139. löggjafarþing — 6. fundur,  7. okt. 2010.

svör við fyrirspurnum -- vinnulag á þingi -- lög um greiðsluaðlögun o.fl.

[11:00]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram um skuldamál heimilanna. Ég nefndi það áðan að allir verða að brjóta odd af oflæti sínu. Ég tel t.d. að við í stjórnarflokkunum þurfum að taka til skoðunar með mun markvissari hætti hugmyndir um almennar leiðréttingar. Ég rifja það upp að þær hugmyndir voru hér á borðinu í aðdraganda síðustu kosninga .

Við höfum m.a. dregið athyglina að því að allar aðgerðir sem við förum í fyrir heimilin í landinu þurfa að vera raunverulegar lausnir. Eitt af því sem við höfum horft á varðandi almennar leiðréttingar er að lausnir sem þýða að verðmiðinn er 100–200 milljarðar kr. og hann lendir á ríkissjóði eru ekki raunverulegar lausnir fyrir almenning í landinu því að þær koma til baka, þær koma í bakið á okkur aftur í formi skattahækkana, niðurskurðar og versnandi lífskjara. En ef til eru leiðir að þessu marki sem eru almennar niðurfellingar skulda sem ekki kosta þessar búsifjar fyrir ríkissjóð eigum við að sjálfsögðu að skoða þær og útfæra þær með nákvæmum hætti.

Viðbrögð við ræðu hv. þm. Bjarna Benediktssonar áðan um aðgerðaleysi, ég tel að þetta sé ekki málefnaleg umræða að lýsa aðgerðum ríkisstjórnarinnar á undanförnum missirum með þessum hætti. Ég held að staðan sé sú að það hafi mjög margt verið gert. Við getum farið yfir það í löngu máli, greiðslujöfnun, sértæk skuldaaðlögun, greiðsluaðlögun o.s.frv., en við eigum að sjálfsögðu að viðurkenna að þetta hefur ekki dugað til. Þetta hefur hjálpað tugum þúsunda Íslendinga, 60–80 þúsund Íslendingar hafa nýtt sér þessi úrræði en þetta er flókið samhengi af úrræðum. Ýmsir hafa enn þann dag í dag ekki hafa fengið úrlausn sinna mála og þess vegna dugar þetta ekki til. Þess vegna verðum við að setjast niður og þess vegna eigum við að taka alla með í þennan leiðangur. Það er ekki af því að það séu engar lausnir til, að menn séu úrræðalausir og hafi ekki upp á neitt að bjóða, (Forseti hringir.) en almenningur verður að hafa eignarhald í þeim lausnum sem á endanum verða bornar fram. Þess vegna eigum við að halda fundi úti um allt land, ræða saman við almenning, við í flokkunum, (Forseti hringir.) hagsmunaaðilar o.s.frv.