139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

þingsköp Alþingis.

6. mál
[11:08]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis. Sú er hér stendur er eini flutningsmaðurinn að þessu máli og ég vona að það endurspegli ekki mikla andstöðu við málið af því að ég tel að hér sé um gríðarlega brýnt frumvarp að ræða sem muni hafa miklu jákvæðari afleiðingar en menn gera sér grein fyrir.

Frumvarpið gengur út á það að freista þess að breyta umræðuhefðinni á Alþingi með því að gera umræðuna skilmerkilegri, gera hana markvissari og í mörgum tilvikum styttri en nú er. Þetta frumvarp er ekki mikið að vöxtum en innihaldið er þeim mun merkilegra að mati flutningsmanns. Mun ég nú, virðulegur forseti, lesa 1. gr., en frumvarpið er einungis tvær greinar, 1. gr. er innihaldsgrein og 2. gr. gengur einungis út á að láta lögin öðlast þegar gildi.

1. gr orðast svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Á eftir 4. mgr. 55. gr. kemur ný málsgrein sem orðast svo:

Áður en umræða hefst um lagafrumvörp, þingsályktunartillögur og skýrslur getur forseti gert tillögu um hve lengi umræðan skuli standa. Ræðutími einstakra þingmanna getur þá orðið styttri en greinir í 80. gr. Við upphaf 2. og 3. umræðu um lagafrumvörp og síðari umræðu um þingsályktunartillögur skal tillaga forseta um hve lengi umræðan má standa taka mið af óskum nefnda um heildartíma umræðu. Eigi má takmarka ræðutíma við nokkra umræðu svo að hún standi skemur en þrjár klukkustundir alls. Tillögur forseta skulu umræðulaust bornar undir atkvæði og ræður afl atkvæða úrslitum. Í tillögu forseta um heildartíma umræðu skal skipta umræðutíma því sem næst að hálfu jafnt milli þingflokka og að hálfu skal hafa hliðsjón af því hve margir þingmenn eiga aðild að hverjum þingflokki en forseti ákveður ræðutíma þingmanna utan flokka. Ákvæði þessarar málsgreinar ná einnig til ræðutíma ráðherra. Tillögur forseta samkvæmt þessari málsgrein ná ekki til umræðna um frumvörp til fjárlaga og frumvörp til stjórnarskipunarlaga.“

Virðulegur forseti. Eins og hér heyrist gengur frumvarpið út á það að þingið áætli umræðutíma í hverju máli fyrir fram. Umræðuna megi þó alls ekki takmarka við skemmri tíma en þrjár klukkustundir um hvert mál og það er ekki heimilt að takmarka umræðutíma um fjárlögin, umræðu um fjárlagafrumvarpið eða umræður um breytingar á stjórnarskrá, þá yrði ótakmarkaður ræðutími.

Þetta frumvarp dettur ekki af himnum ofan. Það er fyrirmynd að því og sú fyrirmynd er í norskum lögum. Á Norðurlöndunum gilda almennt reglur um ræðutíma eins og hér en þær reglur eru stífari og menn virða þær frekar. Í Noregi eru reglurnar eins og í frumvarpinu og þess vegna legg ég það til hér líka.

Ég lagði samhljóða frumvarp fram á síðasta þingi en ekki náðist að mæla fyrir því af því að það kom seint fram. Það var mikill hvati fyrir þá er hér stendur til að leggja málið fram að upplifa hvernig umræðuhefðin er í þinginu hér á landi, hefur verið og hefur ekki skánað hin seinni missiri, því miður. Ég vona að okkur takist núna að snúa bökum saman um að samþykkja þetta frumvarp og ég byggi þá von á því að hér er margt nýtt fólk innan dyra, margir nýir hv. þingmenn komnir til starfa og ég vona að þeir séu ekki sligaðir af hefðinni eins og kannski þeir sem eldri eru hér inni og séu tilbúnir til að taka þetta skref.

