða embættismenn á þeirra vegum hafi fylgt þeim lagareglum sem um störf þeirra gilda, brotið starfsskyldur sínar eða gerst sekir um mistök eða vanrækslu í hagsmunagæslu sinni fyrir íslenska ríkið og íslensku þjóðina. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég legg til að að umræðu þessari lokinni gangi málið eða tillagan til síðari umr. og allsherjarnefndar.