139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við skuldastöðu heimilanna, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:03]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Ég fagna þessari umræðu, hún er löngu tímabær. Hér er gríðarlegt vandamál, sennilega mesta vandamál sem nokkurn tíma hefur steðjað að íslensku samfélagi. Vandamálið er hrunið en vandamálið er ekki síður sú langa saga ekki-lausna sem ríkisstjórnin hefur reynt að bjóða upp á eftir hrun.

Ég vil leyfa mér að rifja upp fyrsta mál þessara viðvarandi ekki-lausna sem var frumvarp félagsmálaráðherra frá sumrinu 2009. Það átti að gera gagn en var svo tyrfið og torskilið að sennilega hefur enginn getað nýtt sér það. Eina almennilega skilgreiningin þar á skuldum sem átti að fella niður voru skuldir vegna afleiðusamninga. Þar kom inn vísitala launa og atvinnustigs — það átti að skipta út vísitölu verðtryggingar fyrir einhverja nýja vísitölu sem var byggð á alveg jafnfáránlegum eða jafnvel enn þá fáránlegri grunni en sú sem menn bjuggu við.

Svona lausnir eru og voru til þess fallnar að gera málið enn flóknara og voru að mínu viti einfaldlega settar fram í blekkingaskyni. Þá var vitað og það er vitað núna hvað þarf að gera. Vitað var að vegna ástandsins þyrfti að fara út í almennar aðgerðir. Þúsundir heimila ættu eftir að lenda í miklum vandræðum og það væri of dýrt og of tímafrekt að ætla sér að afgreiða hvert einasta einstaka mál eftir einhverjum leikreglum sem var ekki enn búið að setja og menn vissu kannski ekki hvernig áttu að vera.

Málið fór því mjög skakkt af stað. Ég gleymi því ekki að til mín kom stjórnarþingmaður og sagði: Geturðu komið þessum tillögum á framfæri við félagsmálanefnd? Ég legg ekki í að gagnrýna þetta sjálfur. Ég sendi tillögurnar til félagsmálanefndar en þær voru ekki teknar til umræðu. Ég gerði athugasemd við það í 2. umr. og óskaði eftir að þær yrðu teknar til umræðu milli 2. og 3. umr. í nefndinni. Þingforseti gerði hálftímahlé á fundi. Þá stóð upp sitjandi formaður félags- og tryggingamálanefndar og sagði: Það tekur okkur nú ekki nema fimm mínútur að afgreiða þetta mál. Menn afgreiddu það síðan hér á fundi undir stiganum eins og hænur á priki.

Þannig er saga þessara mála og það er kominn tími til að henni ljúki og farið verði í að gera þetta af einhverju viti. Ég fagna ræðu hæstv. ráðherra Ögmundar Jónassonar áðan um það sem hann er að gera. Mín tilfinning frá fundinum sem ég sat í morgun uppi í Stjórnarráði er hins vegar sú að hann rói því miður enn í aðra átt en hinir ráðherrarnir sem voru á fundinum. Vonandi fara þeir að breyta áralagi sínu annaðhvort síðar í dag eða á morgun eða um helgina.

Það er vitað hvað þarf að gera. Það þarf að fara út í almennar aðgerðir og lækkun á verðtryggðum lánum. Hagsmunasamtök heimilanna hafa lagt til að 4% þak verði á verðtryggingu frá því í janúar 2008. Stöðva þarf nauðungaruppboð og vinda ofan af þeim uppboðum sem hafa farið fram vegna ólöglegra lána. Taka þarf inn ákvæði í anda lyklafrumvarps Lilju Mósesdóttur fyrir fólk sem hefur einfaldlega gefist algjörlega upp á þessari flækju og kýs frekar að leigja sér íbúð einhvers staðar á Raufarhöfn og búa þar en að taka þátt í því að vera kreist til æviloka með greiðslur. Það þarf að koma á fyrningu á kröfum. Það þýðir ekki endalaust að hlaupa eins og jarmandi sauður á eftir tillögum réttarfarsnefndar sem hefur þannig viðhorf til manneskjunnar að skelfilegt er að hlusta á. Fyrningu á upptöku krafna verður að koma í gagnið, það gengur ekki að hægt sé að elta fólk fram á grafarbakkann með því að taka endalaust upp kröfur á það. Það er einfaldlega verið að binda fólk í skuldafangelsi ævilangt og útskúfa því úr samfélaginu.

Í framhaldinu þarf síðan að beita sér fyrir því að verðtryggingin verði afnumin. Þetta er í annað skipti á 25 árum þar sem verðtrygging húsnæðislána gerir þúsundir fjölskyldna í landinu gjaldþrota. (SII: Skipta um gjaldmiðil.) Getum við ekki reynt að læra af því (Gripið fram í.) og tekið upp aðrar lausnir í staðinn? Að skipta um gjaldmiðil, segir einn hv. þingmaður. Vissulega er það ein leið og ef það er góð leið fagna ég henni.

Þeim aðgerðum sem þarf að grípa til hefur verið velt upp á fundum með forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar. Þær ganga gegn áhuga fjármálastofnana og þær ganga gegn samningi ríkisstjórnarinnar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Á það hef ég bent, bæði hæstv. fjármálaráðherra og forsætisráðherra, og spurt hvort þau séu tilbúin til að taka þann slag sem þarf gegn þeim aðilum. Ég hef enn ekki fengið jákvætt svar við þeirri spurningu og á meðan svo er ekki verð ég einfaldlega að telja að aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar rói í aðra átt en hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra gerði hér áðan.

Stjórnvöld þurfa að hafa kjark til að taka þennan slag. Þau hafa að vísu viðurkennt að þetta hafi ekki gengið upp og ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að viðurkenna það hér áðan. Það þarf kjark til að taka þennan slag og það þarf að koma afgerandi yfirlýsing frá stjórnvöldum nú á allra næstu dögum um að það verði gert. Fólk hefur áhyggjur af mótmælum og ég er sammála því að þau séu mikið áhyggjuefni. Þau munu hins vegar hætta ef það verður annað tveggja eða hvort tveggja gripið til afgerandi aðgerða til að hjálpa heimilunum í landinu og lagfæra efnahagsstefnuna og skuldastöðuna og hins vegar ef boðað verður til kosninga. Það er það sem ég heyri hér úti, að stjórnvöld hafi brugðist og að skipta þurfi um fólk á Alþingi.

Við sem gengum út úr þinghúsinu á mánudagskvöldið og fórum út á Austurvöll, í stað þess að láta flytja okkur í lögreglufylgd eitthvert út í Tjarnargötu, heyrðum einfaldlega þetta: Það þarf að skipta út fólki á þingi. Það eru til aðferðir til þess og þær heita kosningar. Ég legg til að við höldum áfram þessari vinnu og ég mun svo sannarlega mæta á mánudagsmorgunn á fund ráðherra í Stjórnarráði til að athuga hvernig þeim hefur miðað um helgina. En á þeim fundi vil ég líka fá svör ef við í Hreyfingunni eigum að taka áfram þátt í þessu starfi. Við erum full vilja til að gera það en beðið hefur verið of lengi með að gefa svör og nú er einfaldlega komið að endimörkum. (Forseti hringir.)

Í lokin vil ég samt þakka fyrir umræðuna.