139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

þingsköp Alþingis.

6. mál
[12:37]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að grunnhugsunin sé alveg rétt og ég fagna að hv. þingmaður tekur undir að það þurfi að skoða. Inntak þessarar stofnunar er að við höfum öll aðgang að þessari pontu. Það er það sem við gerum í þessu starfi, við eigum að fara í pontu og tjá skoðanir okkar. Sú meginhugsun verður að liggja á einhvern hátt til grundvallar í þessu frumvarpi þannig að það sé alveg skýrt að ekki sé gengi á þann rétt. Ég er frekar bjartsýnn á að hægt sé að laga þetta til í meðförum nefndar þannig að það verði aldrei vandamál.

Ég tek undir með hv. þingmanni, það er kannski engin sérstök praktísk ástæða til að hafa miklar áhyggjur af þessu, ég er ekki viss um að þetta komi oft upp, en engu að síður þarf löggjöfin að vera í réttum anda.

Ég held að sé ágætisbyrjun að kanna hvernig þetta verði í réttum anda, hægt væri að skoða hvort þingmenn fengju alltaf þó ekki nema lágmarksræðutíma í hverju máli sem þeir gætu síðan kosið að nýta sér ekki. Það er kannski einföld leið. Auðvitað geta þeir komið upp í andsvar en það er bara ekki það sama. Það þarf að tryggja að hver einn og einasti þingmaður verði aldrei þannig undir að upp komi slíkt mál í þingsögunni sem væri fordæmalaust að þingmaður fengi ekki að fara í pontu. Það þætti mér verulega fara gegn inntaki þessa starfs og þeirri meginhugsun sem hér á að ríkja. Ég tel mjög mikilvægt að við sníðum af þennan agnúa.