139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

þingsköp Alþingis.

6. mál
[12:41]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni varðandi þann mikilvæga rétt þingmanna að hafa aðgang að ræðustól Alþingis. Kom raunar inn á það í ræðu minni og beindi því til hv. flutningsmanns að það væri mikilvægt atriði.

Hins vegar varðandi þá hugmynd hvaðan tillagan um ræðutímann eigi að koma liggur ástæða þess að ég velti því upp að forseti gerði tillöguna, einhliða eða gerði tillöguna og henni yrði síðan að hnekkja, í rauninni í því að forseti hefur á hverjum tíma væntanlega bestu yfirsýnina yfir hvaða mál koma inn og hvernig er hægt að raða niður. Ef við viljum með einhverju móti koma því að að mál fái, skulum við segja, fortakslaust afgreiðslu í þinginu, þ.e. öll mál eða sem flest mál fái einhverja afgreiðslu í þinginu, gæti komið til greina að annaðhvort forseti eða jafnvel forsætisnefnd gerði slíka tillögu vegna þess að þar er væntanlega á hverjum tíma yfirsýnin. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að auðvitað veit nefndin best um hvað málið snýst, en mín hugmynd var ekki að benda á að svo væri ekki heldur fyrst og fremst hitt að yfirsýnin hlyti að liggja hjá forseta eða forsætisnefnd.