Starfshættir Alþingis hafa verið til umræðu og skoðunar meðal almennings á síðustu missirum, sérstaklega í kjölfarið á bankahruninu. Hv. alþingismenn hafa látið þá umræðu til sín taka og margir hafa kallað á virkari og nútímalegri vinnubrögð, m.a. í ljósi nýrrar reynslu af því að sitja á hinu hv. Alþingi. Menn hafa einnig verið að líta til þess að rétt væri að skipuleggja vinnu þingsins betur til að freista þess að auka traust almennings á Alþingi og bæta ásýnd þess en nú mælist traustið á þinginu um 10% meðal þjóðarinnar og hefur ekki mælst lægra.

Umræðuhefðin á Alþingi er að mati flutningsmanns fyrir löngu orðin úrelt. Ekki er reynt að áætla hvað hver umræða taki langan tíma hverju sinni miðað við eðli mála. Að mati flutningsmanns geta nefndir þingsins áætlað það, þær hafa getu til að áætla hvað mál þurfi langan tíma í seinni umræðum í þinginu, 2. og 3. umr. ef um lagafrumvörp er að ræða og síðari umr. ef um þingsályktunartillögur að ræða. Þannig væri hægt að áætla hve langan tíma mál þurfi til að fá næga og vandaða umfjöllun. Hér er ekki verið að tala um að takmarka ræðutíma þannig að mál fái ekki vandaða umfjöllun. Það er hins vegar verið að reyna að áætla fyrir fram hve langan tíma þurfi. Yrði þessu fyrirkomulagi komið á væri hægt halda utan um dagskrá þingsins og tímaáætlanir stæðust.

Sú er hér stendur vill einnig benda á að um langt skeið hefur málþóf verið þekkt fyrirbæri á Íslandi. Eftirfarandi mátti lesa í umfjöllun dagblaðs fyrir stuttu, fyrr á árinu, en þar var verið að fjalla um málþóf. Mig langar að lesa það sem stóð í þessu dagblaði, með leyfi virðulegs forseta:

„Málþóf er aldagömul aðferð til að stöðva mál og á rætur sínar að rekja til Rómaveldis. Þó tíðkast það aðeins í örfáum löndum í dag og þekkist ekki hjá öðrum Norðurlandaþjóðum. Kató yngri er fyrsti skráði málþófsmaðurinn. Árið 60 fyrir Krist kom hann í veg fyrir að Júlíus Sesar kæmi máli í gegnum rómverska þingið með því að tala fram á kvöld, en Rómverjar höfðu lög um að öllum ákvörðunum þingsins yrði að ljúka í birtu.“

Kannast ekki margir hér inni við þetta? [Hlátur í þingsal.] Það eru kannski margir eins og Kató hér inni. Auðvitað eigum við ekki að stunda slík vinnubrögð. Þau tíðkuðust árið 60 fyrir Krist en við tíðkum þau hér árið 2010 og svona vinnubrögð tíðkast ekki á öðrum Norðurlöndum.

Ég hef reyndar heyrt menn segja að það hafi verið málþóf í einu máli í Finnlandi fyrir einhverju síðan þegar ESB-aðildarviðræðurnar voru þar á dagskrá. Þá tóku einhverjir þingmenn upp á því að stunda málþóf og var það ekki til mikils fagnaðar í samfélaginu þar almennt. En annars þekkist málþóf ekki almennt á Norðurlöndunum.

Yfirleitt er það stjórnarandstaða á hverjum tíma sem stundar málþóf og oftast í aðdraganda þinghléa hvers árs. Ég vil nefna það, virðulegi forseti, að engir íslenskir stjórnmálaflokkar eru undanskildir í því samhengi, þeir eru allir undir sömu sökina seldir þar eftir því hvort þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. Rökin fyrir málþófinu eru þau að með því má skapa svokallaða samningsstöðu í lok hverrar þinglotu þannig að allir flokkar fái eitthvað fyrir sinn snúð. Þannig ná einstök mál einstakra flokka fram að ganga eða ekki og þegar um slíkt hefur samist leggst málþófið niður.

Sumir hafa reynt að færa rök fyrir því að málþóf sé eðlilegur hluti af lýðræðinu því að þannig verði meiri hlutinn neyddur til að taka tillit til minni hlutans en ég minni á í þessu sambandi að málþóf er ekki stundað á Norðurlöndunum almennt. Eru þau ekki lýðræðisríki? Jú, þau eru lýðræðisríki og því er málþóf óþarfi.

