139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

þingsköp Alþingis.

6. mál
[11:52]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni Siv Friðleifsdóttur fyrir að flytja þetta frumvarp öðru sinni. Ég get sagt það hér og nú að ég styð frumvarpið heils hugar en ég vil koma ákveðnum atriðum á framfæri.

Í vor lagði forseti þingsins fyrir þingið frumvarp til laga um breytingu á þingsköpum með þó nokkuð róttækum breytingum á nefndaskipan og ýmsum atriðum sem eru til bóta fyrir starfsemi þingsins. Frumvarpið hefur verið til umræðu í forsætisnefnd og mun nú fara í umræðu inn í þingflokkunum. Ég vona að við getum fyrr en seinna gert það að lögum og breytt þingsköpum. Mér finnst mjög mikilvægt að þetta frumvarp verði unnið samhliða. Ég held að þau verði að fara hönd í hönd. Hv. flutningsmaður kom inn á að þetta yrði auðvitað að skoðast í samhengi.

Ég styð styttingu ræðutímans því að með boðuðum breytingum frá forseta er rætt um að fækka nefndum og þingmenn sitji bara í einni nefnd. Við getum haft ákveðnari vinnubrögð í þeim málaflokkum sem við viljum beita okkur í og markvissari vinnu í þinginu. Ég tel mjög eðlilegt að á sama tíma verði umræðuhefðin eða umgjörðin um umræðurnar jafnframt tekin til endurskoðunar. Þá skiptir tímalengd miklu máli, bæði upp á að þingflokkar velji ræðumenn í málum með markvissum hætti, þó að sjálfsögðu hafi allir þingmenn frelsi til að tjá sig um þau mál sem þeir vilja, og vinnubrögðin í því að fá skipulegri dagskrá verði markvissari. Þá gætu þingmenn skipulagt tíma sinn betur og komið vel undirbúnir en þetta er ekki síður mikilvægt vegna þess að það er margoft þannig hér í þinginu að þingmenn ætla að fara á ráðstefnur um málefni sem varða þau svið sem þeir beita sér í og eru mjög mikilvægar til að gera okkur að betri löggjafa. Við hittum allra handa hagsmunasamtök og félagasamtök og kjósendur til að gera okkur að betri löggjafa. Oft á tíðum er mjög erfitt að skipuleggja slíkt því við vitum ekki hvenær málin sem við ætlum að beita okkur í eða fjalla um eru á dagskrá. Ég vildi koma inn á þennan punkt, því þetta mun stuðla að því að gera okkur að betri fulltrúum kjósenda okkar og almennings í landinu og mun gera vinnubrögð okkar markvissari og vonandi leiða til vandaðri niðurstaðna.

Ég vil koma inn á stöðu stjórnarandstöðunnar. Vandinn við þessa breytingu er að það má ekki vera þannig að skipulag á störfum þingsins dragi úr lýðræði í landinu. Það verður að vera tryggt að stjórnarandstaðan hafi öryggisventla.

Ég tek undir með hv. þingmanni Siv Friðleifsdóttur varðandi fjárlögin og frumvörp til stjórnskipunarlaga. Það er jafnframt þannig að öryggisventlar verða að vera til staðar hvað varðar fjárlög og tekjuöflun, þau frumvörp sem varða tekjuöflun. Ríkisstjórn á hverjum tíma verður að treysta því að hún komi þeim í gegn því þetta er útgjaldarammi ríkisins og tekjurammi. Það gæti skapast neyðarástand ef hægt væri að stöðva það af hálfu stjórnarandstöðu. En að sjálfsögðu verður að gefa þar meira rými og lengri ræðutíma en í öðrum málum enda er þetta grundvöllurinn að því hvernig við viljum útdeila gæðum ríkisins, fjármunum, til mismunandi málaflokka og hvaða áherslur við viljum leggja.

Hv. flutningsmaður ræddi um að hægt væri að senda mál í þjóðaratkvæðagreiðslu. Mér finnst það alveg koma til greina.

Síðan vil ég nefna eina leið sem ég held að forsætisnefnd ætti að íhuga í þessari vinnu. Það er að stjórnarandstaðan geti knúið á um að mjög umdeildum málum verði frestað, það verði að líða ákveðinn tími milli umræðna, umtalsverður tími, þannig að hægt sé að kæla mál. Mál getur verið þess eðlis að það eigi ekki beinlínis erindi í þjóðaratkvæðagreiðslu en svo miklir lýðræðislegir hagsmunir séu í húfi að stjórnarandstaðan geti kælt málið niður og beitt sér til að hafa áhrif á stefnu ríkisstjórnarinnar. Mig langaði bara að skjóta þessu að.

Ég vil endurtaka þakkir mína til flutningsmanns. Ég hefði gjarnan viljað vera með á frumvarpinu en úr því svo er ekki gerist ég eindregin stuðningskona þess og mun tala fyrir því í þingflokki Samfylkingarinnar að við veljum þessa leið og svo þarf auðvitað að útfæra hana nánar.