139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

þingsköp Alþingis.

6. mál
[12:34]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er eiginlega opin fyrir öllum nýjum hugmyndum í þessum anda. Ef aðferðin er sú að úthluta öllum þingmönnum ræðutíma í upphafi og biðja þá svo að skila honum inn ef þeir ætla ekki að nota hann getur það alveg komið til greina. Ég held að það sé svolítið flóknara fyrirbæri.

Ég vil líka minnast á ef þingmaður er undir í þingflokki sínum og vinir eða óvinir hv. þingmanns í þingflokknum hleypa honum aldrei að, ef það væri málið, maður vill helst ekki trúa að það gæti gerst, getur vel verið að menn finni einhverjar lausnir á því, að einhverjum hluta sé ekki úthlutað af ræðutímanum, einhver aukatími sé til að fyrirbyggja það. Þá gætu þingmenn sem telja sig ofbeldi beitta af eigin þingflokki fengið af þeim hluta einhvern takmarkaðan tíma. Ég veit ekkert hvort menn mundu nýta sér það. Ég er bara að reyna að hugsa þá hugsun til enda sem hv. þingmaður kom inn á. Ég veit ekki hvort þingmenn, t.d. í Noregi þar sem þetta fyrirkomulag ríkir, hafi lent í þessu. Mér finnst það nú frekar ólíklegt. Ég held að þingmaður fari út í sérhæfingu eins og við gerum, það sé bara eðli málsins samkvæmt þegar mál eru á dagskrá úr ákveðinni nefnd að þingmaður úr þeirri nefnd verði sjálfkrafa aðalræðumaður málsins. Mér finnst því mjög ólíklegt að við lendum í slíkum vanda.

Ég ætla ekki að útiloka neinar góðar hugmyndir. Þetta með að úthluta ræðutímanum fyrst og innheimta hann svo má alveg skoða, en það er ekki sú aðferð sem ég legg upp með í þessu frumvarpi.