Ég tel að þessi rök vegi ekki mjög þungt og það megi líka færa rök fyrir því að málþóf sé lýðræðinu frekar skaðlegra en hitt, því að málþóf grefur undan trausti á Alþingi almennt og það er ekki lýðræðinu í hag. Margir þingmenn hafa þó fært fram þau rök að málþóf sé ein fárra leiða sem stjórnarandstaðan hafi til að hafa áhrif á gang mála á Alþingi, sérstaklega undir þinglok. Þótt færa megi slík rök fram telur sú er hér stendur rétt að breyta fyrirkomulagi á ræðutíma þannig að mál fái eðlilegan umræðutíma en málþóf leggist þá af. En til að koma til móts við þau sjónarmið að málþóf sé tæki stjórnarandstöðu til að hafa áhrif á gang mála og líka vegna þess að stjórnarandstaðan á Alþingi Íslendinga er í frekar veikri stöðu miðað við stjórnarandstöðu í öðrum norrænum þjóðþingum, tel ég eðlilegt að samhliða þeirri breytingu á þingsköpum sem hér er lögð til yrði staða stjórnarandstöðunnar styrkt. Hana mætti styrkja t.d. með því að hluti formanna nefnda þingsins kæmi úr hennar röðum, minni hluti þings gæti knúið á um að umdeild mál færu í þjóðaratkvæðagreiðslu og önnur slík atriði. Með því að styrkja þannig stöðu stjórnarandstöðunnar tel ég að ná megi fram breiðari sátt um að skapa nýja og bætta umræðuhefð á Alþingi þannig að það væri áætlað fyrir fram hve langan tíma hver umræða tæki um hvert mál fyrir sig. Ég tel að umræðuhefðin hér sé mjög gamaldags. Hún er ekki í anda nútímalegra vinnubragða þar sem er unnið af vandvirkni og eftir vinnuáætlunum.

Eins og ég gat um áðan hefur mjög mikil endurnýjun orðið á Alþingi og fjöldi nýrra þingmanna tekið þar sæti. Ég ætla að nefna tölur í þessu sambandi. Í síðustu kosningum, þ.e. í fyrra, varð endurnýjunin sú mesta frá upphafi. Á Alþingi hefur nú orðið meiri endurnýjun en nokkru sinni fyrr. Í kosningunum 2009 voru kosnir 27 nýir þingmenn af 63 sem hér sitja. Þetta eru 43%. Það nálgast það að við skiptum helmingnum út. Þetta er sögulegt og það er ástæða fyrir þessu en það er að sjálfsögðu bankahrunið sem varð. Fólk vildi sjá nýja strauma hér inni að verulegu leyti með reynslu í bland. Tæplega helmingurinn eða 43% eru nýir þingmenn.

Í kosningunum 2007 komu 24 nýir þingmenn inn á þing og því hefur orðið meiri endurnýjun á Alþingi á tveimur árum en nokkru sinni í sögunni. 42 þingmenn af 63 eða tveir þriðju hlutar þingsins hafa setið í þrjú ár. Þessu eiga að fylgja ferskir vindar. Þegar svona margt nýtt ungt fólk sest á þing hlýtur það að segja okkur að hér sé fólk sem vill sjá breytt vinnubrögð. Þetta eru einstaklingar sem margir hverjir eiga ung börn og fjölskyldu og sætta sig ekki lengur við þau gömlu vinnubrögð sem hér eru viðhöfð, að menn geti ekki áætlað umræðutíma, viti varla hvað er á dagskrá á morgun og sitji hér undir innihaldslitlum ræðum í allt of miklum mæli.

