139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við skuldastöðu heimilanna, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:15]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Nú eru tvö ár liðin frá bankahruninu. Öllum var ljóst þegar það varð hver verkefnin voru. Allir flokkar og sérstaklega þeir sem stýra í þessari ríkisstjórn töluðu um mikilvægi þess að slá skjaldborg um heimilin. Það er því miður orðið að einhvers konar gríni núna, fólk talar um þetta í hálfkæringi. Við hlustuðum hér á umræður þar sem var engu líkara en hæstv. ráðherrar væru í stjórnarandstöðu. Þetta voru aðilar, virðulegi forseti, sem fóru af stað í þessa vegferð vegna þess að skýra verkstjórn vantaði við stjórn landsins.

Við horfum núna á það tveimur árum seinna að sú verkstjórn hefur skilað okkur því að við vitum ekki enn hvort það sem hæstv. ráðherrar hafa sagt, að nóg sé að gert, vandinn sé leystur, sé stefna ríkisstjórnarinnar eða ekki. Það er þessi skýra verkstjórn. Hér segja menn að sérstök skuldaaðlögun, sem var stóra málið og átti að leysa vanda þúsunda aðila, hafi nýst 128 aðilum. Mér finnst það að vísu merkilegt því að ég spurði um þetta í vor og fékk þá þær upplýsingar að 1. mars hefðu þeir verið 277.

Ég man vel eftir þegar menn fengu í miklum flýti frumvarp hæstv. félagsmálaráðherra — þetta var dagaspursmál, það átti að klára það á nokkrum dögum vegna þess að þetta var stóra málið sem átti að leysa allan vandann. Við horfum nú upp á að fólk er orðið örvæntingarfullt og mótmælir kröftuglega fyrir utan þetta hús.

Hæstv. forsætisráðherra talaði um Finnland. Virðulegi forseti. Hvað gerðu Finnar loksins þegar þeir komust á beinu brautina? Hvaða lærdóm getum við dregið af því? Þeir tóku á atvinnumálum, þeir lækkuðu vexti, þeir tryggðu gott og formlegt samstarf við aðila vinnumarkaðarins. Og vitið þið hvað, þeir tryggðu gott þverpólitískt samstarf. Ég spyr ykkur hér inni: Erum við að því? Var ræða hæstv. dómsmálaráðherra liður í því, lokaorðin kannski? Voru þau grunnurinn að góðu samstarfi?

Virðulegi forseti. Fólkið vill athafnir í stað orða af góðri ástæðu. Við sjálfstæðismenn höfum í þrjár vikur beðið um fund í hv. viðskiptanefnd um gengisdóminn. Hvernig eigum við að geta tekið á þeim þætti málsins ef við skoðum hann ekki?

Við fáum fregnir af því að búið sé að lofa Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að nauðungarsölur verði ekki stöðvaðar. Hefur hæstv. forsætisráðherra breytt um stefnu í því? Ég vona svo sannarlega að svo sé.

Aðalatriðið er að nú erum við komin að þeim tímapunkti að það getur haft gríðarlega alvarlegar afleiðingar ef við þingmenn vinnum ekki saman að því að leysa þennan vanda af alvöru. Hvort sem okkur líkar betur eða verr, ef ríkisstjórnin ætlar að sitja áfram þá verður hún að kynna stefnu sína í þessum málum. Á öðrum forsendum er ekki hægt að ræða þau. Það er ekki hægt að koma hér upp hvað eftir annað og tala fjálglega um að við verðum að vinna saman. Ríkisstjórnin verður að sýna á spilin. (Forseti hringir.) Ef hún getur það ekki þá á hún að fara. (Dómsmrh.: Þetta voru frábærar hugmyndir.)