139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

þingsköp Alþingis.

6. mál
[12:07]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir að flytja þetta frumvarp. Ég held að það að hún sé ein flutningsmaður endurspegli ekki lítinn stuðning við málið. Það getur nú oft verið einmitt á annan hátt eins og mér hefur fundist endurspeglast í umræðunni til þessa.

Ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur öll sem störfum á Alþingi að fara mjög rækilega yfir vinnubrögð okkar. Það tekur að sjálfsögðu til þess þáttar sem þetta frumvarp fjallar um eins og allra annarra þátta í starfsháttum okkar.

Þetta frumvarp fjallar um afmarkaðan þátt þingskapanna, vinnubragðanna hér á Alþingi, því er ætlað að reyna að tryggja að umræða um mál sé skipulögð. Það þýðir ekki að það eigi að takmarka rétt manna til að tjá sig um mál, því eins og ég skil málið er hugsunin sú að nefndir leggi fram tillögur um heildartíma umræðu. Það segir sig eiginlega alveg sjálft í mínum huga að ef mál eru umfangsmikil eða um þau er verulegur pólitískur ágreiningur, munu nefndirnar væntanlega gera tillögu um ríflegan ræðutíma. Það mætti hugsanlega líka fylla út í þetta með þeim hætti að það þyrfti að vera aukinn meiri hluti í nefnd fyrir tillögu um ræðutíma þannig að einfaldur meiri hluti í nefnd gæti t.d. ekki valtað yfir minni hlutann með tillögu um ræðutíma sem minni hlutinn er ósáttur við á einhvern hátt. Á þessu er ekki beinlínis tekið í frumvarpinu, heldur einungis sagt að það eigi að taka mið af óskum nefnda um heildartíma umræðu og ekki er sjálfgefið að samstaða verði í viðkomandi nefnd um það hver heildartíminn eigi að vera.

Ég tel að sú þingnefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar, sem væntanlega er allsherjarnefnd, þurfi að ræða það aðeins betur með hvaða hætti slík ósk frá nefnd á að koma fram, hvort eigi að bera þetta upp í nefndinni eða hvort þetta geti verið ósk frá meiri hluta eða minni hluta og svo úrskurði forseti eða hvernig það er. Mér finnst nauðsynlegt að benda á að það, hvernig eigi að haga þessu, sé eitthvað sem þyrfti að ræða á vettvangi allsherjarnefndar.

Ég held að það sé hárrétt sem hv. flutningsmaður sagði þegar hún benti á hvernig þessu er háttað í öðrum þingum, t.d. er umræða um mál miklu skipulagðari á Norðurlöndunum og raunar víðar í Evrópu þar sem við þekkjum til. Þar vita menn með lengri fyrirvara hvenær mál verða tekin á dagskrá. Ég held að eitt af því sem þurfi að ræða sé að dagskrá þingsins liggi fyrir með lengri fyrirvara en er núna. Eins og við þekkjum er það iðulega ekki fyrr en í lok dags sem dagskrá næsta dags er birt, en ef menn gæfu sér betri tíma í að fara yfir það hvað einstök mál þurfa langan tíma og hvenær þau koma úr nefndum — hugsanlega þyrfti að hafa starfsáætlanir í einstökum nefndum. Ég minni t.d. á það að þegar þingsályktunartillaga um umsókn um aðild að Evrópusambandinu var til umfjöllunar í utanríkismálanefnd síðastliðið sumar lagði formaður nefndarinnar, sem hér stendur, strax í upphafi fram tímasetta áætlun um það hvenær umræðan færi fram á vettvangi nefndarinnar, hverjir yrðu kallaðir fyrir, hverjir kæmu hvenær, hvenær nefndin hittist sérstaklega án gesta til að fara yfir málið, hvenær málið yrði síðan tekið til síðari umræðu og atkvæðagreiðslu o.s.frv. Sú tímaáætlun stóðst nánast algerlega. Það var fyrst eftir að málið var komið til síðari umræðu í þinginu að það dróst þrjá eða fjóra sólarhringa umfram það sem gert hafði verið ráð fyrir sem mér fannst í sjálfu sér ekki stórvægilegt í svo stóru álitamáli. Þannig að það er hægt að gera þetta. Þetta þarf að gerast á vettvangi nefndanna líka að starfsáætlanir séu búnar til þegar menn sjá t.d. þingmálalistann sem kemur frá ríkisstjórn um hvað kemur inn í nefndina. Það kallar auðvitað líka á meiri aga varðandi framlagningu þingmála, einkum og sér í lagi frá ríkisstjórninni að harðar sé gengið eftir því að þau komi eins fljótt inn í þingið og unnt er. Auðvitað er gert ráð fyrir því í þingmálaskrá að einhver mál komi fyrst á vorþingi, það er að sjálfsögðu allt í lagi, menn verða þá bara að vita það líka að þau koma til umfjöllunar þá en ekki fyrr.

Ég tel að þetta frumvarp sé mjög góðra gjalda vert og að hugsunin í því sé mjög góð. Ég tel að kannski þurfi að ræða einstök atriði aðeins frekar, framsögumaður gat t.d. um frumvarp frá forseta Alþingis sem var lagt hér fram til kynningar í vor og tekur á fjölmörgum þáttum í starfsháttum Alþingis og það þarf auðvitað að ræða. Það verður væntanlega endurflutt í einhverri mynd, hugsanlega eitthvað breyttri mynd. Hvernig á þetta frumvarp þá að tengjast því? Á að taka þau sameiginlega út úr allsherjarnefnd eða gera þetta sér? Ég tel að hvort tveggja komi í sjálfu sér til greina, en auðvitað væri mjög jákvætt að geta tekið heildstæðar breytingar á þingsköpunum fyrir í einu lagi þannig að ég vil bara lýsa því að skoðun mín á þessu frumvarpi er jákvæð og ég tel að við séum að fikra okkur hér mjög í rétta átt með þessari hugsun.

Eins og ég segi þá vænti ég þess að heildarendurskoðun á þingsköpunum sem væntanlega fer fram í vetur geti líka orðið til þess fallin að bæta vinnubrögð okkar, gera þau skilvirkari, markvissari og vonandi þá líka að tryggja vandaðri umfjöllun um mál og vandaðri útkomu þingmála sem koma hér út úr þinginu.

Ég ítreka að ég tel að það þurfi líka að taka á starfsháttum þingnefnda þótt það verði með aðeins öðrum brag. Það verður líka að taka á vinnubrögðum þar. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt að eitt af því sem þarf að huga að er hlutur stjórnarandstöðunnar. Ég er fylgjandi því að trúnaðarstörfum í þinginu sé skipt á milli flokka í hlutfalli við styrk þeirra, þar með talið formennsku og varaformennsku í nefndum. Það er þannig hjá þingunum í kringum okkur vegna þess að hugsunin er sú að Alþingi er löggjafarvaldið. Það skiptir og skipuleggur sitt starf út frá sínum þörfum og út frá því hvernig Alþingi er samsett. Framkvæmdarvaldið er svo bara annað mál. Það eru einhverjir stjórnmálaflokkar sem mynda ríkisstjórn á hverjum tíma og þeir skipa að sjálfsögðu framkvæmdarvaldið. En það þýðir ekki að þeir sem ekki eru hluti af framkvæmdarvaldinu eigi ekki rétt í hlutfalli við styrk sinn í þinginu, þeir eiga að sjálfsögðu að eiga þann rétt, líka til trúnaðarstarfa. Þetta á að vera óháð ríkisstjórnarsamsetningu á hverjum tíma.

Ég mun tala fyrir því að slíkar breytingar geti orðið í vetur þannig að við getum endurskipulagt starfshætti okkar hér. Mér finnst það frumvarp sem hér liggur fyrir mjög góð viðbót inn í þá umræðu og þakka hv. flutningsmanni fyrir það.