Ég vil líka nefna að konur hlutu bestu kosningu frá upphafi í síðustu kosningum og eru núna 43% þingmanna, sem er glæsilegur árangur. Ég tel að með öllum þessum nýju konum hér sé líka grundvöllur fyrir því að taka góða umræðu um þessa umræðuhefð og fara út úr henni, samþykkja ný þingsköp þar sem við takmörkum ræðutíma þannig að hann sé eðlilegur og mál fái vandaða umfjöllun og menn haldi ekki ræður um ekki neitt í of miklum mæli. Þingmenn vilja geta undirbúið ræður sínar, fá tíma til þess þannig að þær verði góðar og innihaldsríkar. Þingmenn vilja líka geta sinnt öðrum störfum, í kjördæmum, í flokksstarfi og líka fjölskyldulífi. Ef þetta á allt að vera unnt þurfa menn að breyta um takt í flutningi á sínu máli. Ég tel að núna sé tækifæri til að gera slíkar breytingar.

Ég vil líka nefna að almenningur nýtir sér nýja tækni í miklu meiri mæli en áður og það er upplýsingatæknin. Nú fylgist almenningur með því sem sagt er á þingi í meiri mæli en áður í beinni útsendingu. Það er fjöldi manns að fylgjast með okkur núna. Ég er sannfærð um að almenningur sér líka þörfina á því að breyta umræðuhefðinni í þinginu. Fólk nennir ekki að hlusta á innihaldslitla umræðu þar sem menn endurtaka sí og æ sömu hlutina, taka einn hring í innihald ræðu sinnar, taka svo annan og þriðja og svo kemur rauða ljósið og þá er farið úr pontunni. Ég tel að almenningur sjái þetta og við eigum að leggja af svona vinnubrögð.

Mig langar líka, virðulegur forseti, að lesa stuttlega upp úr ræðu sem Benedikt Gröndal flutti 1976 en þá var verið að ræða um þingsköp Alþingis. Það er svo merkilegt að hann er að segja þar hluti, virðulegi forseti, sem eiga algerlega við daginn í dag. Ég ætla að grípa niður þar sem hann talar í upphafi um þingskapaumræðuna sem þá var. Þá voru á Alþingi efri deild, neðri deild og sameinað þing, annað umhverfi, og ég ætla líka að lesa aðeins það sem hann sagði og kallaði ræðuflauminn. En svona orðaði Benedikt Gröndal, þáverandi hv. þingmaður, hlutina árið 1976, 20. október, það er bara að nálgast sá dagur núna:

„Virðulegur forseti. Vöxtur þjóðarinnar, stöðug félagsleg umbrot og tæknibylting hafa á síðustu áratugum aukið til muna verkefni Alþingis og kröfur þjóðarinnar til þess. Enda þótt kjördæmaskipun hafi verið breytt fyrir ekki löngu, þingmönnum fjölgað, aðstaða þeirra og launakjör hafi verið bætt til mikilla muna, hafa litlar breytingar verið gerðar á starfsháttum þingsins sjálfs. Slíkar breytingar verður þingið þó að gera eins og önnur þjóðþing til þess að fylgjast með tímanum og forðast að tapa áhrifum og trausti með þjóðinni. Þetta frumvarp fjallar að nokkru um slík atriði en þó engan veginn öll þau atriði sem til greina kæmi að breyta í þingsköpum eða starfsháttum þingsins.“

Hér er Benedikt Gröndal að kalla eftir breytingum á starfsháttum þingsins til að freista þess að fá meira traust hjá þjóðinni og stendur eiginlega í þeim sporum sem flutningsmaður stendur núna af því að sú er hér stendur telur að umræðuhefðin grafi undan því trausti.

Síðan fjallar Benedikt líka um nefndir þingsins. Þær voru þá, hv. þingmenn, 24 og þingmenn voru meira og minna í mörgum nefndum hver og sumir voru í sex nefndum, fjórir þingmenn voru í sex nefndum. Þá voru þrjár allsherjarnefndir. Auðvitað þurfti að breyta þessu. Þessu var reyndar breytt. Það hafa verið gerðar ýmsar jákvæðar breytingar en ekki þá sem við erum að fjalla um hér. Og nú ætla ég grípa niður í ræðu Benedikts Gröndals þar sem hann fjallar um ræðuflauminn eins og hann kallaði það. Svo segir Benedikt Gröndal árið 1976:

„Ræðuflaumur þingmanna og fjölgun þingmála eru vandamál á flestum löggjafarþingum lýðræðislanda. Í grannríkjum okkar hafa á síðustu árum verið gerðar margar breytingar á þingsköpum til að leysa þetta vandamál, og draga þær undantekningarlaust úr ræðulengd, og til þess að gera þingin starfhæf. Í flestum löndum eru mjög strangar takmarkanir á ræðulengd en hér er ekki farið inn á þá braut almennt heldur aðeins lögð til hagræðing á einum þætti þingstarfa.“ — Og svo fjallar hann um þann þátt.

Þarna er Benedikt Gröndal árið 1976 einmitt að koma inn á þá umræðu sem fór fram í þjóðþingum mjög víða um heim að vegna fjölgunar þingmála og hinna löngu og mörgu ræðna sem menn héldu voru þingin að verða óstarfhæf. Tíminn fór í ranga hluti. Menn voru að gera breytingar á ræðulengd og nánast undantekningarlaust var straumurinn í þá átt að takmarka ræðulengdina. Ég vildi gjarnan koma þessu á framfæri hér, virðulegi forseti, til að sýna svolítið fram á það að við höfum að mínu mati setið eftir í þessum efnum. Við höfum ekki tekið á þessu máli, við höfum ekki þorað að gera það. Og á meðan hér hafa verið haldnar innihaldslitlar ræður oft og tíðum, að sjálfsögðu eru þær það ekki allar en margar hverjar, hafa menn verið að nýta tímann í eitthvað annað. En þessar ræður taka of mikinn tíma í þinginu og fyrir utan það erum við með fullt af starfsfólki sem þarf að sinna þessu. Þetta er líka eyðsla á fjármunum í þinginu.

Ég ætla líka, virðulegi forseti, að fjalla aðeins um ræðukónga þingsins. Það virðist einhvern veginn, því miður, hafa orðið tilefni fjölmiðla að fjalla um þá einstaklinga sem tala lengi og þeir hafa verið kallaðir ræðukóngar og það hefur þótt frekar eftirsóknarvert að vera ræðukóngur. Það þykir flott, því miður. Einn stendur hér, hv. þm. Pétur H. Blöndal, og það stendur í Morgunblaðinu 3. júlí 2010: „Ræðukóngurinn talaði alls í 32 klukkustundir.“ Þar er sagt að hv. þingmaður hafi komið 696 sinnum í ræðustól, flutt 197 ræður o.s.frv. Ég tel reyndar að hv. þm. Pétur H. Blöndal tali oftast frekar stutt en hann talar ótrúlega oft og ég ætla ekki að gera miklar athugasemdir við það. En hér eru aðrir þingmenn sem hafa verið ræðukóngar líka og ég ætla að nefna einn í viðbót sem er kannski dæmi um hið gagnstæða, hefur talað ótrúlega oft og ótrúlega lengi, og það er hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon. Á sínum tíma var hæstv. fjármálaráðherra ræðukóngur þingsins og í Morgunblaðinu 16. júlí 2009 stendur: „Steingrímur hefur talað oftast og mest.“ Svo er farið yfir það, kom 203 sinnum í ræðustól, talaði samtals í tiltekinn tíma o.s.frv. Síðan eru aðrir tilgreindir sem koma þar á eftir. Sá hæstv. ráðherra talaði á sínum tíma, sérstaklega í stjórnarandstöðu, ótrúlega oft og ótrúlega lengi og var bara ansi öflugur í málþófi. Hann sagðist vera í málþófi.

Ég vil einnig geta þess að fjölmiðlarnir fjalla ekki einungis um þá sem tala lengi, þeir fjalla líka um þá sem tala stutt og það er upplýst á síðum dagblaðanna hverjir tala minnst, í fæstar mínútur. Hver vill vera í þeim hópi? Hvaða hv. þingmaður vill vera listaður upp fyrir að tala stutt, nánast ekki neitt. Ergo: Hefur ekkert til málanna að leggja. Þannig er upplifunin og þannig upplifa þeir hv. þingmenn það að vera listaðir upp með lítinn ræðutíma og eru jafnvel skammaðir heima í kjördæmi: Hvað ert þú að gera á þingi? Talar ekki neitt, hefur ekkert að segja, ertu ekki að berjast fyrir hagsmunum okkar? o.s.frv. Ég tel að það hafi verið mikill galli þegar þingið fór að upplýsa um þessar mínútur og klukkustundir og fjölmiðlar fóru að gera sér mat úr því með þessum hætti, því miður. Þetta er líka enn ein ástæðan fyrir því að ég vil láta breyta umræðuhefðinni, breyta ræðutímanum vegna þess að ég horfi upp á það nánast daglega og ég fullyrði nánast daglega að hv. þingmenn fara upp í pontu, halda ræður og eru að safna sér í sarpinn í ræðutímanum sínum, vilja ekki vera fyrir neðan miðju í ræðulengdinni þegar það verður gefið upp í fjölmiðlum. Þeir vilja hafa haft eitthvað að segja og maður getur, eftir þá reynslu sem maður hefur hér, nánast sagt við sjálfan sig þegar herra X eða frú X fara upp í ræðustól — þetta er oftast herra X, ég ætla ekki að nefna nein nöfn, þetta er oftast herra X — þá getur maður sagt að viðkomandi hv. þingmaður muni örugglega tala þangað til rauða ljósið birtist, örugglega. Og viti menn, það stenst yfirleitt, hv. þingmaður fer í gegnum innihaldið sem hann ætlaði að koma á framfæri, ræðutíminn er ekki búinn og hann fer yfir það aftur, ræðutíminn er ekki enn búinn og hann fer yfir það í þriðja sinn og maður situr hér og spyr sig: Hefur viðkomandi ekkert betra við tímann að gera? Af hverju þarf maður að sitja undir þessu? Hvenær kemur að mér að koma því að sem ég vildi koma að og helst í hnitmiðuðu máli? Tímanum væri betur varið öðruvísi.

Við þurfum að taka á þessu, virðulegur forseti, til að koma okkur út úr þessum gömlu vinnubrögðum, þessum gamaldagsstíl, við þurfum að fara að áætla ræðutímann fyrir fram. Ef einhver hv. þingmaður er með betri leið til þess en þá aðferð sem lögð er til í frumvarpinu er ég algerlega opin fyrir því að það sé skoðað. Það má vel vera að hægt sé að finna einhverja aðra aðferð en að láta þingforseta koma með tillögu við 1. umr. og láta greiða atkvæði um hana, það má vel vera að hægt sé að finna aðra aðferð, og láta síðan nefndir koma með tillögur við 2. og 3. umr. Þannig er þetta gert í Noregi og gefst vel en það getur vel verið að við getum fundið aðra aðferð. Ég hef rætt þetta mál við norska þingmenn og spurt þá út í þeirra umræðuhefð og þeir eiga bágt með að skilja hvað ég er að fara þegar ég lýsi því hvernig þetta er hér, að ekki séu gerðar áætlanir og það sé bara hipsum happs hvenær umræðu lýkur, fari eftir dagsformi einstakra þingmanna sem eru gjarnir á að tala o.s.frv. Þeim finnst þetta mjög sérstakt. Ég er sannfærð um það, virðulegi forseti, að ef þessi breyting nær fram að ganga verður niðurstaðan jákvæðari en við höldum í dag. Menn munu koma upp með ræður sem hafa innihald, eru örugglega rökfastar, og ég trúi því að þær verði góðar og miklu betri en þær eru í dag. Þá munu menn þurfa að koma því sem þeir vilja segja á framfæri með hnitmiðuðum hætti en geta sleppt því að lesa upp úr Die Zeit, eins og ég man að einn þingmaður gerði hér eina nóttina, las bara heilu erlendu tímaritin upp. Þetta er algert rugl, virðulegi forseti.

Vonandi komumst við út úr þessu fari og vonandi hafa þingmenn bein til að þora að taka þetta skref. Ég vona líka að stjórnarandstaðan í dag, þó að ég sé hluti af henni, falli ekki í þá gryfju að reyna að verja það kerfi sem er í dag, reyni frekar að sameinast um að bæta stöðu stjórnarandstöðunnar og hafa hlutina með öðrum hætti en þeir eru í